31. desember 2023

Litið yfir viðburða­ríkt ár í Hörpu

Gestakomur á viðburðaríku ári sem er að líða voru um 1,2 milljónir. Fólk kom saman til að njóta góðra stunda - gleðjast og fræðast á rúmlega 1200 tónleikum, leik- og óperusýningum, fjölskyldudagskrá, ráðstefnum, fundum, veislum, messum og mörkuðum sem haldnir voru í samkomuhúsi allra landsmanna.

Hápunktar ársins 2023

image

Heimssviðið í Hörpu

Stórstjarnan og fiðlusnillingurinn Anne-Sophie Mutter hélt einstaka tónleika í Eldborg ásamt strengjasveit sinni Mutter Virtuosi í janúar. Mutter er listamaður á heimsmælikvarða og á einstaklega glæstan feril sem einleikari, lærimeistari og hugsjónamanneskja í heimi klassískrar tónlistar. Hún hefur spilað á fiðlu frá fimm ára aldri og er af mörgum talin vera hin óumdeilda drottning fiðlunnar. Hágæða hljómburður og glæsileg umgjörð í uppseldri Eldborgar skiluðu töfrandi tónleikunum til gesta sem upplifðu enn og aftur að heimssviðið á heima í Hörpu.

image

Hin sívinsæla ballettsýning Hnotubrjóturinn í flutningi Kyiv Grand Ballet frá Úkraínu ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands var haldin í Hörpu dagana 23. til 25. nóvember. Aðaldansari Kyiv Grand Ballet, Petra Conti, á sér sögu sem lætur engan ósnortinn, en hún sigraðist á krabbameini árið 2016. Í kjölfarið hefur hún lagt mikið kapp á að láta gott af sér leiða með söfnun fyrir krabbameinssjúk börn með söfnunarátakinu Pointe Shoes for Cure. Harpa fór í samstarf við Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna um söfnun í tengslum við sýningar á Hnotubrjótnum.

image

Sinfóníuhljómsveit Íslands tók á móti rúmlega 70.000 gestum á 81 fjölbreyttum og litríkum tónleikum í Hörpu á árinu sem er að líða. Meðal hápunkta á árinu má nefna tónleika kanadísku sópransöngkonunnar og hljómsveitarstjórans Barböru Hannigan, sem bæði söng og stjórnaði verkum Mahlers, Haydns og hinnar írönsku Golfam Khayam í júní, glæsilega tónleika helgaða verkum Önnu Þorvaldsdóttur í september þar sem Eva Ollikainen aðalhljómsveitarstjóri hélt um tónsprotann og ástríðufullan flutning hljómsveitarinnar á Rómeó og Júlíu Prókofíevs undir stjórn Stéphans Denéve í október.

Meðal fjölmargra einleikara sem hrifu tónleikagesti með sér á árinu má nefna sellóleikarann Kian Soltani, píanóleikarann Sunwook Kim og söngkonuna Anu Komsi, fiðluleikarana Isabelle Faust og Augustins Hadelich, auk staðarlistamanns SÍ á síðasta starfsári, Sæunnar Þorsteinsdóttur sellóleikara. Tónleikar Ásgeirs Trausta og Sinfó og koma breska sönghópsins King’s Singers á aðventunni hittu í mark hjá mörgum tónleikagestum – og þeir yngstu tóku andköf af hrifningu þegar tröllin lifnuðu við í flutningi hljómsveitarinnar á Ástarsögu úr fjöllunum eftir Guðna Franzson við ævintýri Guðrúnar Helgadóttur, á tónleikum Litla tónsprotans.

image

Íslenska óperan sýndi Madama Butterfly eftir Puccini við góða aðsókn. Uppfærslan vakti mikilvægar umræður um menningarmun og mismunandi birtingarmyndir hans í listum. Stórsveit Reykjavíkur sem einnig á heimilsfesti í Hörpu átti kraftmikið ár m.a. með frumflutningi á verkum íslenskra höfunda og erlendum gestastjörnum.

image

Það var að venju mikið um að vera á sviði popp- og rokktónleika í Hörpu á árinu og ekki síður í jazzinum, en þeir fyrrnefndu voru 82 talsins og jazzinn dunaði alls 59 sinnum í fjölbreyttum salarkynnum Hörpu. Þar eiga Jazzklúbburinn Múlinn og hátíðin Reykjavík Jazz mikilvægan hlut.

image

Eigin dagskrárgerð

Harpa hefur lagt aukna áherslu á barna- og fjölskyldumenningu sem er liður í stefnumótun Hörpu um hvernig húsið sinnir sem best menningarlegu og samfélagslegu hlutverki sínu. Dagskráin er sérstaklega gerð með inngildingu og aðgengi fyrir öll börn og fjölskyldur að leiðarljósi með smiðjum og tónlistarviðburðum í samstarfi við félaga- og réttindasamtök ólíkra hópa og listafólks. Alls voru 44 barna- og fjölskylduviðburðir haldnir á árinu gestum að kostnaðarlausu.

image

Grasrótin blómstraði einnig í Hörpu með tilkomu nýrrar tónleikaraðar - en Upprásin er tileinkuð grasrót íslenskrar tónlistar, þvert á tónlistarstefnur. Á annað hundrað umsóknir bárust og voru 24 tónlistaratriði með 88 manns innanborðs valin til að koma fram veturinn 2023-24.

Alls voru fimm tónleikar haldnir í tónleikaröðinni Velkomin heim þar sem ungt tónlistarfólk, sem er nýkomið heim úr námi, getur komið fram og kynnt sig. Tónleikaröðin er samstarfsverkefni Hörpu og FÍT-klassískrar deildar FÍH.

Með tónleikaröðinni Sígildum sunnudögum gefst áheyrendum reglulega kostur á fyrsta flokks kammertónleikum yfir veturinn í Hörpu. Alls voru 15 tónleikar haldnir á Sígildum sunnudögum á árinu en markmið Hörpu með samstarfi við tónlistarhópana er að stækka áheyrendahóp fyrir kammertónlist.

image

Harpa fagnar afmæli sínu ár hvert með glæsilegri dagskrá á Menningarnótt og er hún einn af hápunktum í dagskrárgerð Hörpu þar sem boðið er upp á fjölbreytta fjölskyldudagskrá gestum að kostnaðarlausu. Í ár voru 35 viðburðir þennan dag og metfjöldi gesta, eða yfir 14.000 manns, semheimsóttu húsið.

image

Fjöldi innlendra og erlendra ráðstefna og funda eru haldin ár hvert í Hörpu og oft sem slíkir viðburðir yfirtaka alla sali og fundarherbergi hússins. Margir þessara viðburða laða að sér fjölmarga erlenda gesti sem stuðlar að öflugri kynningu á landi og borg.

Leiðtogafundur Evrópuráðsins fór fram í Hörpu í maí og það einn stærsti viðburður sem haldinn hefur verið hér á landi þrátt fyrir að fundargestir hafi einungis talið um 50 talsins.

Aðrir stórir viðburðir sem haldnir eru árlega í Hörpu eru Hringborð Norðurslóða (Arctic Circle). Viðburðurinn er stærsta árvissa samkoman á norðurslóðum og var nú haldin í tíunda sinn í Hörpu. Viðburðurinn í ár var sá fjölmennasti frá upphafi og mættu rúmlega 2000 gestir frá 70 löndum.

Heimsþing kvenleiðtoga (Women Political Leaders – Reykjavik Global Forum) í samstarfi við ríkisstjórn Íslands og Alþingi. Málstofan hefur verið haldið í Hörpu frá upphafi eða frá 2018. Heimsþing kvenleiðtoga er vettvangur sem kallar saman kvenleiðtoga úr öllum geirum á alheimsvísu þar sem hundruðir leiðtoga og fyrirlesara hittast ár hvert.

Samfélagsábyrgð og sjálfbærni

Fyrsta árs- og sjálfbærniskýrsla Hörpu leit dagsins ljós. Með útgáfu skýrslunnar sýnir stjórnenda- og starfsmannahópur Hörpu skýran vilja til að tryggja Hörpu sess á meðal fremstu menningar- og ráðstefnuhúsa heims á sviði umhverfismála og samfélagsábyrgðar.

Stafræn vegferð

Stafræn vegferð Hörpu heldur áfram og á haustmánuðum var boðið upp á þá nýjung að viðskiptavinir geti pantað fundarherbergi og veitingar beint af vef Hörpu á einfaldan og öruggan máta.

Ferðamaðurinn

Harpa er einn fjölsóttasti áfangastaður erlendra gesta og ferðamanna í Reykjavík. Boðið er upp á dagskrá fyrir erlenda ferðamenn allt árið um kring, má þar nefna upplifunarsýninguna Hringáttu sem fangar kraftana í náttúru Íslands með myndrænni miðlun og heillandi tónlist Högna Egilssonar. Boðið var uppá daglegar yfir leiðsagnir á ensku yfir sumartímann, þar sem rúmlega 2000 gestir skoðuðu Hörpu undir leiðsögn.

Tónleikaröðin Perlur íslenskra sönglaga hefjur verið fastur liður í sumardagskrá Hörpu frá opnun og telja tónleikarnir á fjórða hundrað. Á tónleikunum kynnast getir sígildri íslenskri tónlist; sönglög, þjóðlög, sálmum og ættjarðarsöngvum. Listrænn stjórnandi tónleikanna er óperusöngvarinn Bjarni Thor Kristinsson.

HOW TO BECOME ICELANDIC IN 60 MINUTES er leiksýning sem er sambland af söguleikhúsi og uppistandi þar sem reynt verður að kenna þeim sem sýninguna sækja að verða Íslendingar. Þetta er sprenghlægileg klukkustundarlöng sýning sem ætluð er öllum þeim sem vilja læra hvað það er að vera Íslendingur. Leiksýningin hefur gengið fyrir fullu húsi í Hörpu frá því hún var frumsýnd árið 2012. Sýningar nálgast 1000.

Starfsfólk Hörpu þakkar hjartanlega fyrir samfylgdina og við hlökkum til endurfunda á nýju ári.

Fréttir