26. apríl 2023

Þrótt­mikil viðspyrna

1267 viðburðir haldnir á árinu 2022 um er að ræða 47% aukningu á milli ára.

Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf. (Harpa) hefur gefið út samstæðureikning sinn fyrir rekstrarárið 2022 og var hann samþykktur á aðalfundi Hörpu sem haldin var í dag. Fyrsta samþætta árs- og sjálfbærniskýrsla Hörpu var jafnframt kynnt og er hún í samræmi við UFS leiðbeiningar Nasdaq um samfélagsábyrgð. Síðasta rekstrarár einkenndist af miklum viðsnúningi í viðburðarhaldi á fyrsta ársfjórðungi eftir afléttingu samkomutakmarkana vegna heimsfaraldursins og nálgaðist fjöldi viðburða síðasta árið fyrir heimsfaraldurinn, eða 1267 samanborið við 867 árið 2021.Áhrifa Covid-19 gætti þó áfram með ýmsum hætti svo sem í færri heimsóknum ferðamanna og breyttri kauphegðun tónleikagesta. Fjöldi heimsókna í húsið var rétt rúmlega 1 milljón samkvæmt talningakerfi við innganga.

Á aðalfundi félagsins voru gerðar þær breytingar að Aðalheiður Magnúsdóttir, Guðni Tómasson og María Rut Reynisdóttir hverfa nú úr stjórn. Nýir stjórnarmenn eru Jón Sigurgeirsson, Friðjón R. Friðjónsson og Hrönn Greipsdóttir.  Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir var endurkjörin formaður og Árni Geir Pálsson verður jafnframt áfram í stjórn. Varamenn voru kosnir í fyrsta sinn og skipa þau sæti María Rut Reynisdóttir og Emilía Ottesen.

Lykiltölur rekstrar samstæðunnar

Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 365,2 milljón króna árið 2022, samanborið við 121,8 milljónir króna árið 2021. Tekjur af starfseminni námu 1.593,5 milljónum króna samanborið við 782,5 milljónum króna árið 2021, en voru fyrir áhrif Covid-19 1.209,6 milljónir árið 2019 og nemur hækkunin frá þeim tíma 32%. Rekstrarframlag frá eigendum nam í upphafi árs 450 milljónum króna auk tekjufærðs mismunar vegna fjármögnunarsamnings 27,2 milljónir króna en vegna íþyngjandi áhrifa heimsfaraldursins náðust samningar um viðbótarframlög að fjárhæð 281,0 milljónir króna. Alls námu því tekjur samstæðunnar 2.351,7 milljónum króna og er það 784 milljóna króna hækkun frá fyrra ári. Áætlað skatta­spor Hörpu nam á árinu 2022  971 milljónir króna. Meg­inþorri skatta­spors­ins felst í fasteignagjöldum hússins, eða 316 milljónir króna. Aðrir skattar eru Innheimtir staðgreiðsluskattar og útsvar vegna starfsmanna, tryggingagjald, virðisaukaskattur, lífeyrisgreiðslur og ýmissa annarra opinberra gjalda sem tengjast starfseminni.

Eigið fé samstæðunnar nam 10,8 milljörðum króna í árslok 2022 og er eiginfjárhlutfallið 31%. Hjá samstæðunni voru 125 einstaklingar á launaskrá á árinu 2022 og er það fjölgun um 8 frá árinu 2021.

Sjálfbærniáherslur Hörpu

Harpa hefur mikilvægu hlutverki að gegna í samfélaginu með rekstri á tónlistar- og ráðstefnuhúsi þar sem tilgangurinn er að skapa menningarleg, efnahagsleg og samfélagsleg verðmæti fyrir eigendur sína, sem eru landsmenn allir. Harpa vil vera til fyrirmyndar og leggur ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð og vinnur markvisst að því að auka sjálfbærni á öllum sviðum starfseminnar. Sjálfbærniáherslur og stefna Hörpu taka mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og á síðastliðnu ári hófst innleiðing UFS sjálfbærnimælikvarða í starfsemina. Stýrihópur í samfélagsábyrgð vann að kortlagningu helstu snertiflata starfseminnar við umhverfi, efnahag og samfélag í samstarfi við sjálfbærniráðgjafa. Sjálfbærnivegferð Hörpu hófst í raun árið 2015 með skýrum umhverfismarkmiðum sem snéru að því að vinna markvisst að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og ná fram kolefnishlutleysi í starfseminni árið 2030. Harpa hefur innleitt öll Græn skref Umhverfisstofnunar og fékk Svansvottun fyrir ráðstefnuaðstöðuna Hörpu árið 2022. Vinna við áhættumat og áhættustýringu hófst og umfangsmikil úttekt var gerð á vinnuvernd og öryggismálum. Nýtt og skilvirkara gjaldtökukerfi var tekið í notkun í bílahúsi Hörpu sem skilaði auknum tekjum og undirbúningur fyrir samrekstur á bílahúsi lóðarhafa við Austurbakka 2 hélt áfram. Jafnframt var haldið áfram með þróun stafrænnar miðlunar og þjónustu.

Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu

„Það er jákvætt að sjá góðan rekstrarárangur í tengslum við þróttmikið viðburðahald á síðasta ári sem einkenndist af fjölbreyttum og mörgum stórum alþjóðlegum viðburðum. Við höfum samhliða náð að halda áfram að hagræða í rekstrinum. Þetta kemur berlega í ljós þegar miðað er við síðasta hefðbundna árið fyrir Covid á meðan að tekjur hafa hins vegar aukist umtalsvert. Það breytir ekki því að viðfangsefnið er enn að ná saman langtímalausn hvað varðar sjálfbært rekstrarfyrirkomulag félagsins og við erum þar samstíga eigendum Hörpu sem eru ríkið og Reykjavíkurborg.Það er einnig sérstaklega ánægjulegt að Harpa gefur nú út í fyrsta sinn árs- og sjálfbærniskýrslu samhliða ársreikningi. Félagið hefur sett sér skýr markmið um að vera til fyrirmyndar hvað varðar samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni.Undir forystu starfsfólks hafa skilyrði allra 5 Grænna skrefa Umhverfisstofnunar verið uppfyllt auk þess sem Harpa hlaut Svansvottun sem ráðstefnuhús. Tilgangur Hörpu er að skapa menningarleg, efnahagsleg og samfélagsleg verðmæti fyrir eigendur sína, sem eru landsmenn allir og ber því ríkar skyldur til að  ganga á undan með góðu fordæmi þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð og innleiðingu sjálfbærni í alla þætti starfseminnar.“

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, endurkjörin formaður stjórnar Hörpu

,,Hlutirnir gerðust  hratt í Hörpu, viðburðahaldarar stigu ákveðið niður fæti og ótrúlegur fjöldi af stórum fundum og ráðstefnum var haldinn.  Harpa sýndi í verki að hún er allt í senn, heimssvið  og heimavöllur og allt litróf íslensk tónlistarlífs birtist gestum hússins. Yngstu gestirnir héldu áfram að heimsækja Hljóðhimna, fólk streymdi að á opna viðburði til að njóta listamanna sem ýmist komu fljúgandi af þaki Hörpu eða stigu fram með hefðbundnari hætti á sviðinu í Eldborg.  Harpa var vettvangur  Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna sem var sjónvarpsviðburður á heimsmælikvarða, barnamenningar og heimþekktra listamanna. 

Harpa býr sannarlega vel þegar kemur að starfsfólki og stjórnendum og rétt að þakka þeim öfluga hópi sem hefur á liðnu ári sýnt einstakan metnað, elju og dug í sínum störfum.”

1267 viðburðir haldnir á árinu 2022 um er að ræða 47% aukningu á milli ára

Á árinu 2022 fóru fram 1267 viðburðir í Hörpu samanborið við 867 árið áður. Er þetta fjölgun um 47%. Þar af voru 452 ráðstefnutengdir en það innifelur auk ráðstefna m.a. fundi, veislur og móttökur. Fjöldi slíkra viðburða árið áður var 324. 783 listviðburðir fóru fram - þar af hélt Sinfóníuhjómsveit Íslands 96 tónleika, Íslenska óperan 15 sýningar og tónleika. Tónleikar og listviðburðir á vegum annarra en SÍ og ÍÓ reyndust 540 talsins. Meðal stórra viðburða á árinu voru Evrópsku kvikmyndaverðlaunin sem fresta þurfti ítrekað vegna heimsfaraldursins. Fjöldi leiksýninga af ýmsu tagi var 132. Heildarfjöldi listviðburða óx um 69% á milli ára. Upplifunarsýningin Hringátta sem Harpa stendur fyrir í samstarfi við erlendan aðila laðaði til sín 15.235 gesti á fyrsta heila árinu í rekstri. Viðburðir á vegum Hörpustrengja voru Upptakturinn og sýningar hins úkraínska Kyiv Grand Ballet á Hnotubrjótnum, auk þess sem hátt á þriðja tug fjölskylduvænna viðburða voru haldnir á vegum Hörpu. Heildarfjöldi viðburða sem tengjast barnamenningu voru vel á annað hundrað en í mars voru Hljóðhimnar opnaðir sem er tónlistartengt upplifunar- og fræðslurými fyrir börn. Um 186 þúsund aðgöngumiðar voru afgreiddir í gegnum miðasölu Hörpu á árinu samanborið við um 127 þúsund árið 2021 og 232 þúsund árið 2019. Heildarvelta miðasölu í Hörpu vegna viðburða á árinu nam um 1.242 milljónum króna samanborið við 685 milljón króna árið 2021 og 1.294 milljónir króna á árinu 2019.

Árs- og sjálfbærniskýrsla Hörpu 2022

Fréttir