Ekkert fannst
Ljósaganga UN Women fer fram mánudaginn 25. Nóvember kl.17 á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Dagurinn markar upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem UN Women á Íslandi ásamt fjölda annarra öflugra félagasamtaka hér á landi eru í forsvari fyrir.
Yfirskrift Ljósagöngunnar í ár er Kynbundið ofbeldi á vinnustöðum, en Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands leiðir gönguna.
Í kjölfar MeToo hreyfingarinnar hafa ýmis fyrirtæki og stofnanir tekið af skarið og lýst því yfir að kynbundið ofbeldi verði ekki liðið innan sinna veggja. Það er gríðarlega mikilvægt að vel unnin aðgerðaráætlun fylgi slíkum yfirlýsingum, svo ekki standi eftir orðin tóm. Skilvirk aðgerðaráætlun þarf að innihalda eftirfarandi atriði: algjört umburðarleysi gagnvart kynbundnu ofbeldi, þolenda-miðaða úrvinnslu í slíkum málum, þjálfun, sameiginleg markmið starfsfólks og öruggar tilkynningaleiðir. Stjórnendur fyrirtækja og stofnana verða að tryggja að algjört umburðarleysi gagnvart kynbundnu ofbeldi og -áreitni verði að vinnustaðamenningu sem allt starfsfólk tileinkar sér.
Gangan hefst klukkan 17.00 á Arnarhóli við styttu Ingólfs Arnarsonar og gengið verður suður Lækjargötu, upp Amtmannsstíg að Bríetartorgi. Harpa verður lýst upp í appelsínugulum lit, sem er táknrænn litur fyrir von og bjarta framtíð kvenna og stúlkna án ofbeldis. Á Bríetartorgi verður síðan boðið upp á heitt kakó og Skólakór Kársness flytur nokkur lög.
Kerti verða seld á staðnum á 500 kr.
UN Women á Íslandi hvetur öll til að mæta og sýna samstöðu.