26. apríl 2024

Álfheiður Erla Guðmunds­dóttir valin full­trúi Hörpu

í ECHO Rising Stars

Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús er meðlimur í samtökum evrópskra tónlistarhúsa - ECHO (European Concert Halls Organization). ECHO hefur um árabil staðið fyrir verkefninu Rising Stars þar sem framúrskarandi tónlistarfólk er valið til að koma fram í mörgum af bestu tónlistarhúsum Evrópu.

Harpa tilnefndi sópransöngkonuna, tónskáldið og sjónlistakonuna Álfheiði Erlu Guðmundsdóttur til þátttöku í verkefninu fyrir veturinn 2025-2026 og er það liður í dagskrárstefnu Hörpu. Aðeins sex tónlistarmenn völdust til þátttöku í verkefninu. Það er því sérstakt gleðiefni og viðurkenning að Álfheiður Erla sé ein þeirra sem nú fær tækifæri til þess að vera hluti af þessum mikilvæga evrópska tónlistarvettvangi.

Rising Stars hófst árið 1995 en tilgangur þess er að styðja við ungt og framúrskarandi tónlistarfólk. Frá upphafi hafa 150 rísandi stjörnur orðið fyrir valinu og hefur verkefnið reynst afar dýrmætur stökkpallur fyrir alþjóðlegan tónlistarferil viðkomandi. Meðal þeirra sem hafa notið þátttökunnar í Rising Stars við að þróa tónlistarferil sinn og eru nú heimsþekktir listamenn. Má þar m.a. nefna sellóleikarann Kian Soltani, píanóleikarann Khatia Buniatishvili og fiðluleikarann Janine Jansen sem öll hafa komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu.

Auk Álfheiðar munu fleiri rísandi stjörnur úr þessum hópi koma fram á tónleikum í Hörpu á komandi misserum.

Nánar um Álfheiði Erlu Guðmundsdóttur

Sópransöng- og sjónlistakonan Álfheiður Erla Guðmundsdóttir hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar, meðal annars Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2021 sem söngkona ársins í flokknum sígild og samtímatónlist og var valin í 16 manna úrslit BBC Cardiff söngkeppninnar sama ár. Hún hefur verið fastráðin við Theater Basel í Sviss frá haustinu 2021 og farið þar með ýmis burðarhlutverk. Nýlega kom út platan Poems hjá Deutsche Grammophone, en platan inniheldur verk sem Álfheiður söng og samdi ásamt tónskáldinu Viktori Orra Árnasyni við ljóð ýmissa íslenskra ljóðskálda. Árið 2022 sá Álfheiður um listræna stjórn og söng á viðburðinum Apparition ásamt píanóleikaranum Kunal Lahiry í Eldborgarsal Hörpu, þar sem tónlist, dans og sjónlist eftir Álfheiði tvinnuðust saman, en viðburðurinn var tilnefndur sem tónlistarviðburður ársins á íslensku tónlistarverðlaununum árið 2023.

Nánar um ECHO

Tónlistarhús gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu og skapa menningarleg, efnahagsleg og samfélagsleg verðmæti. Samtök evrópskra tónlistarhúsa samanstanda af 23 tónlistarhúsum frá 14 löndum og eru vettvangur fyrir samskipti um tækifæri, þróun og sameiginlegar áskoranir tónleikahúsa á 21. öldinni.

Tónlistarhúsin í ECHO eru mismunandi í rekstri og listrænum áherslum en sameinast í því að leggja metnað í að kynna listviðburði í hæsta gæðaflokki fyrir sem fjölbreyttustum hópum gesta. Aðildarhús ECHO styðja hvert annað með því að deila reynslu og þekkingu og koma af stað metnaðarfullum alþjóðlegum sameiginlegum verkefnum. Lögð er rík áhersla á tengsl við listamenn, áhorfendur og samfélagið.

Nánar um ECHO

Nánar um Álfheiði Erlu

Fréttir