Stjórn­ar­hættir

Skiptir þetta máli?

image

Með útgáfu á sjálfbærniskýrslu sýnir öflugur stjórnenda- og starfsmannahópur Hörpu skýran ásetning og vilja til að tryggja Hörpu sess á meðal fremstu menningarhúsa heims á sviði samfélagsábyrgðar. Í samfélagi samtímans er árangur ekki aðeins metinn af hljómgæðum í tónleikasal eða myndinni sem birtist í efnahagslegum upplýsingum í ársreikningi. Ímynd og árangur tónlistar og ráðstefnuhúsa ræðst af samtalinu við samfélagið, samtali sem felur í sér miklu víðtækari nálgun en við höfum áður séð. Þessu fylgir sömuleiðis rík krafa um að upplýsingar séu sannreyndar og áþreifanlegar. Staðreyndir sem lúta að rekstrinum og við teljum algjörlega sjálfgefnar eru færðar í orð en aðrar flóknari áskoranir nálgumst við af varfærni, tökum stutt en ákveðin skref og stefnum að mesta mögulega árangri á öllum sviðum.

Í sinni einföldustu mynd felst sjálfbærni í því að fyrirtæki, stofnanir og hverskyns skipulagsheildir axli ábyrgð og hafi uppbyggileg áhrif á umhverfið, stjórnarhætti og samfélagið. Í uppbyggingu og stefnumótun er hugað að öllum þeim hagaðilum sem koma að rekstri skipulagsheilda á einn eða annan hátt. Sjálfbærni og samfélagsábyrgð eru innleidd í kjarnastarfsemi rekstrareiningar þar sem fylgt er eftir alþjóðlegum UFS mælikvörðum. Í sjálfbærni felst skýr ásetningur um að við skilum af okkur til næstu kynslóðar stöðu sem er sambærileg, jafnvel betri en við tókum við.

Samfélagslega ábyrg hugsun er uppspretta nýrra viðskiptatækifæra og aflgjafi sem veitir okkur innblástur og kraft til að bæta árang¬ur sinn og vera samkeppnishæfari á innlendum og erlendum mörkuðum.

Með samfélagsábyrgð og sjálfbærni að leiðarljósi mun Harpa áfram vinna að markmiðum sínum um að að vera allt í senn heimssvið og heimavöllur menningarlífs og mikilvægur þátttakandi í þróun íslensks atvinnulífs og ferðaþjónustu.

Eigendastefna  

Harpa starfar í samræmi við sértæka eigendastefnu sem tók gildi árið 2012. Að auki gilda almennar eigendastefnur íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar frá árinu 2022 en þeim er ætlað að tryggja gegnsæja, faglega og skilvirka stjórnun félagsins. Í þeim eru m.a. ákvæði um stjórnarhætti og stjórnsýslu, ábyrgðarskil, samskipti og upplýsingagjöf til eigenda. Eigendanefnd Hörpu er skipuð sex fulltrúum, þremur frá hvorum eiganda og er meginhlutverk hennar að samræma sjónarmið eigenda í málefnum félagsins.  

Nánar um eigendastefnu Hörpu

Stjórnarhættir

Stjórn Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss leitast við að viðhalda góðum stjórnarháttum og fylgir eftir „Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja“ sem Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq Iceland og Samtök atvinnulífsins gáfu út árið 2021.  Stjórn Hörpu hefur sett sér starfsreglur þar sem valdsvið hennar er skilgreint og verksvið gagnvart forstjóra.  Í starfsreglum stjórnar er meðal annars að finna reglur um fundarsköp, reglur um þagnarskyldu, upplýsingagjöf forstjóra gagnvart stjórn og fleira. Reglurnar eru aðgengilegar á heimasíðu félagsins ásamt siðareglum stjórnar og starfsfólks.  Stjórn hefur jafnframt sett starfskjarastefnu sem birt er á heimasíðu félagsins. Stjórn samstæðunnar ákveður starfskjör forstjóra. Fundir stjórnar á árinu voru 11 talsins. 

Stjórn Hörpu 2022

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir

Stjórnarformaður

Situr í endurskoðunarnefnd - í stjórn Hörpu frá 2019

Árni Geir Pálsson

Varaformaður stjórnar

Situr í endurskoðunarnefnd Hörpu - í stjórn Hörpu frá 2017

Aðalheiður Magnúsdóttir

Stjórnarmaður

Í stjórn Hörpu frá 2018

Guðni Tómasson

Stjórnarmaður

Formaður dagskrárráðs Hörpu - í stjórn Hörpu frá 2019

María Rut Reynisdóttir

Stjórnarmaður

Í stjórn Hörpu frá 2022

Skipurit 2022

Greiðslumiðlunin Hringur ehf.

Meginstarfsemi og tilgangur félagsins

Greiðslumiðlunin Hringur ehf. er hluti af samstæðu Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. (Harpa) og hefur þann tilgang að gefa út skuldabréfaflokk vegna byggingar tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu við Austurhöfn í Reykjavík og annast mánaðarlegar afborganir af útgefnum skuldabréfum í samræmi við ákvæði samnings um rekstur og starfsemi Hörpu.

Framlag íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar vegna byggingar og fjármögnunar Hörpu gengur til greiðslu á lántöku og er veðsett á móti skuldum félagsins. Framlagið byggir á samningi um rekstur og starfsemi Hörpu þar sem íslenska ríkið og Reykjavíkurborg skuldbinda sig til að greiða mánaðarlega framlag í 35 ár til Hörpu. Upphafsgreiðsla var í mars 2011 og greiðslu lýkur árið 2046.

Rekstrarfélagið Stæði slhf.

Meginstarfsemi og tilgangur félagsins

Tilgangur félagsins er að annast rekstur bílastæðahúss Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss við Austurhöfnina í Reykjavík. Félagið er samlagshlutafélag og ósjálfstæður skattaðili. Skattskyldur hagnaður er skattlagður hjá félagsaðilum á grundvelli hlutafjáreignar. Móðurfélag félagsins er Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf. (Harpa).

Rekstrarfélagið Hörpustrengir ehf.

Meginstarfsemi og tilgangur félagsins

Rekstrarfélagið Hörpustrengir ehf. stendur fyrir menningarviðburðum í Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúsi. Starfsemi félagsins á því sviði lýtur að tónlistar- og menningarviðburðum sem hvorki teljast í samkeppni við aðra afþreyingarmarkaði né fasta notendur Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf.

Dótturfélög 2022