Umhverfis- og lofts­lags­stefna Hörpu

Harpa tónlistar – og ráðstefnuhús ohf. setur sér markmið um að vera til fyrirmyndar í umhverfis – og loftslagsmálum með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni og þeim áhrifum sem losunin hefur í för með sér.

Harpa hefur frá árinu 2015 unnið markvisst að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og tekur virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Framtíðarsýn

Harpa tónlistar – og ráðstefnuhús ohf. setur sér markmið um að vera til fyrirmyndar í umhverfis – og loftslagsmálum með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni og þeim áhrifum sem losunin hefur í för með sér. Harpa vill leggja sitt af mörkum til að markmiðum Parísarsamkomulagsins sé náð og taka þannig virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Yfirmarkmið

Fram til ársins 2030 mun Harpa draga úr losun sinni á CO2 samtals um 40% miðað við árið 2019.

Umfang

Fram til ársins 2030 mun Harpa draga úr losun sinni á CO2 um samtals 40% m.a. með eftirfarandi aðgerðum: Áhersla er lög á:

Áhersla er lögð á að:

 • Minnka sóun með aukinni flokkun úrgangs. Hlutfall endurvinnanlegs úrgangs verði 75%.
 • Minnka orkunotkun með orkusparandi aðgerðum.
 • Leggja áherslu á að draga úr losun í rekstri en einnig kolefnisjafna alla eftirstandandi losun með kaupum á vottuðum kolefniseiningum frá og með árinu 2022.
 • Ráðstefnu- og viðburðagestum verði boðið að kolefnisjafna viðburðinn.
 • Áhersla lögð á minnkun á förgun og sóun á öllum stigum skipulagningar viðburða.
 • Draga úr matarsóun í samvinnu við veitingaþjónustu Hörpu.
 • Allt sorp í Hörpu er flokkað og allt endurvinnanlegt sorp sent til endurvinnslu.
 • Öll hreinsiefni tengd daglegum þrifum sem notuð eru í Hörpu eru með Svansmerkinu, sem er þekkt og virt umhverfisvottunarmerki á Norðurlöndunum.
 • Rekstraraðilar í Hörpu skipti aðeins við birgja sem stunda vistvæna viðskiptahætti og nota mestmegnis ferskt, íslenskt hráefni.
 • Fá viðurkennda umhverfis – og gæðavottun, innlenda sem og erlenda.
 • Innleiðing fjarvinnustefnu.
 • Hvatt verði til vistvænni ferðamáta starfsmanna til og frá vinnu með auknum stuðningi við vistvænar samgöngur. Hlutdeild vistvænni ferðamáta til og frá vinnu verði 30%.
 • Fræðsluviðburðir fyrir starfsmenn um umhverfismál verði haldnir a.m.k tvisvar á ári og reglulega fjallað um græn skref í starfseminni á starfsmannafundum.
 • Harpa kolefnisjafni öll ferðalög starfsmanna á vegum félagsins.

Gildissvið

Stefnan nær til allrar starfsemi Hörpu, þar með talið allra eininga sem hafa fasta starfsemi í Hörpu, rekstraraðila sem og þjónustuaðila.

Eftirfylgni

Harpa hefur lokið öllum 5 Grænum skrefum Umhverfisstofnunar. Með þátttöku í Grænum skrefum hefur Harpa innleitt öflugt umhverfisstarf með kerfisbundnum hætti undir handleiðslu sérfræðinga Umhverfisstofnunar. Formaður umhverfisnefndar Hörpu og grænna skrefa ber ábyrgð á að umhverfisstarf Hörpu sé rýnt og grænu bókhaldi skilað árlega. Harpa hefur einnig hlotið Svansvottun sem ráðstefnuhús sumarið 2022.

Umhverfis– og loftslagsstefna Hörpu er rýnd árlega af stýrihópi umhverfismála Hörpu þar sem yfir- og undirmarkmið eru uppfærð með tilliti til þróunar í losun gróðurhúsalofttegunda á milli ára. Undirmarkmið Hörpu er í vinnslu hjá stýrihópi og eru þau tengd Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Tenging við núverandi skuldbindingar

Í nóvember 2015 undirritaði forstjóri Hörpu yfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar í loftlagsmálum sem var kynnt á Parísarráðstefnunni um loftlagsmál í desember sama ár. Samkvæmt Loftlagsstefnu stjórnarráðsins eru gerðar kröfur um að allar ríkisstofnanir uppfylli öll fimm Grænu skrefin fyrir árslok 2021.

Stefnan er samþykkt af forstjóra og upplýsingum um árangur aðgerða er miðlað reglulega á vef Hörpu sem og til starfsfólks á innri vef.