Börn og fjöl­skyldur

Harpa hefur lagt aukna áherslu á barna- og fjölskyldumenningu sem er liður í stefnumótun Hörpu um hvernig húsið sinnir sem best menningarlegu og samfélagslegu hlutverki sínu.

Harpa hefur lagt aukna áherslu á barna- og fjölskyldumenningu sem er liður í stefnumótun Hörpu um hvernig húsið sinnir sem best menningarlegu og samfélagslegu hlutverki sínu. Mikið er lagt upp úr vandaðri fjölskyldudagskrá þar sem krakkar á öllum aldri fá að njóta sín með fjölskyldum sínum.  

Harpa opnaði á árinu barnarýmið Hljóðhimna, sem er sannkallað upplifunarrými fyrir börn og fjölskyldur til að uppgötva ævintýraheim hljóðs og tóna. Aðgengi að Hljóðhimnum er gestum að kostnaðarlausu sem og öll viðburðadagskrá sem Harpa stendur fyrir. Í Hljóðhimnum slær hjarta barnamenningar í Hörpu.

Hljóðhimnar

Ein af afmælisgjöfunum á 10 ára afmæli Hörpu 2021 var hönnun á nýju rými sérstaklega hugsað fyrir börn og fjölskyldur. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenska óperan og Stórsveit Reykjavíkur, sem eiga sitt fasta aðsetur í Hörpu, eru meðal þeirra sem lögðu sitt af mörkum til þess að skapa einstakt upplifunarferðalag um töfraheim hljóðs og tóna. Rýmið var opnað í mars 2022 og hlaut hið fallega nafn Hljóðhimnar. Þverfaglega hönnunarteymið ÞYKJÓ leiddi hönnunarferlið í samstarfi við Hörpu, Gagarín, Vísindasmiðjuna, Reykjavík Audio, IRMA, fyrrnefnda íbúa hússins og síðast en ekki síst Krakkaráð ÞYKJÓ.

Vönduð barna- og fjölskyldudagskrá

Harpa leggur mikinn metnað í barna- og fjölskyldudagskrá hússins og var Ingibjörg Fríða Helgadóttir söngkona ráðin verkefnastjóri barnamenningar. Íbúa Hörpu hafa einnig tekið virkan þátt í starfinu og má m.a. nefna Krakkaball með Stórsveit Reykjavíkur, Vögguvísutónleikar með Íslensku óperunni og Barnastund Sinfóníunnar. Maxímús músíkús fer reglulega með yngri gesti Hörpu í skoðunarferðir um húsið og heldur fyrir þau sögustund. Aðrir viðburðir hafa verið Dýratónar með Sóleyju Stefánsdóttur, Hvað í pabbanum ertu að gera með Arnari Dan Kristjánssyni og smiðjur með ÞYKJÓ.

Upptakturinn

Upptakturinn er á vegum Hörpu í samstarfi við Barnamenningarhátíð Reykjavíkur, Tónlistarborgina Reykjavík, RÚV og Listaháskóla Íslands. Með Upptaktinum eru ungmenni í 5. – 10. bekk hvött til að semja tónlist og þau sem komast áfram taka þátt í tónlistarsmiðju með nemendum skapandi tónlistarmiðlunar við Listaháskóla Íslands, auk þess að vinna að útsetningum undir leiðsögn nemenda Tónsmíðadeildar. Að þessu ferli loknu höfum við eignast nýtt tónverk sem flutt eru á tónleikum og varðveitt með upptöku.

Sendum tónlist út í geim!

Sendum tónlist út í geim! er stórt þátttökuverkefni fyrir börn þar sem Harpa er samstarfsaðili ásamt Vísindasmiðjunni, Geimvísindastofnun Íslands og hópi sjálfstætt starfandi listamanna og vísindamanna. Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði og leitt af ÞYKJÓ. Börn um allt land völdu og bjuggu til efni á eigin Gullplötu sem send var í geim(!). Verkefnið er að fyrirmynd Sounds of Earth plötunnar sem fest var af NASA á Voyager geimförin árið 1977. Harpa gegnir hlutverki aðalbækistöðvar og hófst verkefnið með fjölskyldudagskrá, smiðjum og fyrirlestrum í opnum rýmum í september ‘22. Skólasmiðjur voru haldnar í nóvember ‘22 þar sem tónmenntakennurum á höfuðborgarsvæðinu gafst tækifæri til að kafa dýpra ofan í viðfangsefnið með nemendum sínum en eitt af markmiðum verkefnisins er að styðja við tónmenntakennara landsins. Harpa hýsti lokagjörning verkefnisins þegar frumsamið lag, byggt á efni Gullplötunnar, var flutt á og í samstarfi við Big Bang tónlistarhátíðina í apríl 2023.

Aðgengi fyrir alla

Það er mikil áhersla á að auka aðgengi allra barna og fjölskyldna í Hörpu og í nóvember var boðið upp á skoðunarferð voru tekin með Maxímús á pólsku. Sú ferð gekk framar vonum og bókaðist upp á örfáum klukkustundum. Þetta sýnir okkur þörfina og eftirspurnina til dæmis fyrir viðburði á öðrum  tungumálum en íslensku. Stefnan er efla enn frekar aðgengi fyrir krakka og mun fjölskyldudagskráin taka mið af því til dæmis með skoðunarferðum á fleiri tungumálum. 

Myndir frá barna- og fjölskylduviðburðum