12. maí 2021

Hátíð í Hörpu

Harpa 10 ára.

Hver sá sem upplifað hefur íslenskan vetur tengir sterkt við gildi sumardagsins fyrsta. Dagur sem var, og er, fullur af von, óbilandi bjartsýni og blæs sjálfstæðri þjóð anda í brjóst. Dagurinn markaði upphaf „hörpu“ samkvæmt gömlu íslensku tímatali, fyrsta sumarmánaðarins. Okkar Harpa, sú sem nú fagnar 10 ára afmæli, vekur ekki ólík hughrif. Tilkoma hússins vakti von á erfiðum tímum og hefur allt frá opnun fært okkur gleðistundir. Harpa er ofin inn í samfélagsvefinn og fyrir löngu orðin ómissandi partur af samfélagi okkar. Í menningunni felst mennskan. Vísanirnar eru fleiri því öll þekkjum við líka hljóðfærið hörpu, sem nýtur sín vel hvort heldur sem er í einleik eða samspili og skartar allt að 47 ólíkum strengjum sem hver og einn gefur einstakan tón. Þannig er afmælisbarnið – það á marga tóna í hörpu sinni. Og sannarlega við hæfi að nafngift hússins þar sem þjóðin kemur saman skuli vísa til íslenskrar náttúru, samfélags okkar og menningar.

Harpa er allt í senn heimavöllur og heimssvið innlendra og erlendra listamanna. Hlutverkið er að vera vettvangur fyrir tónlistar- og menningarlíf sem og hvers konar ráðstefnur, fundi og samkomur og ávallt er leiðarljósið að vera á heimsmælikvarða. Víst er það metnaðarfullt markmið en framkvæmanlegt – það hoppar jú enginn hærra en hann hugsar.

Forsaga Hörpu spannar langan tíma en að því er ég best veit birtist fyrsta áskorunin um byggingu tónlistarhúss í blaðinu Þjóðólfi árið 1881. Það þarf sterk bein og sannfæringu til að taka ákvörðun um jafn umfangsmikla framkvæmd og bygging Hörpu var á sínum tíma. Sömuleiðis var mikil blessun að framkvæmdin var ekki sett á ís þegar þrengdi að í íslensku samfélagi í kjölfar kreppunnar 2008. Sögnin sem í því fólst að halda verkinu áfram var mikilvæg fyrir þróun borgarinnar en ákvörðunin var ekki síður lýsandi fyrir það samfélag sem ætlum okkur að skapa. Samfélag þar sem menning er sjálfsagður hluti af daglegu lífi. Á 10 ára afmæli Hörpu stöndum við svo á ný frammi fyrir krefjandi aðstæðum og aftur reynir á framsýni og skilning eigenda.

Stjórnmálaleiðtogar víða um heim hafa í gegnum árin tekið afstöðu með menningunni, ekki síst þegar kreppir að. Þekktust eru sennilega ummæli breska forsætisráðherrans Winston Churchill sem tók ákvörðun um aukin framlög til menningar og lista á krefjandi tímum þegar þjóðin stóð í stríði. Gagnrýni á þessa ákvörðun svaraði hann með þekktri spurningu: „Fyrir hverju erum við þá að berjast?“ Á sama tíma börðust íslenskir stjórnmálamenn fyrir því að fá handritin heim og því að Þjóðleikhús opnaði en hvort tveggja var ómetanlegt fyrir sjálfsmynd og sjálfstæði þjóðarinnar. Það er mikil gæfa að framsýnir íslenskir stjórnmálamenn taki afstöðu með menningu og listum.

Í Hörpu felast ótrúleg tækifæri til verðmætasköpunar fyrir íslenskt samfélag. Verðmætin sem Harpa skapar eru ekki öll sýnileg í ársreikningi félagsins – þau eru hins vegar mikilvæg forsenda fyrir árangri á ýmsum öðrum sviðum samfélagsins, að ekki sé minnst á bætt lífsgæði þeirra sem njóta. Íbúar Hörpu eru margir og ekki er annað hægt en að fyllast aðdáun þegar horft er til þess hvernig Sinfóníuhljómsveit Íslands, Óperan, Stórsveit Reykjavíkur og fleiri hafa blómstrað með tilkomu langþráðs tónlistarhúss. Með sama hætti hefur Harpa verið ferðaþjónustunni og atvinnulífinu öllu mikilvægur samstarfsaðili í þróun viðburða, móttöku ferðamanna og fleiri verkefnum.

Það er full ástæða til að horfa björtum augum til framtíðarinnar. Hlutverk Hörpu er mikilvægt í verkefnum næstu missera – í viðspyrnu og forystu sem litríkur vettvangur mannlífs. Menningin sameinar þjóðina, enda er listin órjúfanlegur hluti af sjálfsmynd okkar. Hvað er sjálfstæð þjóð án menningar? Við sjáum fyrir endann á þeim miklu takmörkunum sem litað hafa líf okkar síðustu misseri. Það er tilhlökkunarefni að á menningarnótt verður tíu ára afmælinu fagnað um leið og starfsemi hússins kemst aftur í takt. Þá verður hátíð í höfuðborginni, hátíð okkar allra. Megi Harpan hljóma fagurlega um ókomna tíð.

Fréttir

29. júní 2021

Hnoss opnar í Hörpu

„Hnoss“ er nafn á nýjum veitingastað sem mun opna á jarðhæð Hörpu rétt fyrir Menningarnótt. Hugmyndafræðin á bak við Hnoss er að skapa vettvang fyrir matarmenningu sem slær í takt við Hörpu.

21. júní 2021

Nýr vefur Harpa.is í loftið

Nýr vefur er afrakstur samstarfs við hönnunarfyrirtækið Kosmos & Kaos og ráðgjafafyrirtækið Parallel. Mikill metnaður var lagður í hönnunina með upplifun notenda í forgrunni.

18. júní 2021

Þjóðhátíðarkveðja

Í ár verður ekki sérstök hátíðardagskrá í Hörpu eins og tíðkast hefur á 17. júní þar sem framkvæmdir standa nú yfir húsinu sem bæta munu bæði upplifun og þjónustu við gesti.