Fjöl­skyldu­dag­skrá

Barna- og fjölskyldumenning blómstraði á árinu. Haldnir voru á fjórða tug barnaviðburða í Fjölskyldudagskrá Hörpu.

Harpa leggur ríka áherslu á fjölskyldumenningu sem er liður í stefnumótun Hörpu um hvernig húsið sinnir sem best menningarlegu og samfélagslegu hlutverki sínu. Mikið er lagt upp úr vandaðri fjölskyldudagskrá sem er aðgengileg öllum börnum óháð fjárhag, uppruna, tungumáli eða heimili, þeim að kostnaðarlausu.

Barnamenning og fjölskyldudagskrá í Hörpu blómstraði á árinu 2023 í kjölfar viðburðaríks árs þar á undan þegar barnarými Hörpu, Hljóðhimnar var opnað og aukinn kraftur settur í dagskrárgerð fyrir fjölskyldur. Boðið var upp á fjölbreytta viðburði í hverjum mánuði; tónlist, dans, smiðjur, leiðsagnir og fræðslu af ýmsu tagi. 

Á vormánuðum veitti Barnamenningarsjóður Hörpu styrk fyrir aukinni inngildingu og aðgengi í fjölskyldudagskrá starfsársins 2023-2024. Fyrstu skref höfðu þá þegar verið tekin með fjölbreyttari hóp leiðbeinenda í fjölskyldudagskrá og leiðsögnum um húsið fyrir börn á fleiri tungumálum en íslensku en í maí var skoðunarferð og sögustund með Maxímús á íslensku og íslensku táknmáli. Um haustið var boðið upp á skoðunarferðir og sögustundir á pólsku og ensku.

Í Fjölskyldudagskrá Hörpu voru haldnir 38 viðburðir, boðið var í átta leikskólaheimsóknir, fimm viðburðir voru í samstarfi við Big Bang Festival og Barnamenningarhátíð í Reykjavík og 24 barnaviðburðir í hátíðardagskrá Hörpu á Menningarnótt.  Boðið var í átta leikskólaheimsóknir á aðventunni.

Ákveðnir barnaviðburðir voru unnir í samstarfi við hin ýmsu hagsmunasamtök og einstaklinga; Blindrafélagið, Félag heyrnarlausra, List án landamæra, Rauða krossinn og REC arts Reykjavik.

Leiðbeinendur í fjölskyldudagskrá Hörpu hafa aldrei verið jafn margir, eða með jafn fjölbreyttan bakgrunn og styrkleika. Það er mikilvægt fyrir börn að kynnast ólíkum fyrirmyndum og er Harpa afar stolt af þessum hópi.

Hljóðhimnar 1 árs

Hljóðhimnar eru upplifunarrými fyrir börn og fjölskyldur þeirra, staður til að uppgötva töfraheim hljóðs og tóna. Eins árs afmælishátíð Hljóðhimna var haldin í mars og gátu afmælisgestir föndrað sér kórónur í tilefni dagsins með ÞYKJÓ og farið í tónlistarleiki og Klapp klapp stapp stapp smiðju með tónlistarteyminu Sigga og Ingibjörgu. Í Hljóðhimnum er hægt að setja sig í stellingar hljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands, hjúfra sig upp að vögguvísum og sönglögum Íslensku Óperunnar, kíkja inn í músaholur eins og Maxímús Músíkús, sigla um tónlistarinnar höf með Tónstýri Stórsveitar Reykjavíkur og margt fleira.

Sögur, tákn og tónar

Nýr viðburður, Sögur, tákn og tónar var unninn í samstarfi við Félag heyrnarlausra. Sögustund í táknum og tónum var leidd af Kolbrúnu Völkudóttur sem flutti VV sögur (táknmálsbókmenntir) og Sævari Helga og Andrési Þór sem fluttu tónlist við sögurnar. Þessi stund var afar vel heppnuð og sérstaklega vel sótt af gestum úr döff samfélaginu, sem og heyrandi.

Hvaðan kemur tónlistin?

Er einn af viðburðum fjölbreyttarar fjölskyldudagskrár Hörpu. Hvaðan kemur tónlistin? er hlustunarratleikur leiddur af Má Gunnarssyni tónlistarmanni og unninn í samstarfi við Blindrafélagið. Þátttakendur láta hlustun leiða sig áfram í ratleik um húsið þar sem tónlistarfólk felur sig á ýmsum stöðum og leikur á hljóðfæri.

Gullplatan - sendum tónlist út í geim!

Uppskeruhátíð samstarfsverkefnisins Gullplatan – sendum tónlist út í geim! var hluti af stórglæsilegri dagskrá Big Bang hátíðarinnar, evrópsk tónlistarhátíð fyrir ungt fólk sem haldin var í annað sinn á sumardaginn fyrsta. Gullplötuverkefnið var samstarf Hörpu við hönnunarteymi Hljóðhimna, ÞYKJÓ, ásamt Vísindasmiðjunni, Space Iceland og hópi sjálfstætt starfandi lista- og vísindafólks. Á hátíðinni flutti hópur 120 grunnskólabarna nýtt lag sem samið var fyrir geimverur, Sendum tónlist út í geim! sem var sent síðar sama dag upp í himinhvolfið með veðurblöðru frá bryggjunni fyrir aftan Hörpu. Gestir Big Bang hátíðarinnar gátu fræðst meira um verkefnið í Hljóðleiðsögn barnanna í Vísu og Stemmu og á sérstökum geimbás hjá Space Iceland. Verkefnið hlaut tilnefningu til alþjóðlegu YAM awards (The Young Audiences Music Awards) í flokknum Besta þátttökuverkefnið fyrir ungmenni árið 2023.

Mín Harpa ljósmyndasamkeppni

Mín Harpa, ljósmyndasamkeppni fyrir unga ljósmyndara, var haldin sumarið 2023. Þar gafst ungum áhugaljósmyndurum tækifæri til að mynda Hörpu, umhverfið, viðburði og mannlífið í húsinu með sínum eigin hætti. Dómnefnd valdi tvær ljósmyndir af þeim 88 sem sendar voru inn í samkeppnina og veitti Canon á Íslandi sigurvegurum glæsileg verðlaun. Gestir Hörpu gátu síðan valið sína uppáhalds mynd af sýningunni og hlutu tvær sérstök Menningarnæturverðlaun í boði Pixel prentþjónusta.

Verðlaunaafhending Mín Harpa

Afmælishátið Hljóðhimna

Jólaball Hörpu

Krílatónar - fyrir yngstu börnin

Skoðunarferð á pólsku

Trommuhringur Dans Afríka Ísland

Menningarnótt

Trommað á múrbala

Hljóðhimnar