Ýlir tónlist­ar­sjóður Hörpu

Ýlir – Tónlistarsjóður Hörpu fyrir ungt fólk hefur það að markmiði að styðja ungt tónlistarfólk og veita því tækifæri til að koma fram í Hörpu. Sjóðurinn styður við verkefni af ólíkum toga og vill þannig ýta undir fjölbreytt tónlistarlíf í húsinu.

Tónlistarsjóður Hörpu fyrir ungt fólk, sem síðar fékk nafnið Ýlir, var stofnaður í lok árs 2010 þegar Menningarsjóði SPRON var slitið með úthlutun til ýmissa mennta-, menningar- og góðgerðarmála. Alls var 80 milljónum króna varið til stofnunar þessa tónlistarsjóðs sem ætlaður er til þess að veita ungu og efnilegu tónlistarfólki tækifæri á að koma fram í hinu nýja tónlistarhúsi, Hörpunni, um ókomin ár. Umsækjendur geta verið einstaklingar, hljómsveitir, hópar eða félagasamtök. Úthlutunarreglur og umsóknareyðublað má finna á heimasíðu Ýlis.