x checkmark sr arrow-right brouchure calendar check clock close compass conference download easel epal facebook food-and-shopping food fullscreen grid halls harpa-icon harpa sinfo instagram leaf like listi magnify mail menu minify minus move music opera pictures play plus qoute recording search select-alt select shopping simple-arrow-left simple-arrow-right sitemap telephone ticket twitter youtube spotify snapchat linkedin youtube

Harpa — húsið þitt

Ný vídd í íslensku menningar- og ráðstefnulífi.

Harpa er eitt helsta kennileiti Reykjavíkur og er miðstöð menningar og mannlífs í hjarta miðborgarinnar, þar sem hún stendur tignarleg við hafnarbakkann. Harpa er áfangastaður ferðamanna og margverðlaunað listaverk sem 10 milljónir manna hafa heimsótt frá opnun, 4. maí 2011. Harpa tónlistar- og ráðstefnuhúsið í Reykjavík býður upp á bestu aðstöðu til tónleika- og ráðstefnuhalds í Norður-Evrópu. Harpa hefur hlotið ótal viðurkenninga og verðlauna. Harpa var valið eitt af bestu tónleikahúsum nýs árþúsunds af hinu virta tónlistartímariti Gramophone Magazine og var valið besta viðburðahúsið árið 2011 af Travel&Leisure tímaritinu. Haustið 2012 fékk Harpa MICE verðlaun sem besta ráðstefnuhús í Norður-Evrópu og haustið 2016 fékk Harpa verðlaun sem besta ráðstefnuhús Evrópu af Business Destination tímaritinu.

HarpaConcertHallConferenceCentre_AwardLogo

Öflugt tónlistar- og ráðstefnuhús

Fjölmargir tónleikar hafa verið haldnir í Hörpu frá opnun hússins. Fjölbreytni er í fyrirrúmi í Hörpu og þar eiga allar tónlistarstefnur sér heimili. Ýmsar tónlistarhátíðir eru haldnar reglulega í Hörpu, þar á meðal Iceland Airwaves, Reykjavik Midsummer Music, Myrkir músíkdagar, Listahátíð í Reykjavík, Jazzhátíð Reykjavíkur, Sónar Reykjavík, Tectonics og Harpa International Music Academy. Harpa er heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Íslensku óperunnar og Stórsveitar Reykjavíkur, sem halda árlega fjölmarga tónleika sem eru mjög vel sóttir.

Harpa er öflugt ráðstefnuhús og hefur haslað sér völl á alþjóðlegum markaði. Meðal þeirra alþjóðlegu ráðstefna sem hafa verið haldnar í Hörpu frá opnun eru EUWIN 2011 og EABCT 2012, STS XXVI Congress 2012, You Are in Control, VestNorden, Friðarþingið í Reykjavík, Poptech 2012, Via Nordica 2012, EOS 2013, Pen International 2013, Artic Circle 2013, World Congress of Esperanto 2013, LREC 2014, Eve Online Fanfest 2012, 2013, 2014, 2015 og 2016, ConneXion 2014 og Spirit of Humanity Forum 2014.

Í Hörpu er viðburðahald fjölbreytt enda eru notkunarmöguleikar hússins óteljandi. Veisluþjónustan spilar þar mikilvægt hlutverk. Meðal stórviðburða og sýninga sem hafa farið fram í húsinu eru Læknadagar, UT Messan, Hönnunarmars, Reykjavik Fashion Festival, Reykjavíkurskákmótið 2012-2017, Nike Sneakerball, Food and Fun, Expo skálinn, Villt hreindýr á Íslandi, Pop-up markaður, Jólamatarmarkaður Búrsins, Yoga Soundscape, Hestaat í Hörpu, málverka- og listsýningar, bílafrumsýningar, brúðkaup og aðrar veislur.

Heimsfrægar hljómsveitir, dansflokkar og leikhúshópar hafa sótt Hörpu heim. Berliner Philharmoniker lék í Hörpu undir stjórn Sir Simon Rattle, Gautaborgarsinfónían undir stjórn Gustavo Dudamel, San Francisco Ballettinn dansaði undir stjórn Helga Tómassonar, St. Pétursborgar-ballettinn dansaði Svanavatnið og Shakespeare’s Globe leikhópurinn færði okkur Hamlet. Meðal þeirra alþjóðlegu listamanna sem komið hafa fram í Hörpu eru Kraftwerk, Dionne Warwick, Burt Bacharach, Patti Smith, Cyndi Lauper, Jamie Cullum, Bryan Ferry, Tony Bennett, þýski tenórinn Jonas Kaufmann, píanistarnir Maria Joao Pires og Daniil Trifonov og fiðluleikarinn og stjórnandinn Maxim Vengerov. Meðal þekktra íslenskra tónlistarmanna sem hafa komið fram í Hörpu eru meðal annars Björk, Bubbi, Stuðmenn, Nýdönsk, Of Monsters and Men, Múm, Hjaltalín og Mugison.

Múlinn Jazzklúbbur leikur vikulega í Björtuloftum og Blikktromman prýðir Kaldalón mánaðarlega. Sígildir sunnudagar, úrvals klassískir kammer- og söngtónleikar, hljóma vikulega í Norðurljósum eða Kaldalóni. Harpa veitir árlega Upptaktinn, tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna og Ómkvörnin, uppskeruhátíð ungra tónskálda er haldin tvisvar á ári í Kaldalóni. Tónelska músin Maxímús sést iðulega trítla um húsið.

Harpa hlýtur Mies van der Rohe verðlaunin 2013

Harpa tónlistar- og ráðstefnuhúsið í Reykjavík er hannað af Ólafi Elíassyni, Henning Larsen Architects og Batteríinu Arkitektar. Húsið hefur hlotið ótal verðlaunir fyrir arkitektúr þar á meðal Mies van der Rohe 2013, Besta almenningsrýmið – Arkitekturmassan Awards 2012, World Architecture Award 2010.

mies

Í húsinu eru veitingastaðirnir Bergmál og Kolabrautin auk Veisluþjónustu Hörpu. Verslanirnar Epal og Upplifun eru að finna á jarðhæð hússins. Verslanir Hörpu bjóða saman upp á frábært úrval af hönnun, bókum, blómum og annarri gjafavöru.