Styrkir

Harpa er heimavöllur íslenskrar tónlistar og heimssvið fyrir alþjóðlega strauma.

Harpa er tónlistarhús á heimsmælikvarða, aðalsmerki íslenskrar menningar og opin fyrir allar tegundir tónlistar.

Ýlir, tónlistarsjóður Hörpu fyrir ungt fólk og SUT, Styrktarsjóður Samtaka um tónlistarhús og Ruthar Hermanns veita styrki til tónleikahalds í Hörpu.

Flestallir viðburðir í Hörpu eru haldnir af þriðja aðila eða viðburðahaldara þar sem Harpa er leigusali. Harpa getur því ekki styrkt einstaklinga eða félagasamtök með miðum á viðburði.

Allar fyrirspurnir varðandi styrkveitingar skulu sendast á harpa@harpa.is.

Upprásin

Tónleikaröðin Upprásin fer fram í Kaldalóni eitt þriðjudagskvöld í mánuði veturinn 2023-2024. Tónleikaröðin er liður í því að framfylgja dagskrárstefnu Hörpu um bætt aðgengi grasrótar og ungs fólks í öllum tónlistargreinum og auka við fjölbreytni. Markmiðið er einnig að tónlistaráhugafólk geti gengið að því vísu að heyra fjölbreytta nýja íslenska tónlist, beint úr grasrót tónlistarlífsins, flutta við kjöraðstæður í tónlistarhúsi þjóðarinnar.

Sígildir sunnudagar

Á Sígildum sunnudögum gefst áheyrendum kostur á fyrsta flokks kammertónleikum reglulega yfir veturinn í Hörpu. Skipulag er í höndum tónlistarhópanna sjálfra en Harpa veitir röðinni stuðning með afslætti á salarleigu, kynningu og aðstoð við markaðssetningu. Öllum er frjálst að sækja um og er reynt eftir fremsta megni að koma sem flestum að.

Ýlir tónlistarsjóður Hörpu

Ýlir – Tónlistarsjóður Hörpu fyrir ungt fólk hefur það að markmiði að styðja ungt tónlistarfólk og veita því tækifæri til að koma fram í Hörpu. Sjóðurinn styður við verkefni af ólíkum toga og vill þannig ýta undir fjölbreytt tónlistarlíf í húsinu.

Styrktarsjóður Samtaka um tónlistarhús og Ruthar Hermanns

Tilgangur sjóðsins er að stuðla að eflingu íslensks tónlistarlífs með því að veita tónlistarfólki styrki til tónleikahalds í Hörpu. Sérstök áhersla er lögð á að styrkja ungt og framúrskarandi tónlistarfólk.