x checkmark sr arrow-right brouchure calendar check clock close compass conference download easel epal facebook food-and-shopping food fullscreen grid halls harpa-icon harpa sinfo instagram leaf like listi magnify mail menu minify minus move music opera pictures play plus qoute recording search select-alt select shopping simple-arrow-left simple-arrow-right sitemap telephone ticket twitter youtube spotify snapchat linkedin youtube

Harpa í sumarham

vönduð sumardagskrá og góðar stundir

Harpa er komin í sumarham og býður upp á fjölbreytta dagskrá næstu vikurnar. Dagskráin höfðar ekki síst til erlendra gesta sem sækja húsið heim í stórum stíl. Tónleikar, leiksýningar, skoðunarferðir, veitingar og alls kyns tilboð á skemmtilegri upplifun.

Hádegistónleikaröðin Reykjavik Classics er að hefja sitt þriðja starfsár í Eldborg með tónleikum alla daga kl. 12:30 fram til 6. ágúst.

Múlinn jazzklúbbur leikur í Björtuloftum á miðvikudags- og föstudagkvöldum undir yfirskriftinni Jazz with a View og býður upp á metnaðarfullan jazz frá ýmsum heimshornum.

Tvær vinsælar leiksýningar á ensku verða áfram sýndar og eykst tíðnin yfir sumarmánuðina. How to Become Icelandic in 60 Minutes er á sínu sjötta sýningarári í Hörpu. Sýningin er sambland af söguleikhúsi og uppistandi þar sem reynt verður að kenna þeim sem sýninguna sækja að verða Íslendingar. Icelandic Sagas er stórskemmtileg leikræn rússíbanareið í gegnum þjóðararf íslensku fornbókmenntanna og er á sínu þriðja sýningarári í Hörpu.

Hver fer að verða síðastur að sjá sýningu Daniel Lismore, Be Yourself, Everyone Else is Already Taken sem er opin alla daga frá 12:30 – 20:00. Daniel býður sjálfur upp á skoðunarferð um sýninguna alla daga kl. 15:00.

Daglegum skoðunarferðum um Hörpu fjölgar í sumar og eru mjög vinsælar meðal erlendra ferðamanna. Þær fara fram á ensku en einnig er að bóka sérferðir á íslensku.

Í sumar verða í boði spennandi afþreyingarmöguleikar svo gestir geti upplifað fjölbreytta þjónustu í Hörpu á betri kjörum. Þar má nefna ferð sem hefst með skoðunarferð um Hörpu sem leiðir gestinn á tónleika í Eldborg og endar með mat á Smurstöðinni. Öll tilboðin má sjá á harpa.is/sumar.

Nánar um dagskrá og þjónustu í Hörpu í sumar

Reykjavik Classics

Reykjavik Classics býður upp á klassíska tónlist í Eldborg í túlkun fremstu listamanna þjóðarinnar auk erlendra gestaflytjenda í einum af ,,tíu bestu tónleikasölum samtímans” (Gramophone). Reykjavik Classics hófst 21. júní með 30 mínútna daglegum hádegistónleikum, þar sem meistaraverk tónlistarsögunnar verða flutt á fjölbreyttum efnisskrám hverrar viku, t.d. eftir Mozart, Beethoven, Schumann og Mendelssohn. Listamenn Reykjavik Classics eru einleikarar úr fremstu röð. Listrænn stjórnandi er Dr. Nína Margrét Grímsdóttir, píanóleikari. Tónleikaröðin stendur til 6. ágúst.

Jazz with a View

Tónleikadagskrá Múlans í Björtuloftum er bæði metnaðarfull og fjölbreytt og er gott dæmi um þá miklu grósku sem einkennir íslenskt jazzlíf um þessar mundir. Í sumar bætast föstudagskvöldin við og geta gestir notið þess að hlusta á gæðajazz á góðu verði með frábæru útsýni yfir sundin blá. Í sumar geta gestir ýmist fengið innblástur af indie jazz eða latin jazz án þess að þó að þurfa að sakna hins hefðbundna jazz frá gullaldarárum.

 Skoðunarferðir

Skoðunarferðir um Hörpu eru mjög vinsælar með erlendra gesta. Leiðsögumenn Hörpu segja gestum allt um hönnunina, hinn einstaka glerhjúp Ólafs Elíassonar og allt hitt sem gerir Hörpu að því einstaka mannvirki sem hún er. Skoðunarferðir eru á heila tímanum frá 10:00 – 17:00 fram að Menningarnótt. Nánari upplýsingar á harpa.is/skodunarferdir.

 Iceland in a Box: A Visual Tour

Iceland in a Box er titillinn á Expó skálanum sem settur var upp á heimssýningunni í Sjanghæ og síðar á bókamessunni í Frankfurt. Í skálanum er sýnd 15 mínútna íslensk kvikmynd framleidd af Sagafilm, þar sem íslenskri náttúru er varpað á fjórar hliðar skálans sem myndar þannig tening utan um gesti. Á fjórðu milljón hafa séð kvikmyndina, en markmið hennar er að skapa einfalda og áhrifaríka undraveröld sem fær gesti til að nema staðar, draga djúpt að sér andann og upplifa Ísland í návígi.

Daniel Lismore

Daniel Lismore er listamaður, fatahönnuður, stílisti fræga fólksins, rithöfundur og virkur baráttumaður fyrir mannréttindum og náttúruvernd. Tímaritið Vogue kallaði hann England‘s most outrageous dresser og hann er þekktur fyrir íburðarmikinn og yfirgengilegan klæðnað sem sameinar á stórkostlegan máta hátísku, hans eigin hönnun, notuð efni, fundna hluti, hringabrynjur, skartgripi ólíkra menningarhópa, hattagerðarlist og margt meira. Úr verður ein allsherjar tjáning skapandi orku. Sýningunni, sem er á austurhlið Hörpu lýkur 30. júní nk.

Aðgengi og þjónusta

Aðgengi upp á efri hæðir í Hörpu er  stýrt yfir sumartímann enda dregst hefðbundið viðburðahald mjög saman s.s. ráðstefnur, fundir og kvöldtónleikar. Skipulagðar skoðunarferðir tryggja gestum gott aðgengi með fræðslu um sögu og starfsemi hússins. Harpa er einn fjölsóttasti ferðamannastaður í Reykjavík og sækir afar mikill fjöldi erlendra ferðamanna húsið heim – ekki síst yfir sumartímann. Til að tryggja góða ásýnd Hörpu og mæta kostnaði verður líkt og áður tekið hóflegt gjald eða 250 kr. fyrir afnot af snyrtingum á bílakjallarahæð. Allir gestir á viðburði og veitingastaði í Hörpu nýta sér snyrtingar í Hörpu gjaldfrjálst.

Nánari upplýsingar um einstaka viðburði og dagsetningar er að finna á https://www.harpa.is/dagskra/

Nánari upplýsingar veitir markaðsdeild, marketing@harpa.is /5285010