Upprásin
Verð
2.000 kr
Næsti viðburður
þriðjudagur 24. febrúar - 20:00
Salur
Kaldalón
Harpa, í samstarfi við Tónlistarborgina Reykjavík, Rás 2 og Landsbankann, stendur fyrir Upprásinni, tónleikaröð sem tileinkuð er grasrót íslenskrar tónlistar, þvert á tónlistarstefnur. Upprásin fer nú fram þriðja árið í röð og munu samtals 27 hljómsveitir koma fram, þrjár á hverju tónleikakvöldi.
Tónleikaröðin er liður í því að framfylgja dagskrárstefnu Hörpu um bætt aðgengi grasrótar og ungs fólks í öllum tónlistargreinum og auka við fjölbreytni. Markmiðið er einnig að tónlistaráhugafólk geti gengið að því vísu að heyra fjölbreytta nýja íslenska tónlist, beint úr grasrót tónlistarlífsins, flutta við kjöraðstæður í tónlistarhúsi þjóðarinnar.
Miðaverð er aðeins 2000 kr. en hægt er að leggja til hærri upphæð í miðasöluferlinu sem rennur beint til listafólksins.
Laufkvist
Laufkvist er grænkuband sem semur um lífið í flæði við náttúruna. Það spilar þjóðlagaskotna tónlist sem fjallar um stóra skógi, árstíðir, tilfinningar og undraverur. Verkefnið hófst 2024 þegar Francis Laufkvist, stofnandi og nafni hljómsveitarinnar, tók þátt í Músíktilraunum. Sumarið eftir varð verkefnið að hljómsveit þegar hún spilaði á grasrótartónlistarhátíðinni Hátíðni. Tónlist Laufkvist á það til að skilja hlustendur eftir með nærða sál, bros á vör og jafnvel tárvot augu.
Francis Laufkvist Kristinsbur, Víf Ásdísar Svansbur, Rósa Sif Welding Kristinsdóttir og Silja Höllu Egilsdóttir skipa hljómsveitina Laufkvist.
glupskTónlist glupsk fer um víðan völl. Lögin eru samin út frá spuna og öll tónlistin er frumsamin. Í lifandi flutningi fylgja lögin skýrum strúktúr ásamt köflum sem eru í opnum spuna. glupsk vefur þessum andstæðum saman á vandaðan hátt.
Tónlistin er hörð, kraftmikil og drungaleg en einnig lágstemmd, brothætt og falleg. Hún er í senn ævintýraleg og tekur reglulegar u-beygjur. glupsk sækir innblástur í jaðarrokk, frjálsan spuna, dómdagsmálm, pönk og no-wave. Hljóðheimurinn er kvikur og hljóðin eru á hreyfingu. glupsk leggur mikla áherslu á að tónlistin sé í sífelldri þróun. glupsk fer frá djössuðum spunaköflum yfir í hörð, hávær og þung rokklög.
Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson, Guðmundur Ari Arnalds, Örlygur Steinar Arnalds og Sólrún Mjöll Kjartansdóttir skipa hljómsveitina glupsk.
Anya Shaddock
Anya Shaddock er 22 ára söngkona og lagahöfundur frá Fáskrúðsfirði og Boston.
Hún blandar saman jazz, funk og R&B á einstakan hátt og hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir bæði frumsamda tónlist og magnaða sviðsframkomu.
Hún hefur unnið bæði Samfés og Nótuna, tekið þátt í Tónaflóði RÚV, komist í top 18 í Idol og gefið út plötuna Inn í borgina – sem var plata vikunnar á Rás 2 og sló í gegn á spilunarlistum.
Árið 2023 kom út með von um nýjan dag með dirb og BNGRBOY.
Anya semur, útsetur og framleiðir sína tónlist sjálf.
Viðburðahaldari
Harpa
Miðaverð er sem hér segir
A
2.000 kr.
Dagskrá
Kaldalón er salur staðsettur á fyrstu hæð Hörpu, norðan megin í húsinu. Hann hentar mjög vel fyrir allar tegundir tónleika, leiksýningar, ráðstefnur, fundi og listviðburði.
Næstu viðburðir í Kaldalóni