10. desember 2025
Úthlutun úr Ýli til tónleikahalds í Hörpu
Tíu tónlistarverkefni hlutu að þessu sinni styrk úr Ýli, tónlistarsjóði Hörpu fyrir ungt fólk, en tilkynnt var um úthlutanir 4. desember sl.

Hæsta styrkinn hlaut að þessu sinni Reykjavík Early Music Festival, sem haldin verður í þriðja skipti dagana 31. mars – 2. apríl, árið 2026. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Elfa Rún Kristinsdóttir, fiðluleikari, en hátíðin er fyrsta alþjóðlega barokkhátíðin í Reykjavík. Eitt af markmiðum hennar er meðal annars að skapa tækifæri fyrir ungt tónlistarfólk að sækja sér þekkingu og innblástur og veita tónlistarunnendum andlega næringu óháð efnahag - hátíðin gengst fyrir gjaldfrjálsum hádegistónleikum og fjölskylduviðburðum samhliða metnaðarfullri tónleikadagskrá.
Nýsköpun, tilraunir, óhefðbundið tónleikaform
Seigla, kammertónlistarhátíð í Hörpu og Óperudagar voru á meðal annarra hátíða sem hlutu styrk úr Ýli en báðar hátíðir hafa fest sig rækilega í sessi á meðal tónlistarunnenda hér á landi.
Seigla var fyrst haldin árið 2021 og fer fram aðra helgina í ágúst í Hörpu. Frá upphafi hefur Seigla beitt sér fyrir því að ná til bæði ungs og fjölbreytts hóps tónleikagesta. Boðið er upp á ólíka viðburði þar sem hið hefðbundna tónleikaform er brotið upp en tónleikar fara fram í Norðurljósum og einnig í opnum rýmum Hörpu þar sem aðgangur er gjaldfrjáls. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Erna Vala Arnardóttir, píanóleikari.
Óperudagar hafa farið fram að hausti víðs vegar um höfuðborgarsvæðið, allt frá árinu 2016. Markmiðið með hátíðinni er fjölþætt, meðal annars að stuðla að nýsköpun og tilraunum, efla óperu-, söng- og tónlistarleikhússenuna á Íslandi og standa fyrir vönduðum og fjölbreyttum viðburðum á venjulegum og óvenjulegum stöðum. Næstu Óperudagar fara fram haustið 2026 en listrænn stjórnandi er Guja Sandholt.
Candy Floss og Jóhannesarpassían
HIMA – Alþjóðlega tónlistarakademían hlaut styrk til tónleikahalds í Hörpu en þar munu tæplega hundrað strengjanemendur á aldrinum 9 – 22 ára flytja einleiks- og kammerverk að loknu námskeiði á vegum HIMA, í júní 2026. Unglist, listahátíð ungs fólks, hlaut einnig styrk til tónleikahalds í Hörpu árið 2026 en þar mun ungt fólk, á aldrinum 16 – 25 ára, koma fram á klassískum tónleikum í Kaldalóni.
Önnur verkefni sem hlutu styrk frá Ýli voru tónleikarnir Candy Floss með gítarleikaranum og tónskáldinu Francesco Rista, útgáfutónleikar jazzsöngkonunnar og söngvaskáldsins Silju Rósar Ragnarsdóttur, Upptakturinn, tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna, tónleikar með brasshópnum North Atlantic Brass og afmælistónleikar Sumartónleika í Skálholti sem fram fara 1. mars 2026 en þar bjóða ungir tónlistarmenn undir stjórn Benedikts Kristjánssonar upp á flutning á Jóhannesarpassíunni eftir J. S. Bach í Eldborg.
Úthlutunarnefnd Ýlis skipuðu að þessu sinni Guðni Tómasson, fyrir hönd Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Pétur Jónasson, fyrir hönd Listaháskóla Íslands og Elísabet Indra Ragnarsdóttir, fyrir hönd Hörpu.