

Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús er í eigu ríkisins (54%) og Reykjavíkurborgar (46%) og er rekið undir félaginu Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf., kt. 660805-1250.
Hlutverk Hörpu er að vera vettvangur fyrir tónlistar- og menningarlíf sem og hvers konar ráðstefnur, fundi og samkomur, innlendar og erlendar. Hlutverk hússins er jafnframt að vera miðstöð mannlífs í miðborg Reykjavíkur fyrir alla landsmenn og áfangastaður ferðamanna innlendra og erlendra sem vilja kynna sér bygginguna, þjónustu í henni og arkitektúr og listaverk í húsinu.
Harpa og dótturfélög
Samstæða Hörpu samanstendur af móðurfélaginu Hörpu og þremur dótturfélögum, sem hvert um sig styður við kjarnarekstur og sérhæfða þætti starfseminnar:
1. Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf. (móðurfélag)
Móðurfélagið rekur Hörpu sjálfa og ber ábyrgð á yfirgripsmiklum rekstri hússins og viðburðahaldi ásamt tengdum þjónustuliðum.
2. Greiðslumiðlunin Hringur ehf.
Greiðslumiðlunin Hringur ehf. er hluti af samstæðu Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. og hefur þann tilgang að gefa út skuldabréfaflokk vegna byggingar tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu við Austurhöfn í Reykjavík og annast mánaðarlegar afborganir af útgefnum skuldabréfum í samræmi við ákvæði samnings um rekstur og starfsemi Hörpu.
Framlag íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar vegna byggingar og fjármögnunar Hörpu gengur til greiðslu á lántöku og er veðsett á móti skuldum félagsins. Framlagið byggir á samningi um rekstur og starfsemi Hörpu þar sem íslenska ríkið og Reykjavíkurborg skuldbinda sig til að greiða mánaðarlega framlag í 35 ár til Hörpu. Upphafsgreiðsla var í mars 2011 og greiðslu lýkur árið 2046.
3. Rekstrarfélagið Stæði slhf.
Tilgangur félagsins er að annast rekstur bílastæðahúss Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss við Austurhöfnina í Reykjavík. Félagið er samlagshlutafélag og ósjálfstæður skattaðili. Skattskyldur hagnaður er skattlagður hjá félagsaðilum á grundvelli hlutafjáreignar. Móðurfélag félagsins er Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf. (Harpa). Breytingar urðu á eignaraðild félagsins í byrjun desember 2024 þegar Reykjavík Developement ehf. eignaðist 22,94% hlut Reykjavíkurborgar, en Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf er áfram eigandi 77,06%.
4. Rekstrarfélagið Hörpustrengir ehf.
Rekstrarfélagið Hörpustrengir ehf. stendur fyrir menningarviðburðum í Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúsi. Starfsemi félagsins á því sviði lýtur að tónlistar- og menningarviðburðum sem hvorki teljast í samkeppni við aðra afþreyingarmarkaði né fasta notendur Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf.
Markmið ríkis og Reykjavíkurborgar með byggingu og rekstri tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu er að efla íslenskt tónlistar- og menningarlíf, styrkja stöðu Íslands á sviði ráðstefnuhalds og ferðaþjónustu og stuðla að öflugu mannlífi í miðborginni. Markmiðin rækir félagið einkum með því að leigja út sali og rými til tónlistarviðburða, ráðstefnuhalds og funda og tengdrar starfsemi á samkeppnishæfu verði, með því að standa fyrir samstarfsverkefnum og eigin verkefnum eftir því sem rekstur félagsins leyfir, með því að skipuleggja aðra starfsemi í húsinu s.s. veitingarekstur og verslun, til að laða að gesti og gangandi, og með því að standa opið ferðamönnum, innlendum sem erlendum, árið um kring.

Rekstrarfélagið Hörpustrengir hefur þann tilgang að standa fyrir völdum viðburðum sem marka spor í íslenskt tónlistar- og menningarlíf og myndu ekki verða að veruleika án aðkomu félagsins. Viðburðir eru oftast unnir með völdum samstarfsaðilum. Félagið gætir þess að standa ekki í beinni samkeppni við viðburðahaldara og fasta notendur hússins. Hörpustrengir hafa staðið fyrir fjölda ólíkra viðburða, sem dæmi má nefna: Stórtónleika fiðluleikarans Anne-Sophie Mutter og Mutter Virtuosi, Hnotubrjótinn í uppfærslu Kiyv Grand Ballet í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, London Philharmonic Orchestra, Reykjavik Midsummer Music, Heimspíanistinn Philip Glass og fleiri.

Stuðlar að gæðum og fjölbreytni í viðburðahaldi í Hörpu og að húsið uppfylli sem best menningarlegt hlutverk sitt miðað við þann stakk sem því er sniðinn. Áherslurnar eru: Barnamenning og fjölskylduvæn dagskrá, Borgartorgið sem hattur yfir hátíðir, opin rými og Hörputorg, fjölbreytni og bætt aðgengi fyrir grasrót og ungt tónlistarfólk og fyrsta flokks alþjóðlegir viðburðir á vegum Hörpustrengja.


Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir
Stjórnarformaður
Ráðgjafi

Árni Geir Pálsson
Varaformaður
Ráðgjafi

Guðrún Erla Jónsdóttir
Meðstjórnandi
Framkvæmdastjóri

Ólöf Kristín Sigurðardóttir
Safnstjóri
Meðstjórnandi

Pétur Magnússon
Meðstjórnandi
Forstjóri
Varamenn
Varamenn í stjórn Hörpu eru Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir og Jóhanna Margrét Gísladóttir.
Skipurit Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss

Tengt efni
Aðalfundur Hörpu fyrir árið 2024
Aðalfundur Hörpu fyrir árið 2023
Aðalfundur Hörpu fyrir árið 2022
Aðalfundur Hörpu fyrir árið 2021
Aðalfundur Hörpu fyrir árið 2020
Aðalfundur Hörpu fyrir árið 2019
Aðalfundur Hörpu fyrir árið 2018