9. janúar 2026

Árið 2025 var litríkt og kraftmikið hjá Hörpu

Alls fóru yfir 1.300 viðburðir fram á árinu.

Person in red rappelling down a modern glass building with a geometric pattern, reflected in the windows.

Árið 2025 var lifandi og kraftmikið í Hörpu. Gestir, hvaðanæva að, heimsóttu samkomuhús þjóðarinnar til að upplifa viðburði af ólíkum toga sem veittu innblástur, gleði, nýjar tengingar og fallegar minningar.

Alls fóru yfir 1.300 viðburðir fram á árinu, þar á meðal tónleikar og leiksýningar, ráðstefnur og fundir, markaðir, messur og fjölmörg hátíðleg tilefni. Gestakomum fjölgaði á milli ára og námu þær rúmlega 1,6 milljónum, sem jafngildir um fjórföldum íbúafjölda landsins.

Purple infographic: Map of Iceland marked with smiley faces. Text shows "1.600.000 annual visits" and "4X Iceland's population". Harpa logo in the bottom right.

Harpa heldur áfram að njóta velvildar almennings samkvæmt nýrri viðhorfskönnun Maskínu. Niðurstöður könnunarinnar sýna að 73% landsmanna heimsóttu húsið á liðnu ári. Af þeim voru 69% með jákvætt viðhorf til Hörpu, en einungis 4,7% sögðust hafa neikvætt viðhorf. Niðurstöðurnar sýna að Harpa heldur áfram að styrkja stöðu sína sem hluti af mikilvægum innviðum fyrir menningu, atvinnulíf og samfélag.

Skýrsla um hagræn áhrif Hörpu leit dagsins ljós

Á fyrri hluta árs kom út ný skýrsla um hagræn áhrif Hörpu. Skýrslan var unnin af Rannsóknasetri skapandi greina á Bifröst að frumkvæði Hörpu og varpar ljósi á efnahagslegt gildi starfseminnar.

Niðurstöður skýrslunnar leiða í ljós að starfsemi Hörpu hefur veruleg efnahagsleg áhrif. Áætlað er að árleg hagræn verðmætasköpun nemi um 10 milljörðum króna og heildarskatttekjur af starfseminni telji um 9 milljarða. Það er fimmtánfalt hærra en núverandi rekstrarframlag eigenda til Hörpu.

Pie chart showing Harpa's 2023 total value creation of 10 billion kr, broken down as: Indirect 50%, Direct 33%, and Derived 17%.

Þá kemur fram að um 650 störf megi rekja með beinum, óbeinum og afleiddum hætti til starfseminnar. Þar má nefna allt frá störfum fyrir viðburðaskipuleggjenda og listafólk, tækni- og sviðsfólk sem tryggja að tónleikar, ráðstefnur og aðrir viðburðir gangi snurðulaust fyrir sig, til starfa í veitingageiranum, ferðaþjónustu og sérfræðinga á fjölmörgum sviðum sem njóta áhrifanna af fjölbreyttri starfsemi hússins. Hörpu má því líkja við hjarta sem dælir lífi út í skapandi greinar og þjónustu í borginni.

Jafnframt er ljóst að áhrif Hörpu verða ekki einungis metin í tölum. Skýrslan gefur til kynna að húsið hafi haft víðtæk áhrif á menningu, skapandi greinar og samfélagið í heild en þau áhrif verða kortlögð í framhaldinu.

Yfir 800 tónleikar og listviðburðir

Harpa hefur skapað sér einstaka stöðu sem heimavöllur og heimssvið og er lifandi vettvangur fyrir tónlist og sviðslistir af öllum toga. Fjölbreytni tónlistarviðburða í Hörpu er gríðarleg og fóru 846 tónleikar og listviðburðir fram í Hörpu á árinu.

Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt 95 tónleika og opnar æfingar fyrir rúmlega 70.000 gesti, auk 19 tónleikakynninga. Stórsveit Reykjavíkur hélt átta tónleika og Múlinn Jazzklúbbur stóð fyrir ríflega 40 tónleikum.

Fjölbreyttar og glæsilegar tónlistarhátíðir fóru fram í Hörpu á árinu, má þar nefna Myrka músíkdaga, Reykjavík Early Music Festival, Seiglu, Jazzhátíð Reykjavíkur og Óperudaga. Sígildir sunnudagar voru áfram dýrmætur og mikilvægur vettvangur fyrir lifandi kammertónlist í framúrskarandi flutningi.

Af einstökum tónleikum á árinu 2025 má til að mynda nefna 80 ára afmælistónleika Gunnars Þórðarsonar og fimm minningartónleika um Vilhjálm Vilhjálmsson sem hefði orðið áttræður á árinu. Stórstjörnurnar Norah Jones og Bryan Adams fylltu Eldborg tvisvar sinnum hvor um sig og rokksveitirnar Wardruna, In Flames og Manowar komu allar fram í júní.

HAM og Apparat sameinuðust á sviði Eldborgar, Nýdönsk hélt fimm tónleika, Stuðmenn fögnuðu 50 ára afmæli Sumars á Sýrlandi og Vitringarnir 3 fylltu Silfurberg 20 sinnum í aðdraganda jóla, svo fátt eitt sé nefnt.

Árið 2025 fóru einnig fram 80 ára afmælistónleikar Magnúsar Eiríkssonar, eins ástsælasta laga- og textahöfundar þjóðarinnar en hann lést í upphafi ársins 2026.

A grey-haired man claps in a tiered theater filled with an audience, featuring red architectural details.

Unga fólkið á heimili í Hörpu

Harpa gegnir ríku menningarlegu og samfélagslegu hlutverki og starfar eftir dagskrárstefnu þar sem markmiðið er að auka fjölbreytni í viðburðahaldi í húsinu. Barnamenning, grasrót, samstarf við fjölbreyttan hóp stofnana, hátíða og listamanna, ásamt hágæða alþjóðlegum tónlistarviðburðum, eru þar í öndvegi.

Fjölskyldudagskrá Hörpu hefur fest sig í sessi á meðal barna og fjölskyldna úr öllum áttum. Árið 2025 var boðið upp á ríflega 40 viðburði á vegum Fjölskyldudagskrár Hörpu sem rúmlega 5000 gestir sóttu. Rík áhersla var lögð á fjölmenningu, sköpun, upplifun og þátttöku en á meðal viðburða voru hljóðbað, krílabarrokk, hipphopp, dúlludiskó, fjöltyngdar skoðunarferðir og jólaböll fyrir hundruð leikskólabarna. Hljóðhimnar, upplifunarrýmið fallega á jarðhæð, var sem fyrr eftirsóttur og notalegur viðkomustaður fyrir gesti á öllum aldri.

Tilraunagleði og nýsköpun einkenndu áfram tónleikaröðina Upprásina,samstarfsverkefni Hörpu, Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur og Rásar 2. Alls koma 27 hljómsveitir eða sólólistamenn fram innan seríunnar á hverju ári sem er liður í stefnu Hörpu um að auka aðgengi grasrótar og ungs fólks í öllum tónlistargeirum og auka við fjölbreytni í dagskrá hússins.

A young woman singin into a microphone on a pink-lit stage at Upprásin, with a bassist playing a blue guitar beside her.

Uppskeruveisla Upptaktsins fór fram í apríl, þar sem fjórtán splunkunýjar og frábærar tónsmíðar eftir börn og ungmenni voru frumfluttar. Upptakturinn er tónsköpunarverkefni ætlað börnum og ungmennum í 5.–10. bekk og hefur allt frá árinu 2012 veitt um 150 ungum höfundum Tónsköpunarverðlaun. Verkefnið er samstarfsverkefni Hörpu, Listaháskóla Íslands, RÚV, Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur og fjölmargra sveitafélaga um landið.

Revolta og Cécile McLorin Salvant

Harpa gekkst fyrir tveimur alþjóðlegum viðburðum á árinu. Í júní bauð kammersveitin Geneva Camerata upp á einstaklega áhrifamikla sviðsetningu á fimmtu sinfóníu Dmitris Shostakovitsj í Eldborg undir heitinu Revolta. Flutningurinn hlaut standandi lófatak, dynjandi fagnaðarlæti í Eldborg og frábæra dóma en Magnús Lyngdal Magnússon, gagnrýnandi Morgunblaðsins, taldi viðburðinn vera einn af hápunktum ársins í íslensku tónlistarlífi.

Dancers from Geneva Camerata and musicians perform on a smoky stage under spotlights.

Í ágúst kom svo ein eftirsóttasta jazzsöngkona heims, Cécile McLorin Salvant, þrefaldur Grammy-verðlaunahafi, fram á lokatónleikum Jazzhátíðar í Reykjavíkur sem fram fóru í Eldborg. Viðburðurinn var samstarfsverkefni Hörpu og Jazzhátíðar og voru glæsilegur og áhrifamikill lokapunktur á afar vel heppnaðri jazzhátíð í Hörpu.

Cecile McLorin Salvant, on stage, in a polka-dot dress next to husband at a grand piano.

Harpa - ráðstefnuhús á heimsmælikvarða

Ráðstefnuhald er mikilvægur hluti af kjarnastarfsemi Hörpu, þar sem lögð er áhersla á samkeppnishæfni hússins á alþjóðlegum vettvangi. Sjálfbærni er samofin starfseminni og er Harpa Svansvottað ráðstefnuhús.

Á árinu fóru fram tæplega 500 innlendar og alþjóðlegar ráðstefnur og fagviðburðir, þar sem fyrirtæki, stofnanir og samtök komu saman til umræðu, tengslamyndunar og þekkingarmiðlunar.

Þar á meðal var Hringborð Norðurslóða (Arctic Circle), sem haldið var í tólfta sinn í Hörpu með yfir 2.000 gestum frá 70 löndum. Þá fór Reykjavík Global Forum fram með um 500 kvenleiðtogum víðs vegar að úr heiminum úr opinbera og einkageiranum. Reykjavíkurskákmótið setti nýtt þátttökumet með 419 alþjóðlegum keppendum og Utmessan var haldin í tólfta sinn og heldur áfram að stækka.

Attendees gather in a large, multi-level modern conference hall with prominent "Arctic Circle" branding and digital screens.

Af öðrum stórum viðburðum í þessum geira má nefna Mannauðsdaginn, sem er orðinn einn stærsti viðburður landsins á sviði stjórnunar- og mannauðsmála með yfir 1.200 gesti. Þá fór ISTP, alþjóðleg ráðstefna kennarastéttarinnar, fram í húsinu þar sem rætt var við stjórnvöld og verkalýðsleiðtoga um eflingu kennarastéttarinnar og bættan námsárangur. Einnig var IGEC-ráðstefnan haldin, þar sem fjallað var um græna orku, gervigreind og tengd málefni.

Harpa er einn af stærstu ferðamannaseglum höfuðborgarsvæðisins

Harpa hefur á undanförnum árum fest sig í sessi sem lykilviðkomustaður fyrir ferðamenn sem sækja bæði menningarupplifun og einstakan arkitektúr.

Gögn Ferðamálastofu sýna að stór hluti ferðamanna sem dvelja á höfuðborgarsvæðinu heimsækir Hörpu. Þar sækja gestir meðal annars í skipulagðar skoðunarferðir með leiðsögumanni til að kynnast arkitektúr hússins, sem og fjölbreyttri menningardagskrá þess.

Undanfarin tvö sumur hefur Harpa jafnframt boðið upp á hádegistónleikaröðina Midday Music í Eldborg, þar sem áhorfendur sitja á sviðinu sjálfu og upplifa tónlist í nánum tengslum við flytjendur, með hinn undurfagra Eldborgarsal sem bakgrunn.

A woman speaks on a dark stage with a seated man, watched by an audience.

Í mars var sýningin The Volcano Express opnuð á K2 og styrkti enn frekar stöðu Hörpu sem áfangastaðar ferðamanna. Sýningin er fræðandi upplifunarsýning um eldfjöll Íslands og höfðar jafnt til erlendra gesta sem heimamanna. Hún er opin alla daga vikunnar og sýnd á 15 mínútna fresti.

Litrík viðburðadagskrá framundan

Það kennir svo sannarlega margra grasa í litríkri viðburðadagskrá Hörpu á nýju ári. Í apríl mun palestínska söngkonan og lagahöfundurinn Nai Barghouti halda stóra tónleika í Eldborg en hún hefur vakið mikla athygli fyrir ótrúlega og magnaða tónlistarhæfileika sína. Í maí munu ungar tónlistarstjörnur framtíðarinnar koma fram í Norðurljósum undir merkjum Rising Stars tónlistarseríunnar sem ECHO, samtök evrópskra tónlistarhúsa standa á bak við.

Glæsileg dagskrá Myrkra músíkdaga og Reykjavík Early Music Festival hefur þegar verið kynnt og nokkrir stórviðburðir fara fram í Hörpu á Listahátíð í Reykjavík í júní. Eru þá ótaldar heimsóknir stórstjarna og framúrskarandi spennandi efnisskrá Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Í aprílbyrjun heldur stórpíanistinn Víkingur Heiðar Ólafsson tvenna einleikstónleika í Eldborg þar sem hann fylgir eftir nýrri og margrómaðri plötu sinni en samband Víkings við Hörpu hefur verið náið og sterkt allt frá hann lék á opnunartónleikum Hörpu í maí 2011.

Á vormánuðum mun ný sýning opna á jarðhæð Hörpu tileinkuð sögu íslenskrar tónlistar en nánar verður sagt frá henni á komandi vikum.

Harpa fagnar 15 ára afmæli

Í ár fagnar Harpa 15 ára afmæli. Frá opnun hefur húsið hlotið fjölda alþjóðlegra verðlauna, tekið á móti milljónum gesta og orðið eitt helsta kennileiti landsins. Í Hörpu hafa íslenskir og erlendir listamenn stigið á svið, stórar alþjóðlegar ráðstefnur verið haldnar og ótal ógleymanleg augnablik orðið til.

Afmælisársins verður minnst með ýmsum hætti og síðar á árinu verður haldið upp á 15 ára afmælið með sérstakri afmælisdagskrá á Menningarnótt fyrir landsmenn.

Harpa er húsið okkar allra

Á árinu 2025 staðfesti Harpa enn frekar hlutverk sitt sem einn mikilvægasti vettvangur landsins fyrir listir, menningu, atvinnulíf og nærandi samveru – Harpa er ekki aðeins tónlistar- og ráðstefnuhús, heldur lifandi samkomustaður fyrir samfélagið. Húsið endurspeglar metnað Íslands í menningu, skapandi greinum og alþjóðlegu samstarfi og heldur áfram að þróast með nýjum hugmyndum, fjölbreyttri dagskrá og öflugri þjónustu. Harpa er lifandi hús sem sameinar fólk og lætur drauma rætast.

Harpa þakkar gestum, listafólki, viðskiptavinum og samstarfsaðilum fyrir samstarfið á árinu.

Harpa er húsið okkar allra og við hlökkum til að taka á móti ykkur á nýju ári!

A BMX rider is airborne above an eager crowd in front of the modern Harpa Concert Hall.

Fréttir