tónlist, klassík

Víkingur leikur Goldberg-tilbrigðin
Verð
6.990 - 12.990 kr
Næsti viðburður
miðvikudagur 14. febrúar - 20:00
Salur
Eldborg
Tónleikar Víkings Heiðars Ólafssonar með Goldberg-tilbrigðum Johanns Sebastians Bachs í Eldborg 14. febrúar 2024 eru einstakur viðburður í tónlistarlífinu sem beðið hefur verið með mikilli eftirvæntingu. Tónleikarnir, sem haldnir verða á fertugsafmælisdegi Víkings, eru meðal hápunktanna á miklu tónleikaferðalagi þar sem hann flytur Goldberg-tilbrigðin alls 88 sinnum í mörgum af glæsilegustu tónleikahúsum heims til að fylgja eftir útgáfu sinni á vegum þýska útgáfufyrirtækisins Deutsche Grammophon.
Goldberg-tilbrigðin eftir Johann Sebastian Bach eru eitt stórbrotnasta hljómborðsverk tónlistarsögunnar. Verkið er í formi 30 afar fjölbreyttra tilbrigða við hljómagang þýðrar og fallegrar aríu sem hljómar bæði í upphafi verksins og enda. Úr verður stórbrotið tónlistarlegt ferðalag þar sem fullkomin fágun í byggingu mætir tilfinningalegum krafti, heimspekilegri dýpt og ótrúlegri fingrafimi. Verkið tekur um 75 mínútur í flutningi og er leikið án hlés.
Víkingur Heiðar Ólafsson hefur fyrir löngu skipað sér í flokk fremstu píanista heims og hefur á síðustu árum haft mikil áhrif á tónlistarheiminn, ekki síst í gegnum túlkun sína á verkum Bachs, en árið 2018 gaf Deutsche Grammophon út plötu hans sem helguð var verkum þýska barokkmeistarans. Hlaut hún einróma lof gagnrýnenda og var meðal annars valin plata ársins hjá breska tónlistartímaritinu BBC Music Magazine. Í kjölfarið var Víkingur útnefndur listamaður ársins hjá öðru breska tónlistartímariti, Gramophone Magazine auk þess að hljóta þýsku tónlistarverðlaunin Opus Klassik sem hljóðfæraleikari ársins.
„Einn frumlegasti tónlistarhugsuður samtímans“ - Gramophone
„Hljómborðstónlist Johanns Sebastians Bachs hefur sjaldan hljómað svona fersk, tjáningarrík og full af gleði“ - Sunday Times
„Víkingur Ólafsson færir Bach-flutning á nýtt og ótrúlegt stig.“ - BBC Music Magazine
“Innblásinn flutningur Víkings Ólafssonar færir okkur Bach sem býr yfir meiri mennsku en nokkuð sem við höfum lengi fengið að heyra“. - Süddeutsche Zeitung
Viðburðahaldari
Víkingur Heiðar Ólafsson
Miðaverð er sem hér segir:
A
11.990 kr.
B
10.990 kr.
C
8.990 kr.
D
6.990 kr.
X
12.990 kr.
Dagskrá
Eldborg
Eldborg er stærsti salur Hörpu þar sem öll hönnun og útfærsla skapar glæsilega umgjörð. Salurinn tekur allt að 1600 manns í sæti. Í Hörpuhorni, við glerhjúpinn á annarri hæð, er unnt að vera með standandi kaffiveitingar eða móttökur tengdar Eldborg.

Hápunktar í Hörpu