26. maí 2025, 00:00
Harpa hlýtur styrk úr Barnamenningarsjóði
Heimstónlist í Hörpu: barnamenning án landamæra verður röð opinna fjölskylduviðburða þar sem börn fá að taka virkan þátt í menningu og tónlist frá ólíkum löndum.

Harpa hefur hlotið styrk úr Barnamenningarsjóði fyrir nýtt og spennandi fjölmenningarlegt tónlistarverkefni ætlað börnum og fjölskyldum þeirra. Heimstónlist í Hörpu: barnamenning án landamæra verður röð opinna fjölskylduviðburða þar sem börn fá að taka virkan þátt í menningu og tónlist frá ólíkum löndum, þar á meðal Úkraínu, Japan, Póllandi og Serbíu.
Viðburðirnir fara fram veturinn 2025–2026 í Hörpu þar sem boðið verður upp á tónleika, listasmiðjur, fræðslu og ýmislegt fleira. Börnin sjálf verða í lykilhlutverki og verkefninu lýkur með sameiginlegri uppskeruhátíð vorið 2026.
Verkefnið snýst um að tengja börn og fjölskyldur í gegnum tónlist, menningu og samveru og byggir á öflugu samstarfi við móðurmálsskóla, menningarfélög og einstaklinga af erlendum uppruna á Íslandi.
„Með Heimstónlist í Hörpu viljum við bæði valdefla þá samfélagshópa sem taka þátt og skapa vettvang fyrir börn til að tengjast í gegnum listir,“ segir Sigrún Harðardóttir, verkefnastjóri barnamenningar í Hörpu. „Verkefnið skapar jafnframt atvinnuvettvang fyrir erlenda tónlistarmenn sem búa á Íslandi eða eiga tengsl við landið og dýpkar sýn barnanna á ólíkum menningarheimum. Það er bæði dýrmætt og ótrúlega skemmtilegt að fá að kynnast fjölbreyttri tónlist og menningu frá mismunandi löndum og nota alheimstungumálið okkar: tónlist.“
Viðburðirnir eru opnir öllum og sérstaklega sniðnir að börnum og fjölskyldum. Nánar má lesa um verkefnið þegar fjölskyldudagskrá Hörpu fyrir veturinn 2025–2026 verður kynnt á Menningarnótt.