30. desember 2021

Sjón­arspil á gler­hjúpnum um áramótin

Harpa telur niður í nýtt ár og sýnir ljósverk Ólafs Elíassonar á glerhjúpnum yfir áramótin

Harpa telur niður í nýtt ár og sýnir ljósverk Ólafs Elíassonar á glerhjúpnum yfir áramótin.

Harpa fagnaði 10 ára afmæli á árinu og af því tilefni gaf Ólafur Elíasson, listamaður, höfundur glerhjúpsins og lykilaðili í teyminu sem hannaði húsið, Hörpu 12 ný ljósverk til sýningar á glerhjúpnum mánaðarlega. Á gamlársdag munu öll verkin 12 verða sýnd og þegar mínúta er í miðnætti hefst niðurtalning frá 2021 þar til árið 2022 birtist á miðnætti.

Ártalið 2022 mun standa á hjúpnum til kl. 6 á nýársdagsmorgun en þá hefst sýning ljósverkanna 12 aftur og verður út daginn. Hvert verk er 15 mínútur að lengd og mun ártalið 2021 birtast á milli þeirra á gamlársdag og ártalið 2022 á nýársdag.

Fyrir þá sem ekki eiga heimangengt verður hægt að horfa á beint streymi af glerhjúpnum úr vefmyndavél hér á Youtube-rás Hörpu.

10 ár af töfrum

Í tilefni af 10 ára afmælinu var tekið saman skemmtilegt yfirlitsmyndband um fjölbreytta starfsemi í húsinu frá opnun þess en Harpa er margverðlaunuð, bæði fyrir arkitektúr og sem tónlistar-og ráðstefnuhús. Harpa er bæði heimavöllur íslenskrar tónlistar og heimssvið fyrir alþjóðlega strauma.

Á árinu sem er að líða voru þrátt fyrir aðstæður haldnir rúmlega 430 listviðburðir og rúmlega 320 ráðstefnur, fundir og tengdir viðburðir. Heimsfrægar hljómsveitir, einleikarar, dansflokkar, aðrir listamenn og leiðtogar hafa sótt húsið heim frá opnun og skapað ógleymanlegar minningar. Harpa er eitt helsta kennileiti Reykjavíkur - miðstöð menningar og mannlífs í hjarta miðborgarinnar og fjölsóttur áfangastaður sem milljónir manna hafa heimsótt frá opnun.

Smelltu hér til að horfa á 10 ára afmælismyndbandið.

Fréttir