26. apríl 2024

Harpa fyrir samfé­lagið

Ársuppgjör 2023 kynnt á aðalfundi félagsins

Gróska í viðburðarhaldi og stöðugleiki í rekstri einkenndu starfsemina í Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúsi ohf. sem hefur gefið út samstæðureikning sinn fyrir rekstrarárið 2023. Haldnir voru tæplega 1400 viðburðir í Hörpu á síðasta ári og er það um 10% vöxtur á milli ára. Heimsóknir voru 1,2 milljónir og er Harpa einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna í Reykjavík.

Á aðalfundi félagsins sem haldinn var í dag þann 24. apríl var Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir rekstrarráðgjafi endurkjörin formaður stjórnar sem var öll endurkjörin. Í stjórn Hörpu sitja auk Ingibjargar, Árni Geir Pálsson rekstrarráðgjafi, Gunnar Sturluson hæstaréttarlögmaður, Hrönn Greipsdóttir framkvæmdastjóri og Jón Þ. Sigurgeirsson efnahagsráðgjafi. Varamenn eru Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir og Emilía Ottesen.

Lykiltölur rekstrar

Rekstrarniðurstaða ársins varð umtalsvert betri en áætlun gerði ráð fyrir og eiginfjárhlutfall helst stöðugt. Rekstrartekjur samstæðunnar jukust um 4,4% og námu 1.663 m.kr. Rekstrarframlög eigenda, íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar - lækkuðu um 16,8% á milli ára eða 127,6 m.kr. Heildartekjur með framlögum eigenda námu samtals 2.293 m.kr. Rekstrargjöld hækkuðu um 5,5% sem verður að teljast viðunandi árangur í ljósi verðbólgu.

Rekstrarhagnaður árið 2023 (EBITDA) var 197,6 m.kr. og afkoma ársins að teknu tilliti til tekjuskatts, afskrifta og fjármagnsliða batnaði um tæp 44% en bókfært tap nam 65,5 m.kr. Eigið fé samstæðunnar nam 10.771 m.kr. í árslok 2023 og er eiginfjárhlutfallið 30%.

Harpa fyrir samfélagið

Samfélagsábyrgð Hörpu felst í því að stýra með ábyrgum hætti tónlistar- og ráðstefnuhúsi sem er í eigu þjóðarinnar. Samfélags- og menningarleg áhrif Hörpu eru vel sýnileg en efnahagslegu áhrifin eru óáþreifanlegri. Til að mynda koma tekjur af umfangsmiklu viðburðahaldi aðeins að litlum hluta fram í ársreikningi félagsins enda miðasöluviðburðir nærfellt allir á vegum annarra en Hörpu. Heildarvelta miðasölu vegna viðburða ársins 2023 í Hörpu nam um 1.256 m.kr. og þegar veltan í veitingaþjónustu og verslun í Hörpu er einnig talin fer nærri að innanhússhagkerfið losi um 5 milljarða.

Efnahagslegt fótspor og afleiddar tekjur starfseminnar hafa enn ekki verið kortlagðar með markvissum hætti en gjaldeyristekjur af alþjóðlegu viðburðahaldi eru til að mynda verulegar þótt veltan sem sýnileg er í bókum Hörpu nemi að öllu jöfnu aðeins um 10 – 15% af heildarverðmætunum.

Harpa leggur kapp á það að auka sjálfbærni á öllum sviðum starfseminnar og kynnti ítarlega árs- og sjálfbærniskýrslu á aðalfundinum. Sjálfbærnistefna Hörpu tekur mið af UFS sjálfbærnimælikvörðum og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Harpa er Svansvottað ráðstefnuhús og uppfyllir kröfurnar sem felast í Grænum skrefum Umhverfisstofnunar.

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, endurkjörin formaður stjórnar Hörpu

,,Starfsemin í Hörpu er fjölbreytt og skyldurnar margar. Stóru verkefnin og okkar helsta áhersla er samfélagsleg verðmætasköpun þó auðvitað ætlum við alltaf að standa fyrir ábyrgð í rekstri. Á síðasta rekstrarári náði öflugur hópur í Hörpu frábærum árangri á báðum sviðum, viðburðir hússins tala sínu máli og rekstrarniðurstaðan er í raun eins góð og hún getur orðið miðað í þeirri rekstrarumgjörð sem húsinu er búin. Allt hvílir þetta á því að við eigum stórhuga og metnaðarfullt stjórnmálafólk sem hefur hugrekki til að standa með menningu og uppbyggingu á þessu sviði, líka á erfiðum tímum. Við það búum við enda er samtalið við eigendur traust og gott“

Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu

„Rauður þráður í starfsemi Hörpu er að fara vel með auðlindir og umhverfi og rækja okkar menningarlega hlutverk af heilindum. Það er ánægjulegt að gefa út annað árið í röð árs- og sjálfbærniskýrslu Hörpu sem endurspeglar ríka áherslu félagsins á samfélagsábyrgð og sköpun verðmæta fyrir eigendur okkar sem eru allir landsmenn. Markmið okkar er að húsið sé framúrskarandi vettvangur fyrir fjölbreytta viðburði sem njóta kosta Hörpu sem heimssvið og heimavöllur. Meðal fjölmargra viðburða síðasta árs sem teljast til sérstakra tíðinda má nefna tónleika fiðlustjörnunnar Anne-Sophie Mutter og The Mutter Virtuosi á vegum Hörpustrengja og leiðtogafund Evrópuráðsins sem hvor um sig undirstrikaði mikilvægi húss eins og Hörpu fyrir menningarlíf og virka þátttöku Íslands í samfélagi þjóðanna.“

Nánari upplýsingar veitir Svanhildur Konráðsdóttir í síma 6939363 eða svanhildur@harpa.is.

type: entry-hyperlink id: 3ywjR5tBGQTxvEpAeagmqO

Fréttir