x checkmark sr arrow-right brouchure calendar check clock close compass conference download easel epal facebook food-and-shopping food fullscreen grid halls harpa-icon harpa sinfo instagram leaf like listi magnify mail menu minify minus move music opera pictures play plus qoute recording search select-alt select shopping simple-arrow-left simple-arrow-right sitemap telephone ticket twitter youtube spotify snapchat linkedin youtube

Múlinn Jazzklúbbur

Það er komið að opnunartónleikum vortónleikaraðar Jazzklúbbsins Múlans miðvikudaginn 7. febrúar í Björtuloftum. Spennandi dagskrá Múlans hefst að þessu sinni með tónleikum gítarleikarans Andrésar Þórs Gunnlaugssonar og kvartett hans. Ásamt honum koma fram Agnar Már Magnússon sem leikur á píanó, bassaleikarinn Þorgrímur Jónsson og Scott McLemore sem leikur á trommur. Þeir félagar munu leika glænýja efnisskrá af brakandi ferskum lögum úr smiðju Andrésar. Hægt er að nálgast miða hér.

Alls eru sextán spennandi tónleikar á dagskránni flesta miðvikudaga fram til 23. maí. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og fara fram á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu.

Múlinn er að hefja sitt 22. starfsár en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg, Tónlistarsjóðnum og SUT sjóðnum og er í samstarfi við Heimstónlistarklúbbinn og Hörpu.

 

14. febrúar – Agnar Már Magnússon tríó

Agnar Már Magnússon, píanó
Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson, bassi
Scott McLemore, trommur

Á efnisskrá tónleikana verður frumflutt ný frumsamin tónlist eftir Agnar. Tríóið hefur leikið saman um árabil og gáfu þeir frá sér geisladiskinn Svif árið 2016. 

21. febrúar – Vistir, Þórdís Gerður og hljómsveit

Þórdís Gerður Jónsdóttir, selló
Guðmundur Pétursson, gítar
Steingrímur Karl Teague, píanó
Andri Ólafsson, bassi
Matthías M.D. Hemstock, slagverk

Á tónleikunum verður flutt spennandi tónlist eftir Þórdísi Gerði sem samin var á árunum 2013-2015. Meginmarkmið verkefnisins eru tvö. Annars vegar að finna sellóinu hlutverk sem leiðandi hljóðfæri í jazzi og spunatónlist og hins vegar að nálægast jazz og spuna eins og að um klassíska kammertónlist væri að ræða. Reynt verður að ná því fram að spuni hljómi eins og skrifuð tónlist og að skrifuð tónlist hljómi eins og spuni.

28. febrúar – Tríó Kristjáns Marteinssonar, “Ahmad’s blues tribute”

Kristján Martinsson, píanó
Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson, bassi
Magnús Trygvason Eliassen, trommur

Það er ekki á hverjum degi sem píanóleikarinn Kristján, sem búsettur er í Amsterdam, spilar á tónleikum á Íslandi. Kristján leiðir hér tríó sem spilar tónlist innblásna af Ahmad Jamal tríói og þá sérstaklega lög af plötunni Ahmad’s Blues. Þrjú orð sem lýsa tríóinu best eru: spilagleði, sprengikrafur og húmor.

7. mars – Kvartett Kjarr

Jesper Blæsbjerg, trompet og flygilhorn
Jakob Hagedorn Olsen, gítar
Guðjón Steinar Þorláksson, bassi
Jón Óskar Jónsson, trommur

Kvartettinn hefur spilað saman allskyns tónlist á undanförnum árum. Að þessu sinni fá þeir skemmtilegan gest í heimsókn trompetleikarann Jesper Blæsbjerg frá Danmörku. Hljóðfæraskipan kvartettsins myndar ljúfan hljóðheim og spilastíllinn einkennist af lýrískum og skapandi spuna. Leiknar verða djassperlur eftir höfunda á borð við Monk, Hancock, Jarrett og Swallow í bland við frumsamið efni.

Þriðjudagur 13. mars – Sigmar Þór Matthíasson, Áróra 

Snorri Sigurðarson,  trompet og flygilhorn
Helgi Rúnar Heiðarsson, saxófónn og klarinett
Jóel Pálsson, saxófónn og klarinett
Kjartan Valdemarsson, píanó
Sigmar Þór Matthíasson, bassi
Magnús Trygvason Eliassen, trommur

Bassaleikarinn Sigmar Þór Matthíasson stefnir á útgáfu sinnar fyrstu sóló plötu síðar á þessu ári en upptökur fara fram um miðjan mars mánuð. Sigmar ætlar að prufukeyra efnið með hljómsveit sinni á tónleikunum. Tónlistinni, sem er öll frumsamin má lýsa sem kraftmikilli blöndu af jazzi, poppi og rokki sem ber keim af nokkurri ævintýramennsku en þó stöðugleika á köflum.

21. mars – Una Stef

Una Stefánsdóttir, söngur og píanó
Elvar Bragi Kristjónsson, trompet
Albert Sölvi Óskarsson, saxófónn
Sólveig Morávek, saxófónn
Daníel Helgason, gítar
Baldur Kristjánsson, bassi
Sólrún Mjöll Kjartansdóttir, trommur

Tónlistarkonan Una Stef steig fyrst fram á sjónarsviðið árið 2014 þegar hún gaf út sína fyrstu plötu “Songbook” en hún hefur síðan þá verið áberandi í íslensku tónlistarlífi og á öldum ljósvakans bæði sem lagasmiður og söngkona. Una vinnur nú að nýrri plötu en öll sýnishorn af plötunni hafa skotið sér beint á vinsældarlista útvarpsstöðva landsins og vakið athygli utan frá. 

28. mars – Scott McLemore Quartet

Hilmar Jensson, gítar
Pierre Perchaud, gítar
Mats Eilertsen, bassi
Scott McLemore, trommur

Scott kynnir til leiks nýjan fjölþjóðlegan kvartett sem er á leið í hljóðver til að taka upp nýja frumsamda tónlist hljómsveitarstjórans. Opin og melódísk jazz tónlist frá alþjóðlegu sjónarhorni.

4. apríl – Maria Baptist / Sigurður Flosason kvartett

Sigurður Flosason, saxófónn
Maria Baptist, piano
Þorgrímur Jónsson, bassi
Erik Qvick, trommur

Þýski píanóleikarinn Maria Baptist og saxófónleikarinn Sigurður Flosason sameina krafta sína og bjóða upp á kvartett sem flytur spennandi tónlist eftir þau bæði. Maria Baptist er alþjóðlega þekkt sem höfundur stórsveitatónlistar, stjórnandi og píanóleikari, en sem slík hefur hún meðal annars stjórnað Stórsveit Reykjavíkur. Hún er prófessor við Hans Eisler háskólann í Berlín.

10. apríl – Camus kvartett

Sölvi Kolbeinsson, saxófónn
Rögvaldur Borgþórsson, gítar
Birgir Steinn Theodórsson, bassi
Óskar Kjartansson, trommur

Kvartettinn var stofnaður 2014 af samnemendum í tónlistarskóla FÍH. Hljómsveitin mun leika sína uppáhalds jazz standarda í bland við frumsamið efni. 

18. apríl – Rósa Guðrún Sveinsdóttir – Esperanza

Rósa Guðrún Sveinsdóttir, söngur og saxófónn
Jóel Pálsson, saxófónn
Sunna Gunnlaugs, píanó,
Þorgrímur Jónsson, bassi
Matthías M.D. Hemstock, trommur

Rósa Guðrún og hljómsveit ætlar að flytja lög eftir bandaríska bassaleikarann og söngkonuna Esperönzu Spalding. Spalding er er rísandi stjarna í jazzheiminum og hefur gefið út sex breiðskífur. Tónlist Esperönzu spannar marga stíla, allt frá ljóðrænum ballöðum yfir í hraðara fönk og latin, og allt þar á milli.