x checkmark sr arrow-right brouchure calendar check clock close compass conference download easel epal facebook food-and-shopping food fullscreen grid halls harpa-icon harpa sinfo instagram leaf like listi magnify mail menu minify minus move music opera pictures play plus qoute recording search select-alt select shopping simple-arrow-left simple-arrow-right sitemap telephone ticket twitter youtube spotify snapchat linkedin youtube

Jákvæð EBITDA þriðja árið í röð

Velta af ráðstefnuhaldi aldrei hærri

Í samráði við eigendur, Ríkissjóð og Reykjavíkurborg, og samkvæmt ráðleggingum endurskoðenda Hörpu hjá PwC hafa tvær afgerandi breytingar verið gerðar á reikningsskilum tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu ohf. Breytingarnar hafa það að meginmarkmiði að reikningsskil Hörpu gefi gleggri mynd af rekstri félagsins og hefur ársreikningur þess fyrir árið 2019 verið færður með þeim hætti. ,,Breytt reikningsskil eru liður í samstarfi stjórnenda Hörpu og eigenda félagsins um að finna raunhæfan rekstrargrundvöll fyrir Hörpu svo húsið megi þjóna sem best sínu samfélagslega hlutverki til framtíðar. Hér er um að ræða einskiptis aðgerð, leiðréttingu, og með því er stigið mikilvægt fyrsta skref í vinnu sem mun halda áfram á næstu misserum. Það er sameiginlegt markmið allra sem að verkefninu koma að gera húsið sjálfbært á sama tíma og svigrúm skapast til að vinna að metnaðarfullri framtíðarsýn,“ segir Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir formaður stjórnar Hörpu.

Breytingar á reikningsskilaaðferðum
Stjórn samstæðunnar, með samþykki eigenda, ákvað að breyta reikningsskilaaðferðum við gerð ársreiknings samstæðunnar og færa langtímafjáreign í efnahagsreikningi sem byggir á samningi Hörpu annars vegar og íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar hins vegar um starfsemi og rekstur Hörpu, dagsettum þann 12. apríl 2013. Í samræmi við ákvæði laga og settra reikningsskilareglna ber að breyta fjárhæðum samanburðarárs þannig að gildisdagur breyttra reikningsskilaaðferða sé þann 1. janúar 2018. Áhrif breytinganna, sem bókfærðar voru á þeim degi, voru 19,9 milljarðar króna hækkun langtímafjáreignar, rúmir 2,9 milljarðar króna hækkun tekjuskattsskuldbindingar og 16,9 milljarðar króna hækkun eigin fjár. Uppfærsla langtímafjáreignar er í samræmi við ákvæði 20. greinar alþjóðlegs reikningsskilastaðals, IAS 20, um opinber framlög.

Tekjuvirði tekur mið af dómi Hæstaréttar
Stjórn samstæðunnar, með samþykki eigenda, ákvað jafnframt að breyta reikningshaldslegu mati fasteignarinnar Hörpu, úr því að vera í samræmi við endurheimtanlegt verð í að vera bókfærð til eignar í samræmi við tekjuvirði.Fasteigin er nú metin á 9,4 milljarða. Ákvörðunin um breytingu reikningshaldslegs mats fasteignarinnar til tekjuvirðis tekur mið af dómi Hæstaréttar Íslands nr. 477/2015. Virðisrýrnun fasteignarinnar sem leiddi af matsbreytingunni nam 7,1 milljarði króna, án áhrifa reiknaðs tekjuskatts, og er færð til gjalda í rekstrarreikningi á árinu 2019 í samræmi við ákvæði laga og settra reikningsskilareglna. Þetta býr til einskiptis bókfært tap sem er alls ótengt kjarnarekstri Hörpu. Samhliða nýju virðismati var ákveðið að breyta líftíma fasteignarinnar þannig að hann miðast nú við 50 ár í stað 100 ára og endurspeglar þessi hækkun afskrifta betur viðhalds- og endurnýjunarþörf hússins.

Handbært fé 770 mkr. í árslok
Eignfærsla á langtímafjáreignarkröfu Hörpu á eigendur vegna stofnkostnaðar hækkar eigið fé Hörpu sem eftir heildarbreytingar á reikningsskilum er jákvætt sem nemur 10,8 milljörðum króna. Fyrri reikningsskilaaðferð fól í sér innbyggt misgengi í fjármagnsgjöldum sem hefði á fáum árum leitt til þess að eigið fé hefði orðið neikvætt um milljarða króna. Handbært fé hækkar um 159 milljónir króna og nam 770 milljónum í árslok.

Jákvæð EBITDA þriðja árið í röð
Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 33,6 milljónir króna árið 2019, samanborið við 42,2 milljónir króna árið 2018 og er það þriðja árið í röð sem það markmið næst að skila rekstrarhagnaði. Tekjur af starfsemi samstæðunnar námu 1,2 milljörðum króna og hækkuðu á milli ára þrátt fyrir færri viðburði en árið 2018. Umbætur í kjarnastarfsemi skila því bættri framlegð. Rekstrarframlag frá eigendum nam 450 milljónum króna og námu rekstrartekjur því alls 1,6 milljörðum króna.

Húsnæðiskostnaður var alls 654,2 milljónir króna og hækkaði um 58,6 milljónir króna á milli ára. Þar af nam hækkun fasteignagjalda 40,5 milljónum króna og námu fasteignagjöld ársins 307,6 milljónum króna. Laun og launatengd gjöld voru 523,7 milljónir króna. Áhrif kjarasamninga og leiðrétting á tímabundinni fækkun stöðugilda síðastliðin þrjú ár leiddu til 9,5% hækkunar launakostnaðar milli ára. Aðkeypt þjónusta dróst saman um 34,9 milljónir króna og nam alls 267,4 milljónum króna en annar rekstrarkostnaður nam 180,2 milljónum króna. Rekstrargjöld námu alls 1.625,9 milljónum króna. Tap að fjárhæð 5,9 milljörðum króna varð af heildarstarfsemi samstæðunnar á árinu, samanborið við 197,8 milljóna króna tap árið 2018. Hærra bókfært tap má nánast alfarið rekja til virðisrýrnunar fasteignar og hækkun á afskriftum sbr. áðurnefnt.

Aukin áhersla á fjölskyldur og velta í ráðstefnuhaldi aldrei hærri
Á árinu 2019 voru haldnir 1.332 viðburðir í Hörpu samanborið við 1.430 á árinu 2018 og munaði þar mest um nokkuð minni umsvif í tónlistarhátíðum og viðburðum fyrir ferðamenn. Haldinn var 721 listviðburðurr, þ.e. tónleikar, leik- og listsýningar og voru tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands þar af 108 talsins.

,,Við lögðum ríka áherslu á viðburði fyrir börn og fjölskyldur sem voru 144 og tvöfaldaðist fjöldinn á milli ára. Ráðstefnuhaldið var einnig mjög öflugt en það voru haldnar 411 ráðstefnur, fundir og veislur og hefur velta þessa viðburðaflokks aldrei verið hærri. Alþjóðlegar ráðstefnur sem skila verulegum tekjum til þjóðarbúsins voru 26 og hafa aldrei verið fleiri. Harpa hefur verið í mikilli sókn á þessum vettvangi og mun án efa gegna lykilhlutverki í móttöku ferðamanna og eflingu ráðstefnuhalds um leið á rofar aftur til,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu.

Alls voru haldnir 430 viðburðir og sérstakar leiðsagnir fyrir ferðamenn auk þess sem boðið var upp á rúmlega 800 almennar leiðsagnir um húsið. Þá má geta þess að um 232 þúsund aðgöngumiðar voru afgreiddir í gegnum miðasölu Hörpu á árinu samanborið við um 292 þúsund 2018, en auk þess voru fjölmargir aðrir viðburðir í Hörpu án miðasölu. Heildarvelta miðasölu vegna viðburða á árinu nam um 1,3 milljörðum króna. Áætlað er að 2019 hafi tæplega tvær milljónir gesta heimsótt Hörpu.

Aðgerðaáætlun til næstu fimm ára
Stefnumótunin Harpa – ávallt á heimsmælikvarða og aðgerðaáætlun til næstu fimm ára sem unnin var á síðasta ári felur m.a. í sér fyrstu dagskrárstefnu hússins sem mótuð var í samráði við Listráð Hörpu, aukinn kraft í sókn á erlenda markaði til að fjölga alþjóðlegum viðburðum, áform um endurskoðun á jarðhæð Hörpu og undirbúning fyrir 10 ára afmæli Hörpu árið 2021.

Harpa ómetanleg fyrir okkur sem þjóð
„Það er ómetanlegt að eiga hús eins og Hörpu fyrir okkur sem þjóð. Húsið er snar þáttur í því að halda myndarlega utan um fjölbreytta menningarviðburði og er meðal annars til vitnis um mikilvægi þess fjölbreytta menningarhlutverks sem Harpa gegnir í íslensku þjóðlífi. Það er ánægjulegt að sjá hversu vel hefur tekist að rétta við reksturinn og ég vænti þess að breyttar reikningsskilaaðferðir sem nú hafa verið kynntar til sögunnar muni gera reksturinn enn gegnsærri,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í tilefni samþykktar ársreiknings eigenda Hörpu, þar sem ríkissjóður á 54% hlut á móti 46% Reykjavíkur.

Rekstrarhagnaður þriðja árið í röð
„Á aðalfundinum í dag var verið að taka mikilvægt skref í breyttum reikningsskilaaðferðum Hörpu. Breytingin hefur átt sér talsverðan aðdraganda og er liður í endurskoðun á rekstrarmódeli hússins. Það er ánægjulegt að sjá hvernig stjórn og stjórnendur Hörpu hefur tekist að stýra rekstrinum og nú sjáum við rekstrarhagnað þriðja árið í röð. Við upplifðum líka stærsta árið okkar í ráðstefnuhaldi frá upphafi í fyrra, þótt árið í ár verði vissulega með öðrum hætti. Þá sjáum við einnig gríðarlega uppbyggingu í kringum húsið sem mun veita Hörpu mikil sóknarfæri. Harpa gegnir mjög mikilvægu hlutverki fyrir Reykjavík, bæði sem frábært tónlistarhús og menningarmiðja í miðborginni, en ekki síður sem glæsilegasta ráðstefnuhús í Evrópu. Harpa dregur því til borgarinnar alþjóðlega viðburði og ráðstefnur sem annars hefðu ekki komið til Íslands og því viljum við stuðla að því að starfsemin sé sem öflugust,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Stjórn Hörpu var endurkjörin á fundinum en hana skipa Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, formaður, Aðalheiður Magnúsdóttir, Arna Schram, Árni Geir Pálsson og Guðni Tómasson.

Sjá nánari upplýsingar í ársreikningi Hörpu ráðstefnu- og tónlistarhúss ohf. fyrir 2019 sem má finna á neðangreindri síðu ásamt ársreikningum fyrri ára:

Ársreikningur 2019 ásamt fyrri ársreikningum.