sígild og samtímatónlist, sígildir sunnudagar, tónlist

Frönsk rómantík og impressionismi - stefnumót franskra kventónskálda við Ravel og Debussy á Sígildum sunnudögum
Verð
4.400 kr
Næsti viðburður
sunnudagur 25. febrúar - 16:00
Salur
Norðurljós
Þessi efnisskrá með franskri tónlist frá árinu 1867 til 1927 varpar ljósi á mjög mikilvægt umbreytingartímabil í sögu vestrænnar tónlistar sem átti ekki síst rætur sínar að rekja til franska impressionismans. Áhrifin voru djúpstæð og gætir þeirra enn þann dag í dag.
Mikilvægi kventónskálda í tónlistarsögunni er sífellt að koma betur í ljós og á þessum tónleikum er teflt fram tveimur frönskum kventónskáldum, Pauline Viardot og Lili Boulanger, ásamt þeim Ravel og Debussy, tveimur helstu tónskáldum franskrar tónlistar og fulltrúar þeirrar stefnu sem oft er kennd við impressionisma í tónlist.
Claude Debussy (1862-1918): Beau Soir í útsetningu J. Heifetz fyrir fiðlu og píanó
Lili Boulanger (1893-1918) Deux morceaux
Nocturne
Cortége
Maurice Ravel (1875 - 1937): Sonate no 2 pour violon et piano
I. Allegretto
II. Blues. Moderato
III. Perpetuum mobile. Allegro
hlé
Pauline Viardot (1821 - 1910): Six Morceaux
Romance
Bohemienne
Berceuse
Mazourke
Vielle Chanson
Tarantelle
Claude Debussy (1862 - 1918): Sonate pour violon et piano
I. Allegro vivo
II. Intermède: Fantasque et léger
III. Finale: Très animé
Sif Margrét Tulinius fiðluleikari lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1991 undir leiðsögn Guðnýjar Guðmundsdóttur. Hún hlaut Fulbright styrk til frekara náms í Bandaríkjunum og lauk B.A. gráðu með láði frá Oberlin háskóla í Ohio þar sem kennarar hennar voru Almita og Roland Vamos og síðar meistaragráðu frá New York í samstarfsverkefni milli Juilliard tónlistarháskólans og Stony Brook háskólans, þar sem kennarar hennar voru Joyce Robbins og Joel Smirnoff. Á námsárum sínum tók Sif þátt í fjölmörgum virtum tónlistarhátíðum s.s. Aspen Music Festival, Tanglewood Music Festival og Prussia Cove Music Festival.
Að námi loknu fluttist Sif til Evrópu og lék ásamt ýmsum tónlistarhópum á fjölmörgum tónlistarhátíðum víðs vegar um heiminn og má þar nefna New York Symphony Ensemble í NY og Japan, Ensemble Modern í Frankfurt og Münchener Kammerorchester.
Haustið 2000 keppti Sif um stöðu 2. konsertmeistara við Sinfóníuhljómsveit Íslands og var í kjölfarið ráðin til starfa. Hún gegndi því starfi allt til ársins 2016 er hún fluttist til Berlinar þar sem hún bjó um nokkurra ára skeið og lék ásamt fjölmörgum virtum tónlistarhópum og hljómsveitum m.a. Berliner Philharmoniker og Kammerakademie Potsdam.
Sif hefur verið atkvæðamikil í íslensku tónlistarlífi, hún hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, m.a. í flutningi á fiðlukonsertinum Offertorium eftir Sofiu Gubaidulina, Fylgjum Þorkels Sigurbjörnssonar og í flutningi á Partitu eftir Witold Lutoslawski. Hún hefur tekið þátt í flutningi kammertónlistar á öllum helstu kammertónlistarhátíðum landsins. Sif hefur, bæði sjálfstætt og ásamt öðrum, tekið virkan þátt í flutningi nútímatónlistar og frumflutti á tónleikaröðinni Bach og nútíminn sem fram fór á síðastliðnu starfsári þrjú íslensk einleiksverk sem samin voru sérstaklega fyrir hana. Þessi tónverk eru væntanleg til útgáfu á árinu 2023. Hún hefur á undanförnum árum, samhliða tónleikahaldi, gefið sér meiri tíma til kennslu og starfar nú við fiðlukennslu og kammermúsíkleiðsögn við Tónlistarskóla Kópavogs og við Listaháskóla Íslands.
Edda Erlendsdóttir, hefur verið búsett í París í fjölmörg ár þar sem hún hefur kennt og starfað m.a. við Tónlistarháskólann í Lyon og Tónlistarskólann í Versölum. Hún starfar nú sem gestakennari við Listaháskóla Íslands. Ásamt kennslu hefur Edda hefur haldið fölmarga tónleika og tekið þátt í tónlistarhátíðum í flestum löndum Evrópu, í Bandaríkjunum og í Kína.
Edda tekur ríkan þátt í tónlistarlífinu á Íslandi m.a. á Listahátíð í Reykjavík, hjá Kammermúsikklúbbnum, í Tíbrá Salnum og á Myrkum músikdögum.
Edda hefur verið virkur þátttakandi í kammertónlist. Hún átti frumkvæði að árlegum kammertónleikum á Kirkjubæjarklaustri og var listrænn stjórnandi í 15 ár. Hún er einnig meðlimur í kammerhópnum Le Grand Tango sem undir stjórn Oliviers Manoury bandoneonleikara hefur sérhæft sig í flutningi á argentískum tangó.
Hún hefur gefið út diska með píanóverkum eftir C.P.E.Bach, Grieg, Haydn, Tchaikovksky, Schubert, Liszt, Schönberg og Berg sem hlotið hafa viðurkenningu og lof. Diskur hennar með 4 píanókonsertum eftir Haydn með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Kurt Kopecky hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin.
Edda Erlendsdóttir var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til tónlistar árið 2010.
Viðburðahaldari
Sif Margrét Tulinius
Miðaverð er sem hér segir:
A
4.400 kr.
Dagskrá
Norðurljós
Þessi einstaki og fallegi salur á annarri hæð Hörpu hentar vel fyrir tónleika, ráðstefnur, sýningar, árshátíðir og hvers kyns mannamót.

Hápunktar í Hörpu