Stór­sveit Reykja­víkur

Stórsveit Reykjavíkur hefur alla tíð leitast við að hafa verkefnaval sitt fjölbreytt. Auk nýrrar tónlistar, bæði innlendrar og erlendrar, hefur hljómsveitin flutt sögulegar efnisskrár tengdar einstökum höfundum og hljómsveitum.

Stórsveit Reykjavíkur var stofnuð í febrúar árið 1992 og á sér því langa og farsæla sögu. Aðal hvatamaður að stofnun hljómsveitarinnar var Sæbjörn Jónsson og var hann jafnframt aðalstjórnandi Stórsveitarinnar fram til árins 2000. Stórsveit Reykjavíkur hefur alla tíð leitast við að hafa verkefnaval sitt fjölbreytt. Auk nýrrar tónlistar, bæði innlendrar og erlendrar, hefur hljómsveitin flutt sögulegar efnisskrár tengdar einstökum höfundum og hljómsveitum. Hún hefur einnig átt mikið og farsælt samstarf við fjölmarga íslenska söngvara úr heimi popptónlistarinnar.

Stórsveit Reykjavíkur hefur fengið afbragðs dóma gagnrýnenda fyrir leik sinn. Sveitin hlaut Íslensku Tónlistarverðlaunin 2005 sem jazzflytjandi ársins, 2011 fyrir jazzplötu ársins og 2023 sem jazzflytjandi ársins 2022. Stórsveitin hefur sent frá sér fimm geisladiska í eigin nafni, auk þess að koma fram á nokkrum diskum annarra flytjenda, þeirra á meðal Bubba Morthens og Sálarinnar hans Jóns míns.

Stórsveit Reykjavíkur nýtur stuðnings Reykjavíkurborgar og Tónlistarsjóðs.

Stórsveitin fagnar 30 ára afmæli

Stórsveit Reykjavíkur fagnaði 30 ára afmæli með stórtónleikum í Eldborg sunnudagskvöldið 18. september 2022. Tónskáldið og hljómsveitarstjórinn Maria Schneider, ein skærasta stjarna stórsveitaheimsins og margfaldur Grammy verðlaunahafi, stjórnaði eigin verkum á stórkostlegum tónleikum. Í tilefni af afmælinu var tilkynnt um framtíðarsamning Stórsveitarinnar við ríki og borg.

Á þriggja áratuga ferli hefur Stórsveit Reykjavíkur haldið vel á þriðja hundrað tónleika og gefið út 10 geisladiska. Fjölmargir gestastjórnendur hafa starfað með sveitinni í gegnum árin, bæði erlendir og innlendir. Sveitin hefur lagt sig eftir fjölbreyttu verkefnavali; frumflutt mikið af nýrri íslenskri tónlist, leikið sögulega mikilvæga stórsveitatónlist, leikið fyrir börn og átt samstarf við fjölmarga aðilia af sviði íslenskrar popptónlistar. Sveitin hefur margsinnis hlotið íslensku tónlistarverðlaunin.

Stórsveit Reykjavíkur 30 ára afmælistónleikar