Ekkert fannst
Stórsveit Reykjavíkur hefur alla tíð leitast við að hafa verkefnaval sitt fjölbreytt. Auk nýrrar tónlistar, bæði innlendrar og erlendrar, hefur hljómsveitin flutt sögulegar efnisskrár tengdar einstökum höfundum og hljómsveitum. Hún hefur einnig átt mikið og farsælt samstarf við fjölmarga íslenska söngvara úr heimi popptónlistarinnar.
Stórsveit Reykjavíkur var stofnuð í febrúar árið 1992 og á sér því langa og farsæla sögu. Aðal hvatamaður að stofnun hljómsveitarinnar var Sæbjörn Jónsson og var hann jafnframt aðalstjórnandi Stórsveitarinnar fram til árins 2000. Síðan þá hefur sveitin starfað án fasts aðalstjórnanda en fengið til liðs við sig fjölmarga innlenda og erlenda stjórnendur. Þeirra á meðal eru mörg af þekktustu nöfnum heimsins á þessu sviði, m.a. Maria Schneider, Frank Foster, Bob Mintzer og Bill Holman.
Ýmsir norrænir gestir hafa einnig komið við sögu sveitarinnar. Þeirra á meðal eru Ole Koch-Hansen, Jens Winther og Eero Koivistoinen.
Stórsveit Reykjavíkur hefur fengið afbragðs dóma gagnrýnenda fyrir leik sinn. Sveitin hlaut Íslensku Tónlistarverðlaunin 2005 sem jazzflytjandi ársins og 2011 fyrir jazzplötu ársins. Stórsveitin hefur sent frá sér fimm geisladiska í eigin nafni, auk þess að koma fram á nokkrum diskum annarra flytjenda, þeirra á meðal Bubba Morthens og Sálarinnar hans Jóns míns.
Stórsveit Reykjavíkur nýtur stuðnings Reykjavíkurborgar og Tónlistarsjóðs.