Samfé­lags­ábyrgð

Harpa hefur sett sér markmið um að vera til fyrirmyndar í umhverfis– og loftslagsmálum með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni og þeim áhrifum sem losunin hefur í för með sér. Harpa tekur þannig virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Harpa ber ríkar skyldur til að  ganga á undan með góðu fordæmi þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð og innleiðingu sjálfbærni á öllum sviðum starfseminnar. Sjálfbærnistefna Hörpu tekur mið af alþjóðlegum mælikvörðum og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Harpa gefur út í fyrsta sinn árs- og sjálfbærniskýrslu samhliða ársreikningi í samræmi við UFS leiðbeiningar sem gefnar eru út af Nasdaq í samstarfi við Viðskiptaráð.  Markmiðið er að miðla upplýsingum um starfsemina og áhrif hennar á umhverfið og samfélagið. Langbrók ráðgjöf hefur veitt álit með takmarkaðri vissu á ófjárhagslegri upplýsingagjöf Hörpu sem fylgir UFS leiðbeiningum Nasdaq.

Frá upphafi árs 2022 hefur stýrihópur um sjálfbærnimál verið starfandi sem hefur leitt mörkun og innleiðingu sjálfbærnimarkmiða með aðstoð sjálfbærniráðgjafa þar sem megin áherslan er að innleiða UFS mælikvarða og á sama tíma að leggja kapp á það að efla félagsleg áhrif Hörpu og menningarvitund í samfélaginu. Harpa hefur innleitt öll Græn skref Umhverfisstofnunar og fékk Svansvottun fyrir ráðstefnuaðstöðuna Hörpu árið 2022. 

Harpa hefur frá árinu 2015 unnið markvisst að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vil á þann hátt taka virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar. Harpa hefur gefið út loftslags- og umhverfisstefnu árið 2021.