23. maí 2023
Harpa auglýsir eftir grasrótartónlistarfólki
fyrir Upprásina, nýja tónleikaröð sem tileinkuð er grasrót íslenskrar tónlistar.

Harpa, í samstarfi við Tónlistarborgina Reykjavík og Rás 2, stendur fyrir nýrri tónleikaröð sem tileinkuð er grasrót íslenskrar tónlistar, þvert á tónlistarstefnur.
Tónleikaröðin kallast Upprásin og fer fram í Kaldalóni eitt þriðjudagskvöld í mánuði veturinn 2023-2024. Tónleikaröðin er liður í því að framfylgja dagskrárstefnu Hörpu um bætt aðgengi grasrótar og ungs fólks í öllum tónlistargreinum og auka við fjölbreytni. Markmiðið er einnig að tónlistaráhugafólk geti gengið að því vísu að heyra fjölbreytta nýja íslenska tónlist, beint úr grasrót tónlistarlífsins, flutta við kjöraðstæður í tónlistarhúsi þjóðarinnar.Harpa veitir aðstöðu, tækjabúnað og tæknimann auk utanumhalds. Tónlistarborgin Reykjavík styður við tónlistarfólkið sem kemur fram og Rás 2 sér um að kynna það, m.a. í þættinum Ólátagarði undir stjórn Bjarna Daníels. Tónlistarfólkið sem kemur fram hverju sinni fær upptöku frá tónleikunum. Opnað verður fyrir umsóknir 17. maí og er allt tónlistarfólk sem skilgreinir sig sem grasrót í íslensku tónlistarlífi, af öllum kynjum og þjóðernum, hvatt til að sækja um. Opið verður fyrir umsóknir til og með 17. júní. Senda inn umsóknValnefnd fer yfir innsendar umsóknir og velur það tónlistarfólk sem kemur fram í þessari fyrstu tónleikaröð en tvær hljómsveitir koma fram á hverju kvöldi. Valnefndina skipa Bjarni Daníel fyrir hönd Rásar 2, Ása Dýradóttir fyrir hönd Tónlistarborgarinnar Reykjavík, Sóley Stefánsdóttir fyrir hönd dagskrárráðs Hörpu og Ása Berglind Hjálmarsdóttir verkefnastjóri dagskrárgerðar í Hörpu. Nánari upplýsingar veitir asaberglind@harpa.is.
Fréttir
1. júní 2023
38 milljónir söfnuðust á neyðartónleikum Vaknaðu!
Samstaða einkenndi stemninguna í Eldborg á meðan neyðartónleikarnir Vaknaðu! fóru fram, en tónleikarnir voru samtímis sendir út í sjónvarpi RÚV. Þau Ragga Gísla, Bubbi, Nanna, Jónas Sig, Systur, Herra Hnetusmjör, Mugison, Emmsjé Gauti, Una Torfa, Elín Hall, Ólafur Bjarki, Ellen Kristjáns og fjöldinn allur af öðru frábæru tónlistarfólki ljáði málstaðnum krafta sína.
23. maí 2023
Maxímús á íslensku og íslensku táknmáli
Þann 20. maí var metaðsókn í skoðunarferð og sögustund með Maxímús Musíkus í Hörpu, en í þetta sinn var sagan sögð bæði á íslensku og íslensku táknmáli í fyrsta sinn.
23. maí 2023
Harpa auglýsir eftir grasrótartónlistarfólki
fyrir Upprásina, nýja tónleikaröð sem tileinkuð er grasrót íslenskrar tónlistar.