Ekkert fannst
Í dag, föstudag 27. september, mun ljósaverk listakonunnar Hrundar Atladóttur taka yfir glerhjúp Hörpu. Listaverkið slær botninn í röð viðburða sem haldnir hafa verið í tengslum við Alþjóðlega loftslagsverkfallið sem staðið hefur yfir vikuna 20.-27. september. Myndin af ísbirninum hér fyrir ofan er frá öðru verki Hrundar sem var á ljósahjúp Hörpu fyrir viku síðan.
Hrund Atladóttir útskrifaðist frá vídeódeild Gerrit Rietveld Academie í Hollandi árið 2008 og tók önn í hreyfimyndagerð við Seika University í Kyoto, Japan. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga hérlendis og erlendis, ásamt því að hafa haldið einkasýningar. Hún bjó í fimm ár í New York þar sem hún starfaði við myndlist og hreyfimyndagerð en hefur verið búsett á Íslandi frá árinu 2014 og vinnur nú að sinni fyrstu teiknimynd í fullri lengd þar sem hálendi Íslands er í forgrunni.
Við hvetjum alla sem eiga leið framhjá Hörpu í kvöld að skoða þetta flotta listaverk. Það verður samkoma vegna verksins á Ský Restaurant & Bar, frá kl. 21:30-00:00, sem er beint á móti Hörpu. Hluti barsins vísar að Hörpu og er frábær staðsetning til sjá allan glerhjúpinn.