12. október 2021

Hin heimsfræga Concertgebouw hljómsveit í Eldborg

Concertgebouw hljómsveitin, ein allra besta sinfóníuhljómsveit heims, kemur fram í Eldborg í Hörpu þann 10. nóvember næstkomandi. Miðasala hefst föstudaginn 15. október kl. 12

Concertgebouw hljómsveitin, ein allra besta sinfóníuhljómsveit heims, kemur fram í Eldborg í Hörpu þann 10. nóvember næstkomandi. Er þetta í fyrsta sinn sem hljómsveitin kemur til Íslands en stjórnandi á tónleikunum er hinn bráðungi og eftirsótti hljómsveitarstjóri, Klaus Mäkelä. Um er að ræða viðburð á heimsmælikvarða sem örsjaldan býðst að upplifa á Íslandi. Á efniskránni eru tvær stórbrotnustu sinfóníur tónbókmenntanna, hin epíska sjötta sinfónía Dímítríj Shostakovitsj og hin tregafulla sjötta sinfónía Pjotr Tsjajkovskíj, með undirtitilinn „Pathétique“. Tónleikarnir eru því tvímælalaust einn af hápunktum ársins í fjölbreyttri dagskrá í tilefni af 10 ára afmæli Hörpu.

Framúrskarandi, bráðungur hljómsveitarstjóri

Klaus Mäkelä er aðeins 25 ára gamall en er nú þegar einn eftirsóttasti hljómsveitarstjóri heims. Hann hefur starfað sem aðalhljómsveitarstjóri Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Ósló frá 2020 og verður auk þess aðalhljómsveitarstjóri Orchestre de Paris frá haustinu 2022. Klaus Mäkelä stjórnar reglulega bestu sinfóníuhljómsveitum heims, þar á meðal Concertgebouw hljómsveitinni.

Draumur sem varð að veruleika

,,Það hefur verið draumur beggja aðila að koma á tónleikum með þessari stórkostlegu hljómsveit í Hörpu, enda húsið m.a. byggt til að geta tekið á móti bestu listamönnum í heimi. Þessi draumur er nú að rætast á þessu óvenjulega afmælisári hússins. Aðeins verður um eina tónleika að ræða og hefst almenn miðasala föstudaginn 15. október,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu. ,,Þetta einstaka tækifæri í samstarfi Hörpu og hljómsveitarinnar bauðst núna og vart hægt að hugsa sér glæsilegra innlegg í upprisu menningar- og listalífsins á Íslandi.“

Eldborgarsalurinn býður upp á það besta

Concertgebouw hljómsveitin þykir skara fram úr fyrir silkimjúkan hljóm, mikla dýnamíska breidd og gífurlega blæbrigðaríka og næma túlkun. Hljómsveitin var stofnuð árið 1888 og á heimili sitt í hinu einstaka tónlistarhúsi Concertgebouw, í miðborg Amsterdam. Með sveitinni starfa á hverjum tíma færustu listamenn sígildrar tónlistar og hafa til dæmis mörg þekktustu tónskáld sögunnar stjórnað flutningi hljómsveitarinnar á sínum verkum, þar á meðal Richard Strauss, Gustav Mahler og Igor Stravinsky.  Hljómsveitin leikur um 80 tónleika í aðalsal sínum á ári hverju en leggur auk þess áherslu á að heimsækja bestu tónleikasali heims. Það er því einstakt tilhlökkunarefni að fá hljómsveitina í fyrsta sinn til Íslands og hlýða á flutning hennar í Eldborg Hörpu.

Fréttir

12. október 2021

Hin heimsfræga Concertgebouw hljómsveit í Eldborg

Concertgebouw hljómsveitin, ein allra besta sinfóníuhljómsveit heims, kemur fram í Eldborg í Hörpu þann 10. nóvember næstkomandi. Miðasala hefst föstudaginn 15. október kl. 12

21. september 2021

Miðasala Hörpu flytur í dag

Þriðjudaginn 21. september flytur miðasala Hörpu í nýtt rými á jarðhæð og því verður ekki unnt að afgreiða miða í Hörpu.  

14. september 2021

Tilkynning til tónleikagesta

Tilslakanir á sóttvarnarráðstöfunum frá og með 15. september.