10. janúar 2023

Samfé­lagið á RÚV fjallar um nýfengna

Svansvottun Hörpu sem ráðstefnuhús.

Harpa hefur hlotið Svansvottun sem ráðstefnuhús. Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggir á óháðri vottun og viðmiðum sem staðfestir strangar umhverfis- og gæðakröfur starfseminnar. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins með hag komandi kynslóða að leiðarljósi og bjóða neytendum val um umhverfisvæna kosti.

Þátturinn Samfélagið á RÚV í umsjón Þórhildar Ólafsdóttur og Guðmundar Pálssonar ræddi við Ástu Ólafsdóttur sviðsstjóra viðskipta- og markaðssviðs og Rakel Lárusdóttur sérfræðings á umhverfis- og fasteignasviði um vottunarferlið og mikilvægi þess fyrir starfsemina.

Hér má hlusta á viðtalið í heild sinni.

Harpa hefur markað sér stefnu í samfélagsábyrgð og vill vera til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum. Það er meðal annars gert með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda af starfseminni og lágmarka sóun og kolefnisfótspor af viðburðahaldi í húsinu. Harpa hefur jafnframt hlotið viðurkenningu fyrir að hafa uppfyllt öll 5 Græn skref Umhverfisstofnunar sem eru lykill að umhverfisvænni opinberum rekstri. 

Harpa tekur virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar og Svansvottunin skiptir miklu máli á þeirri vegferð. Á hverju ári eru haldnar mörg hundruð ráðstefnur, fundir, veislur og fagsýningar í Hörpu þar sem gestir skipta tugum þúsunda og koma hvaðanæva að úr heiminum. Viðskiptavinir Hörpu geta nálgast skýrslur um kolefnisfótspor einstaka viðburða og stendur þeim jafnframt til boða að kolefnisbinda áhrifin. Með Svansvottuninni styrkir Harpa enn frekar stöðu sína og samkeppnishæfni sem ráðstefnuhús á heimsmælikvarða“, segir Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu.

Nánar um græna stefnu Hörpu.

Á myndinni má sjá Guðlaug Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra afhenda Svanhildi Konráðsdóttur forstjóra Hörpu umhverfismerki Svansins.

Fréttir