x checkmark sr arrow-right brouchure calendar check clock close compass conference download easel epal facebook food-and-shopping food fullscreen grid halls harpa-icon harpa sinfo instagram leaf like listi magnify mail menu minify minus move music opera pictures play plus qoute recording search select-alt select shopping simple-arrow-left simple-arrow-right sitemap telephone ticket twitter youtube spotify snapchat linkedin youtube

Harpa frestar viðburðum og lokar tímabundið

Harpa verður ekki opin almenningi frá og með miðvikudeginum 7. október og í samræmi við tilmæli sóttvarnarlæknis verða viðburðir sem fyrirhugaðir voru næstu vikurnar felldir niður eða þeim frestað.

Harpa er fjölsóttasta samkomuhús þjóðarinnar. Með þessum ráðstöfunum vill Harpa sýna í verki afdráttarlausan stuðning við hertar sóttvarnaraðgerðir svo vinna megi bug á þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin í samfélaginu vegna Covid-19.

,,Við vonumst auðvitað til að þetta taki fljótt af og að við getum opnað húsið aftur sem allra fyrst með fjölbreyttu og ábyrgu viðburðahaldi. Við leggjum ríka áherslu á að starfsemin í Hörpu sé í einu og öllu í samræmi við fyrirmæli stjórnvalda um varnir gegn Covid-19 og nú ríður á að allir standi saman um að ná faraldrinum niður með ábyrgri hegðun. Menning og listir leika mjög mikilvægt hlutverk við að halda samfélaginu gangandi og andlegu hliðinni okkar heilbrigðri. Við hlökkum því til að geta innan tíðar farið aftur að sinna því þakkláta verkefni að taka á móti gestum í Hörpu,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu.

Miðasala Hörpu þjónar áfram viðskiptavinum í gegnum síma og net og verður opin á milli kl. 12.00 – 16.00 alla daga vikunnar. Bílahús Hörpu verður áfram opið eins og venjulega.