Upptakt­urinn

Með Upptaktinum, tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna, er ungu fólki gefið tækifæri til að senda inn tónsmíð og vinna markvisst úr hugmyndum sínum með listnemum og listamönnum.

Upptakturinn slær taktinn á ný árið 2024

Með Upptaktinum eru ungmenni í 5. – 10. bekk hvött til að semja tónlist og þau sem komast áfram taka þátt í tónlistarsmiðju með nemendum skapandi tónlistarmiðlunar við Listaháskóla Íslands, auk þess að vinna að útsetningum undir leiðsögn nemenda Tónsmíðadeildar. Að þessu ferli loknu höfum við eignast nýtt tónverk sem við getum flutt á tónleikum og varðveitt með upptöku.

Markmið Upptaktsins

  • Sköpun: Að stuðla að tónsköpun ungs fólks og hvetja börn og ungmenni til að semja eigin tónlist.
  • Skráning: Að aðstoða börn og ungmenni við að fullvinna hugmyndir sínar í vinnusmiðju og varðveita þannig tónlistina.
  • Flutningur: Að gefa börnum og ungmennum tækifæri á að upplifa eigin tónlist í flutningi fagfólks við kjöraðstæður á tónleikum í Hörpu.

Reglur

  • Börnum og ungmönnum í 5.-10. bekk er heimilt að taka þátt í Upptaktinum og senda inn tónsmíð óháða tónlistarstíl. Þau sem komast áfram taka þátt í vinnustofu með fagfólki.
  • Lengd tónverks skal vera 1-5 mínútur að hámarki, annaðhvort einleiks eða samleiksverk fyrir allt að 7 flytjendur.
  • Hugmyndir skulu berast fyrir 21. febrúar á netfangið upptakturinn@gmail.com með nafni höfundar, aldri, símanúmeri, netfangi, grunnskóla, titli verks og verkinu á nótum og/eða mp3 hljóðskrá.

Hvernig er ferlið?

Dómnefnd  Fagmenn sitja í dómnefnd og velja 12-13 verk úr innsendum hugmyndum.

Tónsmiðja Valin verk verða fullunnin í tónsmiðju með tónskáldum og fagfólki í tónlist. Tónsmiðjan fer fram í Listaháskóla Íslands og Hörpu dagana og að því ferli loknu hafa orðið til ný tónverk.

Tónleikar  Tónverkin verða síðan flutt á glæsilegri tónleikadagskrá í Hörpu 26. apríl 2024. Tónleikarnir eru hluti af opnunarhátíð Barnamenningar í Reykjavík. Hljóðfæraleik og framkvæmd annast fagfólk í tónlist.

Tónsköpunarverðlaunin  Öll verkin sem flutt verða á tónleikunum hljóta tónsköpunarverðlaunin: Upptakturinn 2024.

Meira um Upptaktinn

Upptakturinn er á vegum Hörpu í samstarfi við Barnamenningarhátíð Reykjavíkur, Tónlistarborgina Reykjavík, RÚV og Listaháskóla Íslands. Í samstarfi við Upptaktinn eru einnig Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Tónlistarmiðstöð Austurlands, Garðabær, Borgarbyggð, Mosfellsbær, Kópavogsbær og Menningarfélag Akureyrar.

Nánari upplýsingar Verkefnastjóri Upptaktsins er Elfa Lilja Gísladóttir sem veitir fúslega allar nánari upplýsingar í gegnum upptakturinn@gmail.com og síma 699-6789.

10 ára afmælismyndband

Myndir frá tónlistarsmiðjum og tónleikum Upptaktsins