Tónleikar, Upprásin
Verð
2.000 kr
Næsti viðburður
þriðjudagur 2. desember - 20:00
Salur
Kaldalón
Á þessum tónleikum koma fram Rakur, Alter Eygló og Geðbrigði.
Harpa, í samstarfi við Tónlistarborgina Reykjavík, Rás 2 og Landsbankann, stendur fyrir Upprásinni, tónleikaröð sem tileinkuð er grasrót íslenskrar tónlistar, þvert á tónlistarstefnur. Upprásin fer nú fram þriðja árið í röð og munu samtals 27 hljómsveitir koma fram, þrjár á hverju tónleikakvöldi.
Tónleikaröðin er liður í því að framfylgja dagskrárstefnu Hörpu um bætt aðgengi grasrótar og ungs fólks í öllum tónlistargreinum og auka við fjölbreytni. Markmiðið er einnig að tónlistaráhugafólk geti gengið að því vísu að heyra fjölbreytta nýja íslenska tónlist, beint úr grasrót tónlistarlífsins, flutta við kjöraðstæður í tónlistarhúsi þjóðarinnar.
Miðaverð er aðeins 2000 kr. en hægt er að leggja til hærri upphæð í miðasöluferlinu sem rennur beint til listafólksins.
Rakur
Hljómsveitin Rakur spilar jangle-indí-popp tónlist sem höfðar til allra sem kljást við óöryggi, vanlíðan og einmanaleika í nútímasamfélagi. Reynt er að ná utan um þessar tilfinningar með blöndu af léttleika og alvöru sem togast á. Hljómsveitin var stofnuð af vinum sem vildu einfaldlega spila góða tónlist saman. Textarnir voru flestir samdir á bar, í heimapartýum eða á tónleikum sem veittu innblástur. Þar af leiðandi er textinn fullur af hrárri sjálfskoðun en einnig kímni og skemmtun.
Hljómsveitin Rakur hefur komið fram á Músíktilraunum, tónlistarhátið sem hefur veitt ungu tónlistarfólki fyrstu skref inn í listaheiminn og á Hátíðni, grasrótartónlistarhátíð sem haldin er á Borðeyri þar sem hljómsveitin kom fram undir nafninu Fjórir sveitastrákar. Hljómsveitin vinnur nú að sinni fyrstu breiðskífu.
„Þú eruð rakt eftir að hlaupa á eftir vinum þínum á sólríku sumarkvöldi. Eftir að hafa gert þitt besta. Ertu að taka réttar ákvarðanir? Hefðir þú kannski átt að fara í hefðbundið nám, fengið þér vinnu á skrifstofu? Mun hamingjan alltaf vera rétt handan við hornið? Fáðu þér sæti á meðan þú bíður eftir næturstrætó, náðu andanum.“
Hljómsveitina skipa Ragnar N. Gunnarsson Breiðfjörð, Ásgeir Kjartansson, Breki Hrafn Halldóru Ómars, Samúel Reynis og Ernir Ómarsson.
Alter Eygló
Alter Eygló er verkefni Eyglóar Höskuldsdóttur Viborg, sviðslistakonu og tónskálds, þar sem hún leikur sér með sviðsetningu og tónlist karókí. Alter Eygló hefur verið starfandi síðan árið 2020 þegar hún hélt stutta karókí-tónleika á heimasíðunni Twitch í upphafi Covid-faraldursins. Síðan þá hefur hún komið fram og verið með innsetningar í Gallerý Kannski (2022) og á hátíðunum Hamraborg Festival (2023) og Hátíðni (2024). Tónlist hennar sækir innblástur í popplagatónlist 9. og 10. áratugarins og gefst áhorfendum kostur á að syngja hástöfum með og dilla sér eilítið í takt við tónlistina.
Geðbrigði
Geðbrigði hefur ásótt neðanjarðarsenuna á Íslandi seinustu tvö árin. Hvorki þungarokk né pönk né rokk heldur allt saman, ásamt fleiru. Drunga-þunga-paunk-rokk er eins nákvæm lýsing á einhverju jafn ólýsanlegu og hljómsveitinni Geðbrigði. Tónlist og framkoma Geðbrigði endurspegla orðið sjálft, óútreiknanleg og á köflum óþægileg. Þau, sem eru forvitin um hljómsveitina, geta nálgast hana á tónleikum og samfélagsmiðlum, þar sem hljómsveitin hefur ekki enn gefið út efni.
Hraun Sigurgeirs, trommur
Agnes Ósk Ægisdóttir, gítar
Ásthildur Emma Ingileifardóttir, bassi
Þórhildur Helga Pálsdóttir, söngur
Viðburðahaldari
Harpa
Miðaverð er sem hér segir
A
2.000 kr.
Dagskrá
Kaldalón er salur staðsettur á fyrstu hæð Hörpu, norðan megin í húsinu. Hann hentar mjög vel fyrir allar tegundir tónleika, leiksýningar, ráðstefnur, fundi og listviðburði.
Næstu viðburðir í Kaldalóni