22. ágúst 2025

Dagskrá Menningarnætur í Hörpu / Gott að vita

Það má með sanni segja að Harpa verði stútfull af gleði og tónlist á Menningarnótt en í boði verður lífleg og glæsileg dagskrá fyrir allar kynslóðir. Ókeypis er á alla viðburði á Menningarnótt en dagskránni lýkur með samsöng í opnum rýmum Hörpu sem leiddur verður af hinum einna sanna Mugison og kórnum Huldi.

a man with a beard is playing an accordion with the brand name hohner on it

Fjölskrúðug dagskrá í Hörpu á Menningarnótt

Það má með sanni segja að Harpa verði stútfull af gleði og tónlist á Menningarnótt en í boði verður lífleg og glæsileg dagskrá fyrir allar kynslóðir. Ókeypis er á alla viðburði á Menningarnótt en dagskránni lýkur með samsöng í opnum rýmum Hörpu sem leiddur verður af hinum einna sanna Mugison og kórnum Huldi.

Skoða dagskrá

Skapandi smiðjur fyrir börn á öllum aldri

Á meðal fjölbreyttra fjölskylduviðburða í Hörpu á Menningarnótt verða töfrandi skuggaleikhússmiðja með ÞYKJÓ og tilraunastofur þar sem tónlistarkonan sóley ásamt ÞYKJÓ býður börnum og fjölskyldum inn í heim dýratóna og fuglasöngs. ÞYKJÓ á jafnframt veg og vanda að hinu einstaka upplifunarrými Hljóðhimnar á jarðhæð Hörpu sem verður að sjálfsögðu opið á Menningarnótt.

Ein magnaðasta hljómsveit landsins, Korda Samfónía, býður fjölskyldum og einstaklingum að taka þátt í ævintýralegri tónsmiðju þar sem hópurinn semur saman eitt stykki lag á 45 mínútum en lagið verður svo flutt á örtónleikum fyrir gesti og gangandi. Og ekki má gleyma fjörugu danspartýi sem þeir Stjáni stuð og Ólafur Snævar leiða í samstarfi við List án landamæra.

Sinfóníutónleikar og Sveifluball Stórsveitarinnar

Íbúar Hörpu verða svo sannarlega í hátíðarskapi í tilefni dagsins. Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur tvenna fjölskyldutónleika í Eldborg ásamt hinum ástsæla tónlistarmanni Unnsteini Manúel. Stórsveit Reykjavíkur ásamt Sveiflustöðinni býður upp á sprellfjörugt sveifluball þar sem börn og fjölskyldur geta sveiflað sér í takt við dillandi stórsveitarmúsík.

Jazzinn dunar víðar í Hörpu á Menningarnótt því Hnokkar, sveit fjögurra jazztónlistarmanna, verða á vappi um húsið og flytja sjóðheita jazztónlist ættaða frá New Orleans.

Litríkt karnival á Hörputorgi

Á Hörputorgi verður mikið um dýrðir en að baki dagskránni standa Landsbankinn og Hafnartorg auk Hörpu.

Hinn árvissi og stórskemmtilegi lúðrasveitabardagi verður háður á milli Lúðrasveitar verkalýðsins, Svansins og Brassbands Reykjavíkur með tilheyrandi mútum, svikum og frændhygli. BMX-bræður bjóða upp á glæfraskap, stuð og stemningu í líflegum sýningum sínum og frábærir dansarar frá Dansi Brynju Péturs verða með street dansatriði. Sirkuslistakonan og dansarinn Heidi Miikki mun svo svífa utan á Hörpuhjúpnum í einleiksdansverki sínu HOPE eða Von.

Hin sívinsæla bátasmiðja Memmm verður einnig á sínum stað á Hörputorgi þar sem hægt verður smíða sinn eigin bát og láta hann fljóta á tjörnunum fyrir framan Hörpu.

Magnað ljósmyndaverk úr Eldborg

Á Menningarnótt verður einnig opnun á einstöku ljósmyndaverki eftir þýska listamanninn Martin Liebscher. Eldborg, Harpa byggir á rúmlega 5000 ljósmyndum af Martin Liebscher inni í Eldborg sem teknar voru af honum ásamt aðstoðarmanni árið 2022 en verkið verður sett upp í sýningarými við innganginn á jarðhæð Hörpu.

Fjölmargt annað áhugavert verður í boði í Hörpu á Menningarnótt. Má þar nefna fágæta kvikmyndaperlu eftir Charlie Chaplin sem verður sýnd við lifandi undirleik, glæsilega bókmenntadagskrá á vegum Reykjavíkur Bókmenntaborgar og sjóðheita blúsdagskrá í Björtuloftum. Tónleikaserían Upprásin verður kynnt til sögunnar þar sem tónlistarkonan Fríd kemur fram, Karlakórinn Fóstbræður flytur undurfalleg íslensk kórlög og Kammermúsíkklúbburinn býður upp á dásamlega kammertónleika í Norðurljósum.

Er þá fjölmargt ótalið en hægt er að kynna sér dagskrána inni á harpa.is/menningarnott. Menningarnótt í Hörpu er ávallt mikill hátíðisdagur og er það mikil tilhlökkun að fylla húsið af lífi, söng og glöðum gestum á þessum dásemdardegi.

Mugison lætur Hörpu hljóma

Hinn eini sanni Mugison slær lokahljóminn í dagskrá Hörpu á Menningarnótt og leiðir gesti í samsöng. Á efnisskrá eru valin lög úr söngbók Mugison ásamt blöndu af ástsælum alþýðulögum. Með Mugison kemur fram kórinn Huldur undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar.

Sækja söngbók

Gott að vita

Bílakjallari Hörpu

Bílakjallari Hörpu verður opinn á eftirfarandi tímum á Menningarnótt:

Frá kl. 00:00 – 07:00 inn- og útakstur bílaumferðar eingöngu um rampinn við Hörpu (Hafnartorg/Kolagata og Reykjastræti lokað).

Frá kl. 07:00 – 13:00 allir þrír inngangar og útgangar bílakjallarans lokaðir fyrir bílaumferð.

Frá kl. 13:00 – 21:00 inn- og útakstur eingöngu um rampinn við Hörpu (Hafnartorg/Kolagata og Reykjastræti lokað).

Frá kl. 21:00 – 01:00 aðeins útakstur bílaumferðar um Hafnartorg/Kolagötu, enginn innakstur (Reykjastræti og Harpa lokað) – aðeins hægt að aka vestur Geirsgötu.

Veitingar

Hnoss Bistro á jarðhæð Hörpu verður með barnvænt brönshlaðborð frá kl. 11:30-15:30. Verð 6.300 kr. fyrir fullorðna og 3.150 kr. fyrir börn 6-11 ára. Börn 5 ára og yngri borða frítt.

Barsnakk, léttir réttir, samlokur, salöt, ribey, sætir réttir, aðalréttir og drykkir til kl.19:00. Mælum með að bóka borð tímanlega í brönsinn.

La Primavera Ristorante á 4. hæð Hörpu verður opinn frá kl. 17:30 á Menningarnótt. Eldhúsið lokar kl. 21:30. Tryggðu þér borð á besta stað í bænum.

Annað

Veitingaþjónusta Hörpu verður með ljúffengar veitingar á boðstólnum á jarðhæð Hörpu þar sem hægt verður að versla drykki, sætmeti, ávexti og fleira.

Fatahengi er staðsett á K1 við hliðina á rúllustiganum upp á fyrstu hæð.

Óskilamunir - ef hlutur glatast á deginum biðjum við þig vinsamlega um að senda okkur fyrirspurn og við svörum eins fljótt og auðið er. 

Salerni í Hörpu eru staðsett á öllum hæðum og aðgengileg gestum allan daginn.

Vatnshani er í Eyri, fyrir utan Silfurberg á annarri hæð.

Við hlökkum til að fagna Menningarnótt með ykkur!

Fréttir