23. ágúst 2025

Frábærlega vel heppnuð Menningarnótt í Hörpu

Harpa þakkar gestum fyrir komuna og öllu listafólkinu sem tók þátt í að gera daginn ógleymanlegan!

a person is doing a trick on a bike in front of a building .

Mörgþúsund manns lögðu leið sína í Hörpu á Menningarnótt og nutu litskrúðugrar og glæsilegrar dagskrár þar sem mörg hundruð listamenn lögðu sitt lóð á vogarskálarnar.

Viðburðir á fjórða tug og teygðu sig um alla Hörpu með skapandi smiðjum fyrir börn og fjölskyldur með ÞYKJÓ, Sóleyju Stefánsdóttur og Kordu Samfóníu, tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Stórsveit Reykjavíkur og Blúsfélagi Reykjavíkur og fjölbreyttri dagskrá með Reykjavík Bókmenntaborg, Myrkum músíkdögum, List án landamæra og Kammermúsíkklúbbnum svo örfáir viðburðir séu nefndir.

Á Hörputorgi ríkti sannkölluð karnivalstemning með hinum árlega lúðrasveitabardaga, glæsilegum áhættuatriðum BMX Brós og hinni vinsælu bátasmiðju Memmm. Dans Brynju Péturs sýndi magnað hipphopp atriði og Heidi Miikki steig veggjadans á Hörpuhjúp en að baki dagskránni á Hörputorgi stóðu Landsbankinn og Hafnartorg auk Hörpu.

Mugison ásamt kammerkórnum Huldi leiddi svo einstaklega fallegan fjöldasöng í alrými Hörpu undir lok dags. Gestir Hörpu tóku undir svo ómaði um allt húsið. Einstakt niðurlag á mögnuðum degi.

Menningarnótt í Hörpu markar einum þræði upphafið að komandi menningarvetri en framundan er fjölbreytt og áhugaverð dagskrá fyrir allar kynslóðir sem má kynna sér betur hér á vefnum.

Harpa þakkar gestum fyrir komuna og öllu listafólkinu sem tók þátt í að gera daginn ógleymanlegan!

Fréttir