x checkmark arrow-right brouchure calendar check clock close compass conference download easel epal facebook food-and-shopping food fullscreen grid halls harpa-icon harpa sinfo instagram leaf like listi magnify mail menu minify minus move music opera pictures play plus qoute recording search select-alt select shopping simple-arrow-left simple-arrow-right sitemap telephone ticket twitter youtube spotify

Íslenska óperan

Raddir Hörpu

Íslenska óperan setur reglulega upp spennandi óperusýningar, þar sem íslenskt tónlistar- og leikhúsfólk er í forgrunni. Meðal sýninga undanfarinna missera má nefna Ragnheiði vorið 2014, Carmen haustið 2013, Il Trovatore haustið 2012, La Bohéme vorið 2012, Töfraflautuna – fyrstu óperusýninguna í Hörpu — árið 2011, Rigoletto árið 2010, Ástardrykkinn árið 2009 og La traviata árið 2008.

Óperan Ragnheiður er nýjasta uppfærsla íslensku óperunnar sem frumsýnd var vorið 2014. Óperan Ragnheiður er fyrsta íslenska óperan sem sett hefur verið upp af íslensku óperunni og sló hún rækilega í gegn. Ragnheiður var sigurvegari Grímunnar – íslensku sviðslistaverðlaunanna. Um sjötíu verk komu til greina til Grímuverðlauna, en Ragnheiður fékk 10 tilnefningar. Var sýningin valin sýning ársins auk þess sem Gunnar Þórðarson var verðlaunaður fyrir tónlist ársins og Elmar Gilbertsson sem söngvari ársins. Aukasýningar á Ragnheiði eru fyrirhugaðar í lok árs og hefst miðasalan í haust.
Íslenska óperan var formlega stofnuð undir lok áttunda áratugarins og hafði frá árinu 1982 aðsetur sitt í Gamla bíói við Ingólfsstræti, en flutti á vormánuðum ársins 2011 í tónlistarhúsið Hörpu. Á hinum rúmu þrjátíu árum sem liðin eru frá stofnun hennar hefur hún sett upp meira en 60 óperusýningar, allt frá hinum klassísku óperum Mozarts og Verdis til glænýrra verka íslenskra samtímatónskálda.

Íslenska óperan leggur áherslu á að nýta sér krafta íslenskra listamanna úr tónlistar- og leikhúsheiminum við sviðssetningu sýninga sinna, en erlendir listamenn hafa jafnframt verið reglulegir þátttakendur. Flestir af fremstu söngvurum Íslands hafa tekið þátt í uppfærslum hennar og hafa margir þeirra íslensku söngvara sem stigu sín fyrstu skref í óperuheiminum á fjölum Íslensku óperunnar síðar orðið þekktir og eftirsóttir söngvarar í hinum alþjóðlega óperuheimi.

Nánari upplýsingar um íslensku óperuna er að finna á www.opera.is