6. maí 2024

Upprásin 2024/2025 - Opið fyrir umsóknir

Tónleikaröð tileinkuð grasrót íslenskrar tónlistar, þvert á tónlistarstefnur.

Nýverið lauk frábæru fyrsta ári Upprásarinnar, tónleikaröð tileinkaðri grasrótar íslenskrar tónlistar, þvert á tónlistarstefnur. Harpa í samstarfi við Tónlistarborgina Reykjavík og Rás 2 stendur að verkefninu og er það liður í dagskrárstefnu Hörpu um að styðja við og bæta aðgengi grasrótar og ungs fólks í öllum tónlistargreinum að Hörpu og auka við fjölbreytni og aðgengi tónlistaráhugafólks að nýrri íslenskri tónlist, beint úr grasrót tónlistarlífsins, flutta við kjöraðstæður í tónlistarhúsi þjóðarinnar.

Upprásin var haldin í fyrsta sinn sl. vetur (2023-2024). Auglýst var eftir umsóknum á vormánuðum 2023 og bárust 134 umsóknir sem voru hver annarri betri. Vegna fjölda umsókna var ákveðið að stækka verkefnið og koma fyrir þremur hljómsveitum á hverju tónleikakvöldi. Alls voru haldin átta tónleikakvöld frá september ´23 til apríl ´24 þar sem fram komu 24 hljómsveitir með 88 þátttakendum af öllum kynjum.

Upprásin var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2023 í flokknum viðburður ársins og einnig til "Shout out" verðlaunananna hjá Reykjavik Grapevine Music Awards.

Í dag opnaði fyrir umsóknir fyrir þátttöku í Upprásinni veturinn 2024-2025 og eru öll áhugasöm hvött til að sækja um. Frestur til að senda inn umsókn er til og með 20. maí nk.

Nánari upplýsingar

Fréttir