Hönn­unin

Ólafur Elíasson

Ólafur Eliasson er fæddur árið 1967 í Kaupmannahöfn. Ólafur er heimsþekktur listamaður og hefur haldið fjölmargar sýningar víða um heim, bæði einn og í samstarfi við aðra. Hann býr í Kaupmannahöfn og Berlín. Ólafur Elíasson stundaði nám við Konunglega danska listaháskólann. Hann var fulltrúi Dana á 50. Feneyjatvíæringnum árið 2003 og setti síðar sama ár upp veðraverkefnið The weather project í Túrbínusalnum í Tate Modern listasafninu í Lundúnum. Könnunarsýningin Take your time: Olafur Eliasson, sem skipulögð var af Nútímalistasafni San Francisco-borgar fór víða fram til ársins 2010. „Þegar ég hannaði glerhjúp Hörpu með arkitektunum reyndi ég að búa til flöt sem myndi bæði bera vott um og verða hluti af íslensku umhverfi. Ég er stoltur af þátttöku minni í verkefninu og hef trú á því að Harpa muni marka leiðina að bjartari framtíð fyrir landið,“ sagði Ólafur Elíasson.

Henning Larsen

Henning Larsen Arkitektar móta, gagnrýna og breyta umhverfinu, allt frá svæðisskipulagi til byggingarhönnunar og húsgagnahönnunar, sem tryggir notandanum sjálfbæra, áhugaverða og endingargóða hönnun. Henning Larsen Arkitektar leggja mikla áherslu á sjálfbærni. Það á við um form, efni og framleiðslu. Auk þess leggja þeir mikið upp úr notagildi rýma sem eru ætluð fyrir mannamót. Þessi nálgun er grundvallaratriði í fjölda verkefna Henning Larsen Arkitekta um allan heim, hvort sem um er að ræða flókið svæðisskipulag eða smíði tilkomumikilla kennileita. Hugmyndir Henning Larsen Arkitekta spretta upp úr samtali við samstarfsaðila, viðskiptavini og notendur. Þannig tryggir starfsfólkið að byggingarnar verði nothæfar til framtíðar, sem er grundvöllur fyrir löngum líftíma. henninglarsen.com

Batteríið Arkitektar

Batteríið Arkitektar var stofnað 1988 af Jóni Ólafi Ólafssyni og Sigurði Einarssyni og er ráðgjafafyrirtæki með reynslu af hönnun og skipulagi ýmiss konar bygginga. Batteríið hefur komið að margs kyns hönnunarverkefnum. Þar má nefna borgarskipulag, opinberar byggingar, menningar-, skrifstofu- og iðnaðarbyggingar, íþróttamannvirki, pósthús, banka, hótel, skóla, leikskóla, hitaveitu, auk íbúðarhúsnæðis, að ógleymdu skipulagi minni svæða, innanhúshönnun og endurbyggingu eða viðgerðum á sögufrægum húsum. Batteríið er nú með stærstu arkitektastofum landsins. arkitekt.is

Artec Consultants

Hljómburðahönnuðir Hörpu eru Artec Consultants, staðsettir í New York. Artec Cunsultants, sem nú heitir Arup Inc., hefur átt þátt í hönnun margra bygginga sem nú teljast til mikilfenglegustu kennileita heims. Meðal þeirra má nefna menningar- og ráðstefnumiðstöðina í Lucerne í Sviss, Béla Bartók þjóðartónleikahúsið í Búdapest í Ungverjalandi, tónlistarhúsið í Lahti í Finnlandi, Sala São Paulo í São Paulo í Brasilíu og djasstónleikasal Lincoln-miðstöðvarinnar í New York.

Íslenskir aðalverktakar

Íslenskir aðalverktakar, sem sáu um byggingu Hörpu, hafa gefið út bókina Við byggðum Hörpu. Markmiðið með bókinni er að halda til haga byggingarsögu tónlistar- og ráðstefnuhússins og er hún tileinkuð öllum þeim þúsundum sem komu að byggingu hússins.