15. desember 2025

Úthlutun úr Styrktarsjóði samtaka um tónlistarhús og Ruthar Hermanns

Tuttugu fjölbreytt tónlistarverkefni hlutu styrk úr Styrktarsjóði samtaka um tónlistarhús og Ruthar Hermanns til tónleikahalds í Hörpu árið 2026 en úthlutun fór fram 2. desember sl. Heildarupphæð styrkja var kr. 7.000.000 og er öllum handhöfum óskað til hamingju.

Handhafar styrkja úr Styrktarsjóði samtaka um tónlistarhús og Ruthar Hermanns

Eftirfarandi tónlistarverkefni hlutu styrk að þessu sinni:

Ástin, ástin – Tríó Sól & vinir.
Í febrúar verður rómantíkin í forgrunni á tónleikum strengjatríósins Sólar, en það skipa fiðluleikararnir Emma Garðarsdóttir og Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir ásamt víóluleikaranum Þórhildi Magnúsdóttur. Með þeim verða Hanna Ágústa Olgeirsdóttir, sópran og Þórdís Gerður Jónsdóttir, selló. Á efnisskrá verða m.a. verk eftir Samuel Barber, Gustaf Holst og Caroline Shaw.

Frá Berlín til Reykjavíkur
Pétur Björnsson, fiðla, Ingólfur Vilhjálmsson, klarinett og Elena Postumi, píanó flytja framúrstefnulega og metnaðarfulla efnisskrá með verkum eftir Rebeccu Saunders, Alban Berg og Béla Bartók ásamt frumflutningi á verki eftir Elenu.

Ea Fantasia
Una Sveinbjarnardóttir, fiðluleikari fagnar útgáfu samnefndar plötu með einleiksverkum, eftir Karólínu Eiríksdóttur, Maríu Huld Markan, Lilju Maríu Ásmundsdóttur, John Speight, Svein Lúðvík Björnsson, Jón Nordal og Nicola Matteis, auk eigin verka.

Frá fiðlu til fiðlu
Sif Margrét Tulinius flytur krefjandi einleiksverk eftir J. S. Bach, Béla Bartok og örverk ungverska tónskáldsins György Kurtág sem fagnar 100 ára afmæli á árinu.

Jazzklúbburinn Múlinn
Múlinn stendur fyrir um fjörutíu tónleikum á ári í Hörpu þar sem fram kemur fremsta jazztónlistarfólk landsins auk alþjóðlegra jazztónlistarmanna. Múlinn býður upp á fjölbreytta tónleikadagskrá árið 2026 en tónleikar fara fram í Björtuloftum og í Kaldalóni. Ólafur Jónsson og Haukur Gröndal sjá um framkvæmd og skipulag tónleikaraðarinnar.

Ljóðatónleikar með tónlist eftir Mahler og Strauss
Bryndís Guðjónsdóttir, sópran og Eva Þyri Hilmarsdóttir, píanó, flytja tvo ljóðaflokka eftir Gustaf Mahler og Richard Strauss á tónleikum í Norðurljósum, Hörpu árið 2026.

Jóhannesarpassían eftir J. S. Bach
Í tilefni af 50 ára afmæli Sumartónleika í Skálholti gengst hátíðin fyrir flutningi á Jóhannesarpassíu J. S. Bach í Eldborg, 1. mars 2026. Flytjendur verða kammerkórinn Schola Cantorum, Barokkbandið Brák og Finnish Baroque Orchestra ásamt íslenskum og erlendum einsöngvurum. Benedikt Kristjánsson, listrænn stjórnandi Sumartónleikanna mun fara með hlutverk guðspjallamannsins og stjórna tónleikunum.

Kammermúsíkklúbburinn
Í hartnær sjö áratugi hefur Kammermúsíkklúbburinn staðið fyrir flutningi kammertónlistar í flutningi framúrskarandi flytjenda. Klúbburinn gengst fyrir sex tónleikum starfsárið 2025 – 2026 sem fara fram í Norðurljósum, Hörpu. Listrænn stjórnandi er Ari Vilhjálmsson.

Kammersveit Reykjavíkur
Allt frá stofnun Kammersveitarinnar árið 1974 hefur sveitin leitast við að færa hlustendum áhugaverða tónlist og gefa hljóðfæraleikurum tækifæri til að takast á við kröfuhörð verkefni. Sérstök áhersla hefur verið lögð á frumflutning íslenskra tónverka og að flytja erlend verk sem ekki hafa heyrst hér á landi. Kammersveitin heldur árlega ferna tónleika í Norðurljósum í Hörpu.

Kveðja – tríótónleikar
Kristín Ýr Jónsdóttir, flauta, Þórhildur Magnúsdóttir, víóla og Gunnhildur Einarsdóttir, harpa flytja efnisskrá sem er innblásin af áhrifum flautuleikarans Manuelu Wiesler á íslenskt tónlistarlíf.

Myrkir músíkdagar
Myrkir músíkdagar er ein elsta tónlistarhátíð landsins, stofnuð árið 1980 af Tónskáldafélagi Íslands. Markmið hátíðarinnar er meðal annars að kynna og flytja íslenska samtímatónlist sem og erlend verk og flytjendur. Hátíðin fer fram árlega í lok janúar í Hörpu.

Navaranaaq
Navaranaaq er samstarfsverkefni Mótettukórsins og stjórnanda hans, Stefan Sand, grænlenska skáldsins Kimmernaq Støvlbæk og tónskáldsins Nuka Alice, sem semur með Stefáni nýtt verk byggt á Ólafsrímum, fyrir strengjasveit, blandaðan kór, barnakór og trommudansara. Verkið verður flutt ásamt fleiri verkum í Norðurljósum og síðar bæði í Nuuk og í Osló.

Óperudagar
Óperudagar er árlegur vettvangur klassískra söngvara og samstarfsfólks þeirra sem vilja í sameiningu og í samstarfi efla og styrkja óperu-, söng- og tónlistarleikhússenuna á Íslandi. Óperudagar fara næst fram í lok október 2026 og er listrænn stjórnandi Guja Sandholt.

Píanókvartettinn Negla
Kvartettinn Neglu skipa Sólveig Steinþórsdóttir, fiðla, Anna Elísabet Sigurðardóttir, víóla, Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir, selló og Þóra Kristín Gunnarsdóttir, píanó. Á tónleikum í Hörpu munu þær flytja metnaðarfulla dagskrá með verkum eftir Gabriel Fauré og Amöndu Röntgen-Maier.

Reykjavík Early Music Festival
Reykjavík Early Music Festival er alþjóðleg barokkhátíð sem verður haldin í þriðja sinn í Hörpu, í dymbilviku árið 2026. Boðið verður upp á metnaðarfulla og fjölbreytta dagskrá sem stuðlar meðal annars að samstarfi íslenskra og erlendra tónlistarhópa. Á meðal hápunkta vorsins 2026 verða tónleikar með söngkonunni Christinu Pluhar og hljómsveit hennar, L’Arpeggiata frá Frakklandi. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Elfa Rún Kristinsdóttir, fiðluleikari.

Stórsveit Reykjavíkur
Stórsveit Reykjavíkur er eitt af flaggskipunum í íslensku tónlistarlífi. Dagskrá starfsársins 2025 – 2026 er glæsileg, framsækin og metnaðarfull þar sem boðið verður upp á formlega og óformlega tónleika með tónlist úr ólíkum áttum, glænýrri og sígildri í bland. Stórsveit Reykjavíkur er einn af íbúum Hörpu.

Tónlistarhátíðin Seigla
Seigla fer fram aðra helgina í ágúst í Hörpu en hátíðin var fyrst haldin árið 2021. Markmið Seiglu er meðal annars að skapa náið samfélag milli flytjenda og áheyrenda og að endurhugsa hefðbundin mörk milli þeirra sem flytja tónlistina og þeirra sem njóta. Listrænn stjórnandi Seiglu er Erna Vala Arnardóttir, píanóleikari.

Yerma og önnur leikhústónlist Hjálmars H. Ragnarssonar
Flutt verður leikhústónlist sem spannar allan feril Hjálmars með höfuðáherslu á tónlist úr sýningunni Yermu árið 1987. Meðal flytjenda verða Hallveig Rúnarsdóttir, Herdís Anna Jónsdóttir, Hildigunnar Einarsdóttir og Cantoque Ensemble.

Ýr og óvæntar áttir
Tríó Sírajón skipa þau Einar Jóhannesson, klarinett, Laufey Sigurðardóttir, fiðla og Anna Áslaug Ragnarsdóttir, píanó. Þau munu á tónleikum í Hörðu frumflytja verk eftir Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur og flytja í fyrsta sinn á Íslandi tríó eftir Hans Gál og Paul Schopenfield.

Þór Breiðfjörð – Með hjartað opið
Þór í félagi við hljóðfæraleikura flytur frumsamið efni af samnefndri plötu sem kemur út árið 2026. Viðfangsefni Þórs eru ástin, óttinn og mennskan.




Fréttir