x checkmark sr arrow-right brouchure calendar check clock close compass conference download easel epal facebook food-and-shopping food fullscreen grid halls harpa-icon harpa sinfo instagram leaf like listi magnify mail menu minify minus move music opera pictures play plus qoute recording search select-alt select shopping simple-arrow-left simple-arrow-right sitemap telephone ticket twitter youtube spotify snapchat linkedin youtube

Íslenska óperan

Raddir Hörpu

Íslenska óperan setur reglulega upp vandaðar og spennandi óperusýningar, þar sem íslenskir listamenn eru í forgrunni en jafnframt er erlendum listamönnum reglulega boðið að taka þátt í uppfærslum hennar.

Íslenska óperan mun halda upp á 40 ára afmæli sitt árið 2018. Hún var stofnuð árið 1978 og var hvatinn að stofnun hennar að íslenskir söngvarar gætu sinnt list sinni og deilt þessu stórbrotna listformi með þjóðinni.

Frá árinu 1982 átti Íslenska óperan samastað í Gamla Bíó en vorið 2011 síðan urðu kaflaskil í sögu hennar  þegar hún flutti inn í Hörpu og varð einn af föstum íbúum hússins. Fyrsta óperuuppfærslan í Hörpu var Töfraflautan eftir W.A. Mozart sem var frumsýnd í október 2011.

Íslenska óperan hefur öðlast mikilvægan sess í menningarlífi þjóðarinnar. Hún hefur áunnið sér mjög gott orðspor bæði innanlands og erlendis fyrir vandaða listviðburði sem standast alþjóðlegan samanburð.

Margir af helstu söngvurum landsins hafa tekið þátt í uppfærslum Íslensku óperunnar og hafa margir þeirra sem stigu sín fyrstu skref á fjölum Íslensku óperunnar síðar orðið þekktir og eftirsóttir söngvarar í hinum alþjóðlega óperuheimi.

Frá því að Íslenska óperan var stofnuð hafa yfir 400.000 manns séð sýningar hennar sem nálgast nú að vera orðnar 90 talsins. Verkefnavalið hefur verið mjög fjölbreytt, allt frá  klassískum óperum til nýrra verka íslenskra samtímatónskálda.

Starfsár Óperunnar er frá september fram í júní og frumsýnir hún í það minnsta 2 nýjar uppfærslur á hverju starfsári auk samstarfverkefna og tónleikahalds.

Kúnstpásan eru hádegistónleikar sem haldnir eru mánaðarlega án endurgjalds. Þar koma fram margir af ástsælustu söngvurum þjóðarinnar ásamt þeim yngri sem eru að kynna sig til leiks á óperusviðinu.

Sýningar Óperunnar og flytjendur þeirra hafa hlotið mörg verðlaun og viðurkenningar og má þar nefna óperuna Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson sem var valin sýning ársins árið 2014 og hlaut 10 tilnefningar alls. Nýverið hlaut uppfærsla Óperunnar á Évgeny Onegin eftir Tchaikovsky 5 stjörnu dóma bæði hér heima og í virtum erlendum fagtímaritum s.s. Opera now.


Eftirfarandi uppfærslur hafa verið sýndar eftir að Íslenska óperan flutti í Hörpu:

Töfraflautan eftir Mozart

La Boheme eftir Puccini

Il trovatore eftir Verdi

Carmen eftir Bizet

Ragnheiður eftir Gunnar Þórðarsson

Don Carlo eftir Verdi

Peter Grimes eftir Britten

Rakarinn frá Sevilla eftir Rossini

Don Giovanni eftir Mozart

Évgení Onegin eftir Tchaikovsky

Mannsröddin eftir Poulenc


Næstu uppfærslur:

Tosca eftir Puccini frumsýnd 21.10. 2017

 

Nánari upplýsingar um Íslensku óperuna er að finna á www.opera.is