15. október 2025
Jafnrétti er ákvörðun
Harpa hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, annað árið í röð.

Harpa hefur hlotið viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis Félags kvenna í atvinnurekstri (FKA), fyrir árið 2025. Þetta er annað árið í röð sem Harpa hlýtur viðurkenninguna fyrir að ná markmiði verkefnisins um jöfn kynjahlutföll í framkvæmdastjórn félagsins.
Harpa undirritaði viljayfirlýsingu um Jafnvægisvogina í október 2020 og fól yfirlýsingin í sér að Harpa hét því að vinna að markmiðum Jafnvægisvogarinnar til næstu 5 ára eða til ársins 2025. Tilgangur verkefnisins er að auka jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á Íslandi og er markmiðið að hlutföllin milli kynja séu 40/60 í framkvæmdastjórnun fyrirtækja á Íslandi.
Elín Hjálmsdóttir, mannauðs- og gæðastjóri Hörpu, veitti viðurkenningunni móttöku á viðurkenningarhátíð Jafnvægisvogarinnar 2025 þann 9. október sl.
Um verkefnið
Jafnvægisvogin er mælitæki sem hefur eftirlit með stöðu og þróun kynjajafnréttis í stjórnum og framkvæmdastjórnum og er verkefnið að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir, og að taka saman heildræna stöðu og niðurstöðu greininga á stöðu stjórnenda í íslensku atvinnulífi og birta niðurstöður.
Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni FKA og unnið í samstarfi með Creditinfo, Deloitte, dómsmálaráðuneytinu, Pipar\TBWA, RÚV, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá.