14. október 2025
Harpa kynnir nýja íslenska leturgerð - Harpa Sans
Harpa hefur tekið í notkun nýja íslenska leturgerð.

Harpa hefur tekið í notkun nýja íslenska leturgerð sem hönnuðurinn Gabríel Markan teiknaði sérstaklega fyrir húsið. Leturgerðin ber nafnið Harpa Sans og byggir á svipuðum hugmyndum og fyrra letur, DIN, en er útfært á frábrugðinn máta með notkun Hörpu sérstaklega í huga. Með Harpa Sans styrkir Harpa sjónræna ímynd sína og fær á sama tíma letur sem er sérsniðið að þörfum þess.
Sérsniðin leturgerð fyrir menningarhús þjóðarinnar
Harpa Sans var hannað til að styðja við sterkt, nútímalegt og auðþekkjanlegt útlitseinkenni sem endurspeglar stöðu Hörpu sem menningarhúss á heimsmælikvarða. Með tilkomu nýrrar leturgerðar styrkir Harpa eigin ásýnd og styður um leið við íslenska hönnun og skapandi starf.
„Það er einstakt tækifæri að hanna letur fyrir Hörpu. Húsið er eitt mikilvægasta menningarhús landsins og leturgerðin þarf að endurspegla reisn þess og fjölbreytileika,“ segir Gabríel Markan, hönnuður Hörpu Sans.
Frá iðnaðarstandardi til sérhannaðs leturs
Fyrra letur Hörpu, DIN, var upphaflega hannað árið 1931 fyrir umferðarskilti í Þýskalandi. Með sínum skýru línum og áreiðanleika hefur það náð mikilli útbreiðslu og fest sig í sessi sem eitt af þekktustu leturgerðum heims, notað í fjölbreyttum miðlum frá strætóauglýsingum til sjampóumbúða – en fylgifiskur þeirrar velgengni er að það getur reynst erfitt að nýta letrið sem útlitssérkenni. Með Harpa Sans fær húsið nú sitt eigið sérsniðna letur sem undirstrikar sérstöðu þess.
Vaxandi starfsemi kallar á skýrt útlitseinkenni
Í Hörpu fara fram yfir 1.400 viðburðir árlega og dagskráin hefur stækkað jafnt og þétt, bæði hvað varðar eigin viðburði og samstarfsverkefni. Þar má nefna Fjölskyldudagskrá Hörpu með um 50 fría viðburði árlega, grasrótartónleikaröðina Upprásina, Sígilda sunnudaga og fjölda alþjóðlegra stórviðburða.
Samkvæmt nýrri skýrslu Rannsóknaseturs skapandi greina um hagræn áhrif Hörpu, svonefnd Hörpu-áhrif, kemur fram að 1% allra ferðamanna, sem heimsækja Ísland, koma sérstaklega vegna viðburðar í Hörpu. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að húsið hafi sterka og áberandi ímynd bæði innanlands og á erlendum vettvangi.
Fjárhagsleg og menningarleg hagkvæmni
Auk þess sem sérhönnuð leturgerð styður við sjálfstæða ímynd Hörpu er hún einnig fjárhagslega hagkvæm lausn. Notkun á alþjóðlegum leturgerðum krefst greiðslu leyfisgjalda sem hækka í takt við útbreiðslu, en með Harpa Sans á húsið nú letur til framtíðar án slíkra kvaða.
„Með því að fjárfesta í hönnun Harpa Sans er stigið mikilvægt skref í að efla sjónræna ímynd Hörpu, tryggja hagkvæmni til framtíðar og styðja við íslenska hönnun,“ segir Hildur Ottesen Hauksdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Hörpu“.
Um hönnuðinn og tilurð Harpa Sans
Gabríel Markan er grafískur hönnuður og leturhönnuður. Hann hefur hannað fjölda leturgerða, meðal annars fyrir fyrirtæki og stofnanir, bæði sjálfstætt og í samstarfi við letursmiðjuna Universal Thirst.
„Harpa Sans var hannað með nægilegt hlutleysi í huga til þess að geta átt við hina fjölbreyttu starfsemi sem húsið geymir. Það þurfti því að vera stílhreint og tímalaust en hafa jafnframt einkennandi eiginleika. Arkitektúr Hörpu var ekki síst leiðarljós í hönnunarferlinu. Glerhjúpurinn er aðalsmerki hússins að utan, en innra byrðið er ekki síður einkennandi. Letur Hörpu þurfti að hafa ákveðinn arkitektónískan brag og hlutföllin sem hönnunin byggði á voru að miklu innblásin af byggingunni sjálfri. Helstu einkenni Hörpu Sans eru háx-hæð, ferköntuð form og ílöng hlutföll – sem vísa hófsamt í einingar glerhjúpsins. Heildaráhrif þessara þátta skila sér í skarpri áferð í samfelldum texta og fyrirsögnum“ segir Gabríel.
Harpa Sans má nú þegar sjá á vef Hörpu og í markaðsefni.