11. nóvember 2022

Anne-­Sophie Mutter á tónleikum í Hörpu

Miðasala hefst 16. nóvember.

Anne-Sophie Mutter, hinn heimsþekkti fiðluleikari, mun koma fram í Eldborg í Hörpu ásamt The Mutter Virtuosi þann 27. janúar 2023. Aðeins verður um þessa einu tónleika að ræða. Mutter hefur um áratugaskeið komið fram í öllum helstu tónlistarhúsum heims og á einstaklega glæstan feril sem einleikari í heimi klassískrar tónlistar. Hún er margfaldur verðlaunahafi, en hún hefur m.a. hlotið fern Grammy verðlaun og hefur heimsfrumflutt á fjórða tug verka helstu tónskálda samtímans sem voru mörg sérstaklega samin fyrir hana.

Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 1985 sem Mutter kemur fram á Íslandi og nú með Virtúósunum, strengjasveit sem hún stofnaði árið 2011. Strengjasveitin þykir einstök í sinni röð en hún er skipuð rísandi stjörnum og framúrskarandi nemendum sem valdir hafa verið af styrktarsjóði hennar. 

Á efnisskránni verður Íslands-frumflutningur á verki Unsuk Chin, Gran Cadenza, fiðludúett sem saminn var fyrir Mutter, konsert fyrir fjórar fiðlur eftir Antonio Vivaldi, Chevalier de Sainte-Georges fiðlukonsert Nr. 5, opus 2 eftir Joseph Bologne og síðast en ekki síst Árstíðirnar fjórar eftir Vivaldi. 

Bæði efnisskráin og strengjasveitin The Mutter Virtuosi eru dæmi um ástríðu Mutter fyrir tímalausum tónverkum, áherslu á samfélagsleg gildi og skuldbindingu hennar gagnvart framtíð klassískrar tónlistar - eða eins og hún segir sjálf:  ,,Mig langaði virkilega til að deila sviðinu með virtúósunum mínum, þau eru órjúfanlegur hluti af mínu lífi og þeirri hugsjón að manneskjan getur nýtt tónlistina vel í samfélagslegum tilgangi. Tónlistin gerir okkur kleift að kynnast hvort öðru í raun og veru, hún byggir brýr ekki aðeins á milli kynslóða heldur einnig á milli ólíkra menningarheima og þeirra veggja sem við sem samfélag höfum reist á milli okkar.” 

,,Það er sérstakur heiður og gleði að geta boðið upp á jafn glæsilegan viðburð og tónleika Anne-Sophie Mutter með The Mutter Virtuosi, en hún hefur aðeins einu sinni komið fram á Íslandi og þá fyrir 26 árum síðan á vegum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Tónlistarfélagsins í Háskólabíói . Mutter er heillandi listamaður á heimsmælikvarða og á einstaklega glæstan feril sem einleikari, lærimeistari og hugsjónamanneskja í heimi klassískrar tónlistar. Hún hefur spilað á fiðlu frá fimm ára aldri og er af mörgum talin vera hin óumdeilda drottning fiðlunnar. Þessir tónleikar færa heimssviðið í Hörpu og eru stórtíðindi fyrir tónlistarunnendur”, segir Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu.

Miðasala á tónleikana hefst miðvikudaginn 16. nóvember kl. 10.00 á harpa.is eða í miðasölu Hörpu.

Sjá nánar

Fréttir