x checkmark sr arrow-right brouchure calendar check clock close compass conference download easel epal facebook food-and-shopping food fullscreen grid halls harpa-icon harpa sinfo instagram leaf like listi magnify mail menu minify minus move music opera pictures play plus qoute recording search select-alt select shopping simple-arrow-left simple-arrow-right sitemap telephone ticket twitter youtube spotify snapchat linkedin youtube

Reykjavík valin besta ráðstefnu og hvataferðaborg Evrópu

Harpa hefur gjörbreytt markaðinum hér á landi

Reykjavík hefur verið verið valin besti MICE áfangastaður í Evrópu af tímaritinu Business Destination en MICE stendur fyrir „Meetings, Incentives, Conferences and Events“ eða fundir, hvataferðir, ráðstefnur og viðburðir. Tilkynnt var um verðlaunin í síðustu viku en verðlaunin koma í kjölfar metárs í komu viðburða- og hvataferða gesta sem fjölgaði um 21% í Reykjavík á liðnu ári og voru í fyrsta skipti yfir 100.000.

Þorsteinn Örn Guðmundsson framkvæmdastjóri Ráðstefnuborgar Reykjavíkur (Meet in Reykjavík) segir þetta mikinn áfanga og viðurkenningu á því öfluga starfi sem unnið hefur verið af Reykjavíkurborg og aðildarfélögum í Ráðstefnuborg Reykjavíkur. „Ráðstefnu- og hvataferðagestir eru vaxandi markhópur hér á landi.  Það hefur verið áætlað að hver MICE-ferðamaður skili um tvöfalt meiri tekjum en aðrir ferðamenn og að afleidd jákvæð áhrif af komu slíkra ferðamanna á lykilatvinnuvegi og háskóla landsins reiknast rúmlega tvöföld upphæð til viðbótar. Það ættu því að vera sameiginleg markmið okkar allra að auka hlutdeild hópsins. Þessi verðlaun setja okkur í flokk með helstu ráðstefnuborgum Evrópu og viðbúið að þau komi okkur í valmengi fjölda kaupenda af slíkri þjónustu,“ bætir Þorsteinn við.

Áshildur Bragadóttir forstöðumaður Höfuðborgarstofu og stjórnarformaður Meet in Reykjavík tekur í sama streng. „Þetta eru ánægjuleg tíðindi og ljóst að þau munu hafa jákvæð áhrif á afar mikilvægan hóp þeirra sem ákveða hvar skuli halda ráðstefnur. Við höfum lagt áherslu á að fá MICE ferðamenn til landsins. Þetta er sá hópur ferðamanna sem skilar einna mestu til þjóðarbússins og þá koma 80% þeirra utan háannar.  Það er greinilegt að við erum á réttri leið þegar kemur að þessum markaði enda getum við boðið uppá eitt glæsilegasta ráðstefnuhús í Evrópu  og önnur gæði og þjónustu sem þessi hópur krefst.“  

Tilkoma Hörpu hefur gjörbreytt markaðinum hér á landi og hefur fjöldi ráðstefna með fleiri en þúsund þátttakendum tólfaldast síðan Harpa opnaði árið 2011.

Verðlaun tímaritsins Business Destination eru ein þau virtustu sem veitt eru þjónustuaðilum viðskiptaferða. Þau eru veitt í nokkrum flokkum sem tengjast viðskiptaferðum og hafa íslenskir þjónustuaðilar verið sigursælir undanfarin ár.

 Í fyrra hlaut Harpa verðlaun sem besta ráðstefnhús Evrópu og árið á undan var Fríhöfnin í Leifstöð valin besta flugvallarfríhöfnin. Fjölbreyttur hópur stjórnenda fyrirtækja og félagasamtaka sem kaupir og skipuleggur viðskiptaferðalög auk viðskiptaferðamanna  velja sigurvegara á hverju ári.

Áshildur Bragadóttir og Þorsteinn Örn Guðmundsson