Tónlist, Sígild og samtímatónlist

Kammer­sveit Reykja­víkur á Sígildum sunnu­dögum: England x3

Kaupa miða
Kaupa miða
Kaupa miða
Kaupa miða
Kaupa miða
Kaupa miða
Kaupa miða
Kaupa miða
Kaupa miða
Kaupa miða
Kaupa miða
Kaupa miða
Kaupa miða

Verð

2.000 - 3.500 kr

Næsti viðburður

sunnudagur 14. maí - 16:00

Salur

Norðurljós

Á síðustu tónleikum starfsársins leikur Kammersveit Reykjavíkur þrjú verk frá Englandi. Klarinettkonsert eftir Gerald Finzi, Serenöðu fyrir tenór, horn og strengi eftir Benjamin Britten og Chaconne í g moll eftir Purcell í útsetningu Brittens. Auk þriggja einleikara er strengjahljómsveitin í aðalhlutverki á þessum tónleikum.

Stjórnandi á tónleikunum er Mirian Khukhunaishvili.

Efnisskrá:

Henry Purcell/Benjamin Britten: Chaconne í g moll
Gerald Finzi: Konsert fyrir klarinett og strengi op. 31
Benjamin Britten: Serenaða fyrir tenór, horn og strengi op. 31

Klarinett: Rúnar Óskarsson
Einsöngvari: Stuart Skelton
Horn: Frank Hammarin
Stjórnandi: Mirian Khukhunaishvili

Benjamin Britten (1913-1976) var aðdáandi Henry Purcell (1659-1695) og gerði bæði útsetningar af verkum hans, stóð fyrir flutningi þeirra og notaði stef úr verkum hans í sín eigin. Purcell samdi Chaconne í g moll fyrir fjögur strengjahljóðfæri líklega í kringum árið 1680, en útgafa Britten var gerð árið 1948 og felst helst í því að bæta við styrkleikabreytingum auk þess sem við fáum að heyra hana fyrir fullskipaða strengjasveit.

Klarinettkonsert eftir Gerald Finzi (1901-1956) er eitt af hans frægustu verkum og er mikið flutt um allan heim þó ekki hafi það mikið verið flutt á Íslandi. Konsertinn var frumfluttur í London árið 1949 þar sem tónskáldið hélt um tónsprotann og einn fremsti klarinettleikari Breta, Frederick Thurston, lék einleikshlutann. Verkið er í þremur þáttum og leyfir Finzi klarinettinu að blómstra í dásamlegum laglínum, mörgum þjóðlagaskotnum, alltaf stutt af hugmyndaríkri hljómsveitarútsetningu þar sem ást hans á bæði klarinettinu og strengjasveitinni skín í gegn. Í verkinu má heyra margs konar stemningar, allt frá ljóðrænum köflum yfir í einhverskonar andlega íhugun og þaðan yfir í sprúðlandi gleði.

Serenaða fyrir tenor, horn og strengi eftir Benjamin Britten var samin árið 1943. Britten hafði farið til Bandaríkjanna árið 1939 en flutti aftur til Englands árið 1942, í miðri seinni heimsstyrjöldinni. Stærsta verk Brittens frá þessum tíma er vitanlega óperan Peter Grimes, en af öðrum verkum hans frá þessum tíma þykir Serenaðan vera það mikilvægasta. Verkið er samið við sex ljóð eftir bresk ljóðskáld þar sem viðfangsefnið er nóttin, allt frá heillandi róseminni yfir í skuggalegri hliðar. Verkið hefst og endar á einleikshorni - nokkurs konar formála og eftirmála - þar sem tónskáldið nýtir sér náttúrulega yfirtóna hornsins, sem í eyrum okkar sem vön erum vestrænum dúr- og molltónstigum gætu hljómað hreinlega sem falskir.

Stuart Skelton er einn af þekktustu hetjutenórum samtímans og hefur komið fram í stærstu óperuhúsum heims. Á meðal hlutverka hans eru meðal annars Siegmund (Valkyrjan), Otello (Otello), Parsifal (Parsifal), Lohengrin (Lohengrin), Peter Grimes (Peter Grimes) og Tristan (Tristan og Isolde) í Metropolitan-óperunni, Konunglega óperuhúsinu í Covent Garden, Þjóðaróperunni í Vín, óperuhúsunum í París og Berlín, Fílharmóníusveitunum í Berlín og London, Sinfóníuhljómsveitunum í London (LSO), Chicago, Dallas, St. Louis, San Fransisco, Cincinnati, Sydney, Melbourne og West Australia svo fátt sé nefnt. Hann hefur tekið upp Valkyrjuna 5 sinnum, Das Lied von der Erde með fjórum mismunandi hljómsveitum og nýlega kom út Tristan og Isolde með West Australia Symphony en hann tók einnig upp sóló plötu sína Shining Knight með hljómsveitinni árið 2018. Nýjasta platan sem Stuart kemur fram á er Peter Grimes í titilhlutverki óperunnar með Bergen fílharmóníunni ásamt Edward Gardner.

Frank Hammarin, frá Kaliforníu, er með bakkalárgráðu frá DePaul University í Chicago þar sem hann lærði undir Jon Boen, Oto Carrillo og Jim Smelser. Árið 2015 hlaut hann meistaragráðu frá The Peabody Institute í Baltimore. Kennari hans þar var Denise Tryon.
Frank er fastráðinn hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur spilað með hljómsveitinni síðan 2016. Samhliða starfinu hefur hann starfað sem kennari sem og spilað kammertónlist á alþjóðlegum vettvangi. Frank ver frístundum sínum í sundlaug vesturbæjar og í eldhúsinu heima.

Rúnar Óskarsson lauk kennara- og einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1993 þar sem hann naut handleiðslu Sigurðar I. Snorrasonar. Hann stundaði framhaldsnám hjá George Pieterson við Sweelinck tónlistarháskólann og lauk prófi frá skólanum1996. Samhliða klarínettunáminu nam hann bassaklarínettuleik hjá Harry Sparnaay og lauk einleikarprófi á bassaklarínettu vorið 1998. Rúnar sótti og tíma hjá Walter Boeykens í Rotterdam. Hann er fastráðinn klarínettu- og bassaklarínettuleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands, en auk þess hefur hann leikið með ýmsum hópum, Kammersveit Reykjavíkur, Caput, hljómsveit Íslensku óperunnar og í Þjóðleikhúsinu og komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kammersveit Reykjavíkur. Rúnar hefur einnig gefið út geisladiska og leikið á fjölmörgun einleiks- og kammertónleikum. Hann kennir við Tónlistarskóla Kópavogs og er stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar.

Kammersveit Reykjavíkur var stofnuð árið 1974 af Rut Ingólfsdóttur og félögum. Markmiðið með stofnun hennar var að gefa áheyrendum kost á reglulegum tónleikum með kammertónlist, allt frá barokktímanum til nútímans, og um leið að gefa hljóðfæraleikurunum tækifæri til að glíma við áhugaverð verkefni. Kammersveitin hefur átt fastan sess í tónlistarlífi höfuðborgarinnar síðan. Árvissir Jólatónleikar Kammersveitarinnar sem helgaðir eru tónlist barokktímans eru í margra huga ómissandi þáttur í aðdraganda jóla. Kammersveitin hefur unnið náið með íslenskum tónskáldum, frumflutt fjölda nýrra íslenskra verka og gefið út fjölda geisladiska.

Viðburðahaldari

Kammersveit Reykjavíkur

Miðaverð er sem hér segir:

A

3.500 kr.

Norðurljós

Þessi einstaki og fallegi salur á annarri hæð Hörpu hentar vel fyrir tónleika, ráðstefnur, sýningar, árshátíðir og hvers kyns mannamót.