Íbúar

Harpa er heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Íslensku óperunnar, Stórsveitar Reykjavíkur og Maxímús músíkús.

Harpa er þétt samofin menningarlífi landsmanna og gegnir þar lykilhlutverki sem vettvangur fyrir tónlistar- og menningarlíf og miðstöð mannlífs í miðborg Reykjavíkur. Árið 2022 sóttu um 150.000 manns menningarviðburði í Hörpu. Harpa er heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Íslensku óperunnar og Stórsveitar Reykjavíkur auk þess sem tónlistarmúsin Maxímús músíkús trítlar reglulega um gólfin og gleður yngri gesti Hörpu. Tónleikaraðirnar Múlinn jazzklúbbur og Sígildir sunnudagar halda úti vikulegum tónleikum yfir vetrartímann. Múlinn hefur einnig fært út kvíarnar og heldur úti sumartónleikaröð sem laðar til sín erlenda ferðamenn. Velkomin heim er tónleikaröð á sumartíma þar sem ungir tónlistarmenn búsettir erlendis koma á heimavöllinn sinn og halda tónleika fyrir gesti og gangandi þar sem aðgangur er ókeypis.   

Sinfóníuhljómsveit Íslands

Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt 96 viðburði í Hörpu á árinu 2022, þar á meðal eru áskriftartónleikar, fjölskyldutónleikar, skólatónleikar, tónleikakynningar og opnar æfingar. Fjöldi skólatónleika á árinu 2022 er 24 og spanna gestir þeirra allt frá leikskólabörnum til menntaskólanema. Öflug fræðslustefna hljómsveitarinnar er Hörpu dýrmæt þar sem starf þeirra laðar fjölda barna og ungmenna í Hörpu og kennir þeim að Harpa er húsið þeirra og kynnir þau um leið fyrir heimi og mikilvægi tónlistar. Þarna eru þarna á ferðinni bæði framtíðargestir og notendur hússins og mikilvægt að leggja rækt við þennan dýrmæta hóp. Framlag Sinfóníuhljómsveitarinnar til starfseminnar í Hörpu er ómetanlegt og er þungt lóð á vogarskálarnar í öllu viðburðahaldi í Hörpu.

Íslenska óperan

Starfsemi Íslensku óperunnar springur út þegar stórar óperuuppfæslur eru settar á svið. Á árinu 2022 var íslenska óperan Brothers eftir Daníel Bjarnason sett á svið í annað sinn í Eldborg auk þess sem Íslenska óperan kom að flutningi á íslensku óperunum Hrafntinnu og Rabba rafmagnsheila. Óperan stendur fyrir vinsælum hádegistónleikum, Kúnstpásu, sem eru opnir öllum án endurgjalds. Söngskemmtun á föstudagskvöldum í Norðurljósum er nýrri af nálinni en hefur slegið rækilega í gegn og laðar til sín fjölda söngunnenda.

Stórsveit Reykjavíkur

Stórsveit Reykjavíkur heldur úti reglulegum tónleikum á hverjum vetri. Starfsemi þeirra hefur blómstrað eftir flutning þeirra inn í Hörpu og aðsókn á tónleika aukist. Stórsveitin sómir sér vel á glæsilegum og stjörnum prýddum tónleikum í Eldborg sem og í minni sölum hússins þar sem þeir gera stórsveitartónlistinni góð skil, bæði nýrri tónlist og eldri. Stórsveitin átti sterka innkomu í barnastarf Hörpu á síðasta ári með þátttöku sinni í Hljóðhimnum og hinu stórskemmtilega sveifluballi í Flóa.

Maximús Músíkús

Maxímús Músíkús á föst heimkynni í Hörpu og á þátt í að skipuleggja skemmtilega viðburði fyrir smáfólk allt árið um kring. Hann er reglulegur gestur á barna- og fjölskylduviðburðum Hörpu og barnatónleikum Sinfóníunnar.

Myndir frá starfsári Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2022

Myndir frá starfsári Íslensku óperunnar 2022

Myndir frá starfsári Stórsveitar Reykjavíkur 2022