Sagan

Bygging Hörpu á sér langan aðdraganda og sögu, sem lituð er óbilandi trú hugsjónafólks og velunnara íslenskrar menningar og lista. Eftir meira en aldarlanga bið rættist loks draumur um íslenskt tónlistarhús með tilkomu þessarar glæsilegu byggingar.

Saga Hörpu hússins

Talið er að árið 1881 hafi fyrsta áskorunin um byggingu tónlistarhúss birst í blaðinu Þjóðólfi, en formleg Samtök um tónlistarhús voru stofnuð árið 1983.

  • Á árunum eftir 1990 komst verkefnið á skrið með aðkomu íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar og árið 1999 tilkynntu borgarstjóri Reykjavíkur og ríkisstjórnin áætlun um að byggja tónlistar- og ráðstefnuhús í miðborg Reykjavíkur.
  • 9. mars 2006 var undirritaður samningur á milli íslenska ríkisins, Reykjavíkurborgar og Eignarhaldsfélagsins Portus vegna byggingar tónlistar- og ráðstefnuhúss við Austurhöfn Reykjavíkur og þann 12. janúar 2007 hófust framkvæmdir við húsið.
  • Í október 2008 voru framkvæmdir stöðvaðar, en í mars 2009 hófust þær aftur eftir ákvörðun Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þáverandi borgarstjóra.
  • Í maí 2011 var húsið opnað og voru fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands haldnir í Eldborgarsalnum 4. maí. Þann 13. maí 2011 var formleg opnun hússins og þann 20. ágúst var byggingin vígð og glerhjúpur Ólafs Elíassonar fékk fyrst að njóta sín með ljósasýningu á Menningarnótt í Reykjavík.

Nafnið Harpa

Nafn tónlistar- og ráðstefnuhússins í Reykjavík var opinberað við hátíðlega athöfn 11. desember 2009. Nafnið Harpa bar sigur úr býtum í vel sóttri samkeppni, en alls bárust 4.156 nafnatillögur frá 1.200 einstaklingum. Krafa var um að nafnið væri íslenskt, en jafnframt að hægt væri að bera það fram á flestum tungumálum. Nafnið Harpa hefur fleiri en eina merkingu. Það er gamalt íslenskt orð sem vísar til árstíma að vori og er mánaðarheiti í gamla norræna tímatalinu. Hörpu þekkjum við ennfremur sem tilkomumikið strengjahljóðfæri og þannig tengist nafn tónlistarhússins starfsemi þess.