1. september 2023

Gras­rótin blómstrar í Hörpu!

Upprásin, tónleikaröð fyrir grasrót íslensks tónlistarlífs hefst þriðjudaginn 5. september

Róshildur, Flaaryr og virgin orchestra ríða á vaðið í nýrri tónleikaröð sem hefst þriðjudaginn 5. september í Kaldalóni í Hörpu. Tónleikaröðin er tileinkuð grasrót íslensku tónlistarsenunnar og er á vegum Hörpu í samstarfi við Tónlistarborgina Reykjavík og Rás 2.

Tónleikarnir verða mánaðarlegir á völdum þriðjudagskvöldum frá hausti til vors en á hverjum viðburði koma fram þrjú tónlistaratriði. Tónlistarfólkið sem stígur á svið kemur úr ýmsum stefnum og straumum í tónlist en allt á það sameiginlegt að vera tilraunakennt og óheflað í sinni sköpun.

 Miðaverð á tónleikana er aðeins 2000 kr. ogí miðasöluferlinu gefst fólki auk þess kostur á að styrkja hljómsveitirnar beint með aukaframlagi. 

Tónleikaröðin er liður í því að framfylgja dagskrárstefnu Hörpu um bætt aðgengi grasrótar og ungs fólks í öllum tónlistargreinum og auka fjölbreytni viðburðarhalds í Hörpu. Auk þess að styðja við grasrót í íslensku tónlistarlífi er markmiðið er einnig að tónlistaráhugafólk geti gengið að því vísu að heyra fjölbreytta nýja íslenska tónlist, beint úr grasrót tónlistarlífsins, flutta reglulega við kjöraðstæður í tónlistarhúsi þjóðarinnar.

Auglýst var eftir umsóknum í vor og viðtökurnar voru afar góðar en vel á annað hundrað umsóknir bárust. Það var í höndum valnefndar að ákveða hvaða tónlistarfólk kæmi fram en við val á þátttakendum var horft til frum-, og fjölbreytileika, bæði þegar kemur að tónlistarstefnum og flytjendum.

Nánari upplýsingar.

Fréttir