5. maí 2025, 00:00
Ertu með hugmynd?
Við leitum að hugmyndum að fjölskylduvænum viðburðum!

Harpa óskar eftir hugmyndum frá börnum, fjölskyldum og listafólki að skapandi og skemmtilegum viðburðum fyrir Fjölskyldudagskrá vetrarins 2025–2026.
Viðburðir á dagskránni eru tónlistartengdir, fjölbreyttir og aðgangur er ókeypis. Þeir fara fram að meðaltali tvisvar í mánuði og dæmi um fyrri viðburði eru sögustundir og tónlistarferðir með Maxímús Músíkús, aðventustundir, tónlistarsmiðjur, samsöngur, ratleikir, tónleikar og sýningar.
Harpa hefur haft aðgengismál í brennidepli síðustu misseri og sérstaklega er óskað eftir hugmyndum að viðburðum sem eru aðgengilegir sem flestum – til dæmis án sérstakrar tungumálakunnáttu eða sem hægt er að halda á fleiri en einu tungumáli.
Allar hugmyndir eru velkomnar – hvort sem þær eru tilbúnar í framkvæmd eða á byrjunarstigi.
Sendu okkur þína hugmynd með því að fylla út þetta eyðublað: SMELLTU HÉR
Rík áhersla á barnamenningu í Hörpu
Í stefnu Hörpu er lögð rík áhersla á barnamenningu og er það mikilvægur hluti af því að sinna sem best menningarlegu og samfélagslegu hlutverki hússins. Mikið er lagt upp úr vandaðri fjölskyldudagskrá á vegum Hörpu sem er aðgengileg öllum börnum óháð fjárhag, uppruna, tungumáli eða heimili, þeim að kostnaðarlausu.
Undanfarin ár hefur Harpa staðið að um 40 barna- og fjölskylduviðburðum yfir árið auk hátíðardagskrár á Menningarnótt þar sem tugir viðburða eru ætlaðir fjölskyldufólki.
Hljóðhimnar er tónlistartengt upplifunar- og uppgötvunarrými fyrir börn á jarðhæð hússins sem er afar vinsælt og að auki heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands opnar barnastundir og fjölskyldutónleika. Tvö barnaleikrit eru jafnframt í reglulegri sýningu í Hörpu og er því úr nægu að velja í fræðslu, upplifun og skemmtun fyrir börn.