27. október 2022

Hljóð­himnar tilnefndir

til Hönnunarverðlauna Íslands 2022.

Hljóðhimnar í Hörpu tilnefndir til Hönnunarverðlauna Íslands 2022. Verðlaunaafhendingin fer fram þann 17. nóvember í Grósku. Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar og arkitektúrs, enda er vægi hönnunar í menningu, samfélagi og viðskiptalífi alltaf að aukast. Þau beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning.

Hljóðhimnar eru staðurinn til að uppgötva töfraheim hljóðs og tóna og þar slær hjarta barnamenningar í Hörpu!

Þverfaglega hönnunarteymið ÞYKJÓ á heiðurinn af því að leiða hönnun rýmisins og óskar Harpa þeim innilega til hamingju með tilnefninguna.

Ásamt ÞYKJÓ komu fjölmargir að verkinu og í samstarfi voru Gagarín, Vísindasmiðjan, Reykjavík Audio, Irma og síðast en ekki síst Krakkaráð ÞYKJÓ. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenska óperan og Stórsveit Reykjavíkur lögðu sitt af mörkum til þess að skapa einstakt upplifunarferðalag um töfraheim hljóðs og tóna.

Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars:

,,Hljóðhimnar er heildræn og fallega útfærð hönnunarlausn þar sem útkoman er virk upplifun sem opnar á skilningarvitin í gegnum leik (...) Hljóðhimnar eru gott dæmi þess hve veigamiklu hlutverki góð hönnun getur gegnt í kennslu í gegnum leik, og þar með kveikt neista í hugum yngri kynslóða."

Hljóðhimnar eru opnir alla daga frá kl. 14-18 og 10-18 um helgar og er aðgangur ókeypis.

Nánar um Hljóðhimna

Fréttir